Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 23:11:12 (7086)

2004-04-28 23:11:12# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[23:11]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég fæ nú orðið þegar umræðan er orðin nokkuð löng og þó bað ég um orðið jafnt og allir aðrir í upphafi, en mér skilst að það hafi verið 22 á mælendaskránni strax og umræður hófust og þær standa enn.

Hvaða neyðarástand skyldi reka menn sem styðja núverandi ríkisstjórn til þess að koma inn með þetta mál þegar svo mikið er liðið á þing og svo mikið er í húfi? Ég vil meina að það ástand sem hér er uppi hafi hafist 3. mars 2003, á bolludaginn, sem hefur tekið á sig þá mynd sem við höfum séð. Þá byrjaði umræðan um Baug og þau fyrirtæki sem honum tengjast.

Skýrslan sem við ræðum nú gefur okkur ágæta mynd af stöðunni á markaðnum. Mér hefur heyrst að þeir sem hafa talað í dag séu allir þokkalega ánægðir með stöðuna. Hljóðvarpið RÚV er með sex rásir og 52% af hlustuninni. Aðrir eru með 48% af hlustuninni og þar af eru Norðurljós með 44% og sjö rásir. Í sjónvarpinu er Ríkisútvarpið með 43%, Norðurljós með 37% og Skjár 1 21%. Um þetta segir nefndin sem skilaði skýrslunni á bls. 81, með leyfi forseta:

,,Nefndin telur að sé eingöngu horft til fjölda miðla og litið fram hjá eignarhaldi hafi þróunin undanfarin missiri verið á margan hátt jákvæð. Er í því sambandi bent á að haldið er úti þremur dagblöðum á landsvísu sem hafa markverða útbreiðslu, þ.e. Fréttablaðinu, Morgunblaðinu og DV.

Þá verður að telja að skipting markaðar fyrir sjónvarp á þá þrjá aðila sem allir hafa marktæka stöðu á markaði sé ásættanleg þegar höfð er í huga smæð markaðarins.``

Þetta hefur verið lesið áður í dag en er líka þungamiðja málsins og lýsir ágætlega þeirri stöðu sem er á markaðnum. Hún er sem sagt alveg í lagi. Það liggur líka fyrir að þeir aðilar sem ákváðu að bjarga þeim fjölmiðlum sem hér hafa verið til umræðu frá gjaldþroti á undanförnum missirum eða mánuðum, hafa lýst því yfir að þeir hugsi sér að gera úr þessu almenningshlutafélag og setja það á markað. Hvers vegna liggur mönnum þá þessi ósköp á að hlaupa til og setja þær reglur sem hér eru á ferðinni? Ég vísa enn til bolludagsins. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það ekki trúverðugt sem hefur aðallega verið haldið fram í dag, að það sé út af miklum áhyggjum af eignarhaldinu.

[23:15]

Ég man eftir því þegar eignarhaldsumræðan var í gangi fyrir ekki svo voðalega löngu síðan. Hún snerist um það hvort svokallaður Orca-hópur mætti kaupa banka, reyndar ekki heilan banka heldur nokkurn hlut í banka og ekkert mjög stóran. Hæstv. forsrh. taldi það hið versta mál og taldi að það kæmi ekki til mála. Nokkrum missirum seinna var allt í lagi að selja félagi sem heitir Samson miklu stærri hlut í öðrum banka. Þetta segir mér ekki annað en að geðþóttaákvarðanir búi að baki því sem hér er að gerast á sama hátt og geðþóttaákvarðanir bjuggu að baki því að leggjast gegn kaupum Orca-hópsins á sínum tíma en styðja kaup Samsonar á öðrum banka, fáeinum missirum seinna.

Á bls. 84 í þessari skýrslu er sett fram afar athyglisverð niðurstaða nefndarinnar þar sem hún fjallar um þær leiðir sem taldar eru koma til greina til að tryggja fjölmiðlamarkaðinn. Fyrsta leiðin sem hópurinn leggur til, það fer ekki á milli mála að hann leggur hana til sem sína fyrstu tillögu, hefst sem hér segir:

,,Nefndin leggur fyrst til að hugað verði að stöðu Ríkisútvarpsins,`` og síðan er fjallað um Ríkisútvarpið í nokkrum liðum sem ég hef ekki tíma til að lesa, en í c-lið segir:

,,Í þriðja lagi má benda á að yrði þessi leið ein fyrir valinu, fæli hún ekki í sér neina beina reglusetningu sem beindist gegn einkareknum fjölmiðlum. Hún samræmist þar með að því leyti vel meginreglum um frelsi markaðarins, að öðru leyti en því að almenningsútvarpi yrði tryggður hluti markaðarins, en einkaaðilar skipti honum að öðru leyti á milli sín í frjálsri samkeppni ... Í fjórða lagi sýnist vera hægt að hrinda slíkum áformum í framkvæmd að mestu án breytinga á gildandi lögum.``

Þetta er fyrsta tillaga nefndarinnar og í raun er með orðalaginu vakin athygli á því að þetta sé tillaga nefndarinnar númer eitt.

Ég sé í frv. sem fylgir skýrslunni, sem hefur verið dreift á Alþingi í dag, að á þessa tillögu nefndarinnar hafa menn ekki fallist. Það er augljóst að í nefndinni hefur sú skoðun verið uppi að í raun væri hægt að leysa þau mál sem fjallað er um í skýrslunni með þessari einu leið.

Nefndin talar líka um að hægt sé að beita samkeppnislögum. Það höfum við samfylkingarmenn margoft talað um. Síðan kemur að þeirri aðferð sem nefndin leggur til eða, öllu heldur, fjallar um. Hún kemst ekki að niðurstöðu um hvaða leið eigi að velja af því sem þar er boðið upp á en ein af þeim er leyfisveitingar og það hvernig eigi að úthluta eða skilyrða úthlutanir á rásum. Þar er ýmislegt á ferðinni sem hefur greinilega ratað inn í frumvarpið, sem nú hefur verið sett framan á þá skýrslu sem hér hefur verið dreift.

Mér finnst niðurstaðan, þ.e. það sem menn hafa valið úr þessari skýrslu til að setja í frumvarpið afar sérkennileg, sérstaklega með það í huga að Sjálfstfl. ber upp þessar tillögur. Í þeim er að mér finnst farið gegn grundvallarafstöðu flokksins til viðskipta á markaði. Þannig er gengið frá málum í frv. að enginn sem telst hafa markaðsráðandi stöðu á einhverju sviði má eiga nokkurn skapaðan hlut í fjölmiðlum eins og fram hefur komið. Býsna margir aðilar geta fallið fyrir borð með þessum hætti. Í okkar litla samfélagi eru mjög margir markaðsráðandi á hinum ýmsu sviðum, allt frá páskaeggjaframleiðendum til Fóðurblöndunnar eða hvaða fyrirtækis sem hér hefur verið nefnt. (GAK: Mjólkursamsalan.) Mjólkursamsalan, já. Slík fyrirtæki eru víða þegar menn líta yfir sviðið.

En það er ekki nóg. Í frv. er gert ráð fyrir að fyrirtæki verði að vera samsett með tilteknum hætti til að mega eiga í fjölmiðli. Enginn má eiga meira en 25% í fyrirtæki til að það megi eiga í fjölmiðli. Sem sagt: Ef einhvern langar til að eiga í fjölmiðli þá skal fá með sér a.m.k. þrjá í kompaníið þótt hann hafi sjálfur verið með sjálfstæðan atvinnurekstur. Hann verður að hætta í þeim atvinnurekstri og fá með sér þrjá aðra í kompaní til að mega kaupa í fjölmiðli. Einstaklingur sem kýs að eignast fjölmiðil og hefur ekki félag á bak við rekstur sinn mætti eiga 100% í fjölmiðlinum. Þannig er það í frv. Þess vegna hafa menn grínast með það í fjölmiðlum í dag að líklega sé sá eini sem kemur til greina að eignist Norðurljós fyrrverandi eigandi þeirra, Jón Ólafsson, vegna þess að hann rak fyrirtækið undir sínu eigin nafni. Þetta er afar sérkennilegt svo ekki sé meira sagt, að menn skuli ganga frá málum með þessum hætti.

Ég ætla að koma að einu sem mér finnst skipta miklu máli og sæta stórtíðindum í því sem hér er lagt til. Hér voga menn sér, að ég best veit, í fyrsta skipti frá því lög um prentfrelsi voru sett á Íslandi, að leggja það til að prentfrelsi verði tekið af gagnvart tilteknum aðila á Íslandi. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti. Ég hef ekki nein dæmi um það neins staðar frá. Ég hef spurt hvort menn hafi fyrr látið sér detta það í hug eða haft þá afstöðu að hægt væri að setja lög sem banni einhverjum að gefa út blað. Hér er það sem sagt komið á blað. Í þessari skýrslu er tillaga um að banna þeim sem eiga hlut í fyrirtækjum með sjónvarpsrekstur eða útvarpsrekstur að gefa út blöð, væntanlega bæði dagblöð, með venjulegum hætti eins og Morgunblaðið, og líka ruslpóst og annað sem borið er í hús og ekki er tekið gjald fyrir.

Ég verð að segja að ég er hneykslaður á þessu. Mér finnst fáránlegt að menn skuli, á Íslandi árið 2004, hafa gleymt þeim hugmyndum um lýðræðið sem hafa fylgt umræðunni um prentfrelsi alla tíð, komnir inn á þá braut að láta sér detta í hug að banna einhverjum að gefa út blað, prentað blað. Það hafa menn látið sér detta í hug að gera hér.

Ég verð að segja að ég mun aldrei styðja neina tillögu sem gengur út á að taka prentfrelsið af nokkrum aðila, hvað sem hann heitir, hvort sem hann er ráðandi á markaði í einhverju tilliti eða þóknast mér ekki af einhverjum öðrum ástæðum. Mér finnst að það muni verða Alþingi Íslendinga til ævarandi minnkunar ef ganga skal á prentfrelsið, sem hluta af lýðræðislegum réttindum manna og fyrirtækja líka, ef það á að taka það af einhverjum. Það skulu vera lokaorð mín hér, hæstv. forseti.