Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 23:26:34 (7087)

2004-04-28 23:26:34# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), GAK
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[23:26]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Umræðan um þetta mál hefur staðið yfir lengi dags og allt gott um það. Hins vegar hefur margt nokkuð sérstakt borið við í aðdraganda þessarar umræðu og aðdraganda þeirrar skýrslu sem við ræðum um í dag. Í fyrsta lagi ber að nefna, hæstv. forseti, að skýrslan var gefin út 2. apríl en við erum hér, í lok apríl, að ræða hana. Hún hefur sem sagt verið til skoðunar hjá stjórnvöldum í nokkuð langan tíma. Skýrslan var til umræðu í fjölmiðlum í um skeið áður en þingmönnum var gert kleift að sjá hana. Með einhverjum hætti var henni lekið og m.a. birt á vefsíðu eins hv. þm. heilu lagi. Þetta er nokkuð sérstakt.

Stundum hefur hæstv. forseti gert athugasemdir vegna mála sem hér hefur átt að taka til umræðu. Ég minnist þess m.a. að hæstv. forseti gerði athugasemd út af ræðu hæstv. forsrh. sem einhvern veginn hafði komist í dreifingu áður en hún var flutt í þingsal. Það er nú kannski annað mál.

Hins vegar má benda á, hæstv. forseti, að frumvarpið sem fylgir þeirri skýrslu sem við ræðum hér um birtist á síðum Morgunblaðsins á þriðjudagsmorgni í heilu lagi með greinargerðum og öllu saman. Ég verð að segja að mér finnst nokkuð sérstakt þegar málin ber þannig að að frumvörpum er fyrst dreift í fjölmiðla. Ég fékk a.m.k. þá leiðsögn í hv. Alþingi að maður ætti ekki að dreifa frumvörpum, með greinargerðum og öllu saman, fyrr en búið væri að dreifa þeim á hv. Alþingi. Ég vildi láta þessa getið í upphafi máls míns, hæstv. forseti, að svona er málið í pottinn búið. Það er sérstakt, varðandi alla meðferð þessa máls sem við erum loksins farin að ræða á þingi, að skýrslan hafi verið birt í fjölmiðlum fyrir nokkru og síðan skuli frv. birt í Morgunblaðinu áður en það er lagt fram á hv. Alþingi.

Þetta eru kannski hin nýju tengsl ríkisvaldsins og fjölmiðlanna. Varla hefur þessu verið dreift af öðrum en þeim sem höfðu gögnin undir höndum, annars vegar ráðherrar í ríkisstjórninni og síðar þingmenn í stjórnarliðinu. Þar er varla öðrum til að dreifa.

[23:30]

Hæstv. forseti. Það vill svo til að sá sem hér stendur stóð að þáltill. um starfsumgjörð fjölmiðla sl. haust sem var rædd 2. desember ásamt fleiri þingmönnum. Fyrsti flm. að þáltill. var hv. varaþingmaður Vinstri grænna, Álfheiður Ingadóttir. Ég ætla að leyfa mér að vitna í nokkuð sem ég sagði undir þeirri umræðu í upphafi máls míns, en meginefni þáltill. hljóðaði upp á að skipa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka sem fái það verkefni að kanna starfsskilyrði fjölmiðla og hræringar á fjölmiðlamarkaði og hvert stefnir og hvort huga þurfi að sérstakri lagasetningu eða aðgerða til að treysta stöðu sjálfstæðs og fjölbreytts fjölmiðlareksturs hér á landi. Síðan skipaði hæstv. menntmrh. nefndina sem skilaði af sér þeirri skýrslu sem við ræðum nú. En til að taka af allan vafa um afstöðu mína til málefnisins sem var rædd í þáltill. og að hluta til til efnis þeirrar skýrslu sem verið er að ræða, vil ég leyfa mér að vitna í ræðu mína, með leyfi hæstv. forseta:

,,Ég tel það mjög eðlilegt, virðulegi forseti, að í fyrsta lagi sé algerlega skýrt og liggi fyrir og megi jafnvel setja um það lög að það skuli vera opinbert hverjir eigi fjölmiðla á hverjum tíma. Ég held að við hljótum að gera kröfu til þess til að geta dregið ályktanir af því ef okkur sýnist svo hvernig eignarhaldi fjölmiðla er fyrir komið.``

Þetta var fyrra atriðið sem ég vildi láta koma fram í upphafi máls míns.

Síðara atriðið er, með leyfi hæstv. forseta:

,,Tillagan fjallar m.a. um það að huga eigi að því hvort þörf sé lagasetningar eða aðgerða til að treysta stöðu sjálfstæðs og fjölbreytts fjölmiðlarekstrar hér á landi.``

Síðan segir:

,,Ef starfshópurinn eða nefndin sem sett verður á laggirnar kemst að þeirri niðurstöðu að þörfin sé brýn, þá að sjálfsögðu komi menn fram með tillögur í þá veru. Það liggur í hlutarins eðli. En það er alls ekki sjálfgefið af efni tillögunnar að hún sé beinlínis forskrift að lagasetningu. Hún er miklu frekar forskrift að því að skoða gaumgæfilega hvernig starfsemi fjölmiðla fer fram hér á landi og hvernig eignarhaldi á þeim er fyrir komið.``

Í niðurlagi ræðunnar sagði ég, með leyfi forseta:

,,Virðulegi forseti. Ég held að sú till. til þál. sem við ræðum nú um að skoða eignarhald og starfsemi fjölmiðla, hvernig því er varið í framtíðinni, sé af hinu góða og það sé ágætt fyrir okkur að fara í gegnum það. Ég tek það hins vegar fram, virðulegi forseti, að það er ekki sjálfkrafa ávísun á það að við setjum fram stíf eða ströng lög um þetta efni en vel kann þó að vera að það verði niðurstaðan.``

Þetta voru þau orð að meginefni til sem ég lét falla af tilefni þáltill. sem hér var flutt og við ræddum í byrjun desember á sl. ári.

Sú skýrsla sem við ræðum nú byggist á starfi nefndar sem var skipuð 19. desember 2003. Henni var fyrst og fremst ætlað að meta hvort tilefni væri til að setja reglur um eignarhald á fjölmiðlum, eins og segir í skýrslunni. Það kann vel að vera að eðlilegt sé að vandlega athuguðu máli að menn komist að þeirri niðurstöðu að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum, en ég held að huga þurfi að ýmsu fleiru en eingöngu því atriði. Ég er alls ekki viss um, eins og ég sagði í ræðu minni í desember, að þó að við færum að skoða starfsemi fjölmiðla og eignarhald og annað sem að því lýtur lægi það ekki fyrir fyrir fram að það leiddi til lagasetningar.

Hæstv. forseti. Ég get alls ekki séð að frv. sem er fremst byggt á þeirri skýrslu sem við ræðum sé þannig í pottinn búið að hægt sé að samþykkja það eins og það er úr garði gert. Nú er e.t.v. ekki ætlast til að við förum mörgum orðum um frv., en það verður þó varla hjá því komist að það blandist dálítið saman við umræðuna.

Það er ýmislegt í frv. sem vekur furðu og væri hægt að tengja við það sem kemur fram í skýrslunni, en að sumu leyti er alls ekki hægt að tengja það skýrslunni. Maður spyr: Er skynsamlegt að leggja upp með frv. eins og það er í pottinn búið, að aðilar sem með einhverjum hætti eru með markaðsráðandi stöðu í einhverri starfsemi megi ekki eiga krónu í útvarpsfjölmiðlum og það megi ekki vera sömu eignabönd á milli útvarpsfjölmiðla og blaðaútgáfu? Ég dreg mjög í efa að skynsamlegt sé að leggja þetta upp eins og gert er ráð fyrir í frv. og sem hv. þingmenn og hæstv. menntmrh. hafa lagt út af að væri byggt á efni og tillögum skýrslunnar.

Þegar þetta er skoðað kemur í ljós að á bls. 85 í skýrslunni segir um leyfisveitingar, liður 6.4.3, sem frv. byggir að mestu leyti á, með leyfi forseta:

,,Í tilmælum Evrópuráðsins er sérstaklega bent á að ein leiðin til að hafa áhrif á gerð og uppbyggingu fjölmiðlamarkaðarins sé með reglum um úthlutun leyfa til að reka fjölmiðla, einkum hljóðvarp og sjónvarp. Nefndin er sammála þessu og telur, þegar tekið er tillit til aðstæðna á íslenskum fjölmiðlamarkaði, að þetta sé sú leið sem helst beri að skoða. Ástæða er til að gera greinarmun á dagblöðum annars vegar og útvarpi (hljóðvarpi og sjónvarpi) hins vegar.``

Mér sýnist að frv. byggi algjörlega á þessu atriði og á það er útfærslan hengd. Það hefur verið tillaga hæstv. ríkisstjórnar eða e.t.v. tillaga hæstv. forsrh. Og 1. gr. frv. byggir nánast eingöngu á þessu atriði og það er ekki vikið að öðrum atriðum í frv. sem virkilega væri ástæða til að skoða eins og starfsfrelsi blaða- og fréttamanna og ritstjóra, að eignaböndin séu ljós og fleira mætti nefna.

Hins vegar segir, virðulegi forseti, í frv., e-lið, að útvarpsréttarnefnd geti vikið frá skilyrðum a- og b-liða. Ef hvað? Ef um er að ræða svæðisbundið hljóðvarp. Skilyrðin um eignaböndin eiga því ekki við varðandi svæðisútvarp. Það er hægt að fá undanþágu frá því. Ef útvarpsréttarnefnd samþykkir það virðist vera allt í lagi að markaðsráðandi öfl eigi í fjölmiðlum ef það er svæðisútvarp. Skyldi ekki vera hægt að búa til eins og sjö til átta svæðisútvörp á Íslandi af sama fyrirtæki? Útvarpsréttarnefnd á að ákveða framhaldið og þá kemur náttúrlega spurningin: Hvernig verður útvarpsréttarnefndin skipuð? Í dag er formaður hennar framkvæmdastjóri Sjálfstfl.

Þar komum við að hinni pólitísku stýringu. Útvarpsréttarnefnd getur veitt þessi afbrigði varðandi svæðisútvörpin og þá virðist vera allt í lagi að eignaböndin séu bæði dagblöð og svæðisútvörp.

Virðulegi forseti. Mér sýnist tími minn vera búinn og ég rétt kominn af stað í málinu, en það gefst tækifæri til þess að halda áfram í umræðunni um frv. Það er mjög margt sem þarf að athuga í frv., hæstv. menntmrh. Ég held að þörf sé á því að umræðan verði mjög vönduð og að við tökum okkur tíma í hv. Alþingi til að klára þessi mál. Ég hefði talið, hæstv. forseti, eðlilega málsmeðferð að á grundvelli skýrslunnar hefði verið lagt fram frv. sem hefði verið sýnt við 1. umr., hefði síðan verið til skoðunar í sumar og afgreitt í haust.