Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 23:42:25 (7088)

2004-04-28 23:42:25# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[23:42]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið hefur þetta verið löng umræða, ég ætla ekki að segja endilega ströng, en það hafa þó nokkrar snerrur verið teknar. Mér finnst þetta hafa verið nokkuð skemmtilegur dagur og er þakklát fyrir að fá að taka þátt í umræðum um þetta mikilvæga mál sem okkur öllum er greinilega mjög umhugað um.

Ég vil í upphafi einnig benda á að með þessari miklu umræðu í dag sem hefur leitt af sér að menn hafa farið út í það, eins og m.a. hv. þm. Mörður Árnason benti á, og er ekkert óeðlilegt, að ræða frv. sem fyrir liggur. Það þýðir að við höfum fengið enn umfangsmeiri umfjöllun um frv. á þinginu. Þar af leiðandi verður málsmeðferðin lengri. Við höfum fengið meiri og dýpri umræðu um málið en ellegar hefði gerst. Þar af leiðandi má búast við enn vandaðri vinnubrögðum varðandi afgreiðslu þessa mikilvæga máls af hálfu þingsins. Við höfum með umræðunni í dag dýpkað og vonandi aukið skilning sem flestra á málinu þótt skilningurinn sé misjafn.

Menn hafa verið að tala um hlaðborð, að hér sé um eitthvert veisluborð að ræða í skýrslunni. Vissulega benda skýrsluhöfundar á ýmsar leiðir. Engu að síður stendur skýrt og klárt í skýrslunni á bls. 86, með leyfi forseta:

,,Nefndin er sammála þessu`` --- þ.e. að úthluta eigi leyfum til að reka fjölmiðla, einkum hljóðvarps og sjónvarps --- ,,og telur, þegar tekið er tillit til aðstæðna á íslenskum fjölmiðlamarkaði, að þetta sé sú leið sem helst beri að skoða.``

Þetta segir skýrt og klárt í skýrslunni. Formaður nefndarinnar, hinn merki og góði fræðimaður Davíð Þór Björgvinsson sem í dag var kosinn dómari hjá Mannréttindadómstóli Evrópu, sagði að frv. væri í fullu samræmi við niðurstöður nefndarinnar í skýrslunni. Ég trúi ekki að hv. þm. sem hafa verið að efast eitthvað um frv. efist um orð þessa ágæta fræðimanns og núna dómara við Mannréttindadómstólinn.

[23:45]

Það er eitt og annað sem væri forvitnilegt, virðulegi forseti, að fara betur ofan í, m.a. þau orð sem hafa fallið hér og tengjast tilmælum Evrópuráðsins, annars vegar frá 1994, sem Samfylkingin vísar ótt og títt í, og síðan nýrri tilmæli ráðsins, sem við stjórnarþingmenn höfum leyft okkur að vitna í, frá árinu 1999. Það er ekki svo að þetta sé eitthvert hlaðborð, herra forseti. Þetta er ekki neitt hlaðborð, pikkum út 1994 frekar en 1999. Af hverju fer Evrópuráðið í það að skilgreina hvernig eigi að túlka mannréttindasáttmála Evrópu árið 1999? Hvað hefur gerst í millitíðinni frá árinu 1994 sem leiðir til þess að Evrópuráðið skerpir skilning sinn á túlkun mannréttindasáttmála Evrópu? Það er meiri samþjöppun á eignarhaldi fjölmiðla í ákveðnum löndum Evrópu en nokkurn tímann hefur áður þekkst. Og þar er ég að tala um Ítalíu og England.

Það er því ekki að ástæðulausu sem sérstaklega er hnykkt á því að ríki hafi þjóðréttarlega skyldu til þess að taka á eignarhaldi á fjölmiðlum með það í huga að vernda almannahagsmuni þannig að fjölbreytni fjölmiðla verði sem mest. Þannig er það einfaldlega. Það þýðir ekki að koma hingað upp og segja: Tilmælin frá 1994 eru svo fín og góð og skemmtileg. Þau voru það eflaust til ársins 1999.

Einhverra hluta vegna fór það mjög fyrir brjóstið á mörgum þingmönnum í stjórnarandstöðunni að ég vitnaði í þingræður sem haldnar voru fyrir tíu árum, frá fyrrum formanni Alþýðubandalagsins, frá núverandi formanni Alþýðuflokksins, frá nokkrum þingmönnum Þjóðvaka. Allt fólk, allt hv. þingmenn sem eru í flokkum sem hafa síðan runnið inn í Samf. Í þeim umræðum féllu orð sem styðja þetta mál.

Vissulega er það svo að menn hafa komið hingað upp og sagt: Hvað, þið hafið skipt um skoðun. Þá skulum við skoða hverjir hafa rétt, ef þannig má að orði komast, og hverjir hafa þá meiri rétt til að skipta um skoðun frá þeim tíma? Hvað hefur gerst í íslensku samfélagi frá árinu 1994? Ríkið og ríkisvaldið, og blessunarlega í broddi fylkingar með Sjálfstfl., hefur markvisst verið að minnka völd stjórnmálamanna. Og hvernig höfum við gert það? Jú, við höfum verið að selja ríkisfyrirtæki, allt frá smáum til stórra ríkisfyrirtækja eins og bankanna. Völdin eru dreifðari í samfélaginu. Þau hafa minnkað hjá okkur stjórnmálamönnum og þau eru komin meira út í fyrirtækin. Þetta hefur m.a. leitt af sér frelsið á markaðnum, að eðli málsins samkvæmt og vegna smæðar markaðarins sjáum við stór fyrirtæki vegna hagræðinga og vegna ýmissa annarra þátta verða stór og verða markaðsráðandi.

Við höfum ekki tekið undir þann kór sem verið hefur hjá stjórnarandstöðunni að vilja skipta upp fyrirtækjum sem eru markaðsráðandi eins og Baugur af því að við segjum: Það er í lagi að vera markaðsráðandi svo lengi sem viðkomandi misnotar ekki þá markaðsráðandi stöðu. En þeim mun mikilvægara er það, frú forseti, þegar fyrirtæki eru orðin eins markaðsráðandi og raun ber vitni í íslensku samfélagi og menn segja að þekkist ekki víðs vegar um Evrópu, að almenningur geti treyst því að þau markaðsráðandi fyrirtæki hafi virkt aðhald frá fjölmiðlum. Og þá erum við komin að lýðræðistengingunni. Því menn hafa líka verið að spyrja: Hvernig tengist þetta lýðræðinu? Það tengist nefnilega lýðræðinu beint að þessu virka aðhaldi frá fjölmiðlum sé treystandi og það sé sýnilegt.

Það er líka alltaf verið að biðja um dæmi. Ég ætla ekki að fara út í ákveðin og tiltekin dæmi, það geta aðrir gert. Mig langar engu að síður, frú forseti, að við setjum okkur í ákveðin spor. Undanfarna daga, og hv. þm. Pétur Blöndal benti m.a. á það, hefur verið mikil umræða í blöðum og ljósvakamiðlum út af lyfjamálum. Hæstv. heilbrrh. er að breyta fyrirkomulagi vegna lyfja og lyfsölu þannig að líklegt er að það varði hagsmuni lyfsala upp á marga tugi ef ekki hundruð millj. kr. Sem sagt miklir hagsmunir lyfsala eru í húfi. Um þessi lyfjamál hefur verið fjallað neikvætt í fjölmiðlum og ekki tekið sérstaklega vel í þær breytingar. Nú skulum við setja okkur í þau spor, tvö dæmi: Gefum okkur annars vegar að þessir fjölmiðlar séu í eigu lyfsala. Getur almenningur þá fullkomlega treyst fréttaflutningi þeirra fjölmiðla sem eru í eigu lyfsalanna? Með því er ég ekki að segja, frú forseti, að við þurfum endilega að gera það, en það er efi. Það er margoft búið að vitna í það þegar menn hafa efann annars vegar. Það er mikill efi hjá mér og hjá fleirum í samfélaginu þegar verið er að fjalla um lyfjamál sem varða hagsmuni lyfsala upp á mörg hundruð millj. kr. þegar eigandi fjölmiðlanna er jafnframt stærsti lyfsalinn í samfélaginu. Þá hlýtur að vera þó ekki sé nema oggulítið brot af efa í hugum fólks um hvort treysta megi fréttum í þessum tilteknu fjölmiðlum alveg 100%.

Við skulum síðan kippa eignarhaldi þessara ágætu lyfsala burtu frá fjölmiðlunum og segja: Nú eru lyfsalarnir ekki lengur eigendur fjölmiðla. Og síðan er fjallað um lyfjamálin á sama hátt. Þá sé ég ekki nokkra ástæðu til þess að það sé efi lengur í hugum fólks því hagsmunirnir eru farnir og hagsmunatengingin er farin. Það er þess vegna sem ég er að benda á að það sé mikilvægt að almannahagsmunir séu hafðir í huga því ég tel ekki rétt að þeir sem eru markaðsráðandi á hinum almenna markaði, sem eru að versla með hurðir og hjól, bleiur og barnaföt o.s.frv. ráði líka umræðunni um sjálfa sig. Ég tel það ekki heppilegt.

Með því er ég ekki að segja að ég treysti ekki þeim blaðamönnum og þeim fjölmiðlamönnum sem eru á viðkomandi fjölmiðlum. Ég er að segja: Almenningur getur haft efasemdir uppi um að það séu ekki hagsmunatengsl þarna á milli, (PHB: Ef hann veit það.) þ.e. ef hann veit það, hv. þm. Pétur Blöndal.

Það hefur bersýnilega komið fram í umræðunni, frú forseti, og það hefur meira að segja verið tekið undir það og skýrt tekið fram þegar hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson leyfði sér að hafa þær meiningar að Samf. hefði gefið eitthvað eftir, hefði eitthvað dregið til baka. Nei, það var skýrt tekið fram að Samf. hefði alls ekki dregið neitt til baka og ekkert dregið í land í umræðunni í dag varðandi eignarhald á fjölmiðla. Það er fínt að vita það. Það er gott að vita það, því það kom margoft fram að Samf. styður óbreytt ástand á eignarhaldi fjölmiðla. Vissulega er hægt að koma með reglur um að skilja á milli ritstjórnar og eignarhalds en það er ekkert sem heldur, það er ekkert sem breytir núverandi ástandi. Ekki neitt. Þannig að Samf. sem vill almennar reglur um alla skapaða hluti vill ekki almennar reglur um þessi mál því það hentar ekki málflutningi hennar. Það er gott að breyta til, það er gott að láta skoðanakannanir ráða stefnunni í þessu máli sem öðrum. Þannig er það. Það er stefnan sem stendur eftir í þingsalnum. Stefna Samf. er sú að markaðsráðandi aðilar mega eiga fjölmiðla og ráða þar af leiðandi umræðunni um sjálfa sig ef þeir sjá ástæðu til.

Ég er ekki hlynnt þessu. Ég vil líta til framtíðar og ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir okkur, frú forseti, að við tryggjum það að almenningur geti treyst því að þær upplýsingar sem veittar eru í fjölmiðlunum séu ekki í neinum tengslum við hugsanlega hagsmuni eigenda fjölmiðlanna af upplýsingunum.

Enn og aftur ítreka ég það, frú forseti, að það er ekki að ástæðulausu sem Evrópuráðið hefur ítrekað og breytt tilmælum sínum árið 1999. Það var út af mikilli samþjöppun á eignarhaldi fjölmiðla á Ítalíu og Bretlandi. Ég vara við því að við getum hugsanlega staðið frammi fyrir slíku ástandi ef við breytum ekki núna.

Hvað varðar Ríkisútvarpið hef ég einnig margoft lýst því yfir að ég tel að það eigi að gera meira en að huga að starfsumhverfi Ríkisútvarpsins. Ég hef þegar hafið bæði skoðun og vinnu að því að huga að stefnumótun um Ríkisútvarpið. Ég vona að skýrslan verði stuðningur í þeirri viðleitni minni að endurskoða starfsemi Ríkisútvarpsins og með það í huga að hér verði til framtíðar áfram gott og öflugt ríkisútvarp.