Aðgangur þingmanna að upplýsingum

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 10:37:14 (7108)

2004-04-29 10:37:14# 130. lþ. 106.91 fundur 511#B aðgangur þingmanna að upplýsingum# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[10:37]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Hæstv. forseti. Það sem birtist í bréfi hæstv. ráðherra til þingflokks Samf. er auðvitað ekkert annað en ósvífni og niðurlæging við þingið. Það er alveg ljóst að framkvæmdarvaldið er að hindra að löggjafarvaldið geti með eðlilegum hætti sinnt skyldum sínum. Erlendis varðar það við lög um ráðherraábyrgð að leyna þingið gögnum sem skipta máli við meðferð mála á þinginu. Við erum að fara í utandagskrárumræðu um þetta mál eftir hádegið og það skiptir máli að fá skýrsluna áður.

Það er ekki forsvaranlegt --- er raunar misbeiting á valdi --- að neita Alþingi um að sjá skýrslu sem ráðherrar hafa látið vinna, eða greinargerð eða hvað ráðherra vill kalla það, í deilumálum sem uppi eru milli tveggja ráðherra. Hvað hefur ráðherrann að fela? Er ráðherrann virkilega að knékrjúpa eina ferðina enn fyrir íhaldinu og dómsmrh.? Er kannski í þessari greinargerð mælt með þeirri leið sem Samkeppnisstofnun og ráðherra vilja fara? Er það þá hæstv. dómsmrh. sem ræður ferðinni? Hér endurspeglast auðvitað þær deilur sem eru uppi aftur og aftur milli stjórnarflokkanna um Samkeppnisstofnun sem haldið er í fjársvelti og getur ekki sinnt skyldum sínum. Það liggja fyrir úrskurðir, bæði varðandi erindi sem hafa farið fyrir úrskurðarnefnd upplýsingamála og sem hafa farið fyrir Hæstarétt þegar ráðherrar hafa kosið að leyna þingið gögnum. Í þeim tveim tilvikum sem ég a.m.k. man eftir hafa ráðherrar verið knúnir til þess að afhenda þinginu þau gögn sem það biður um. Ég skora á ráðherra að breyta afstöðu sinni og afhenda þinginu þessa greinargerð þannig að eðlileg umræða geti farið fram um þetta mál eftir hádegi og í þeirri nefnd sem fjallar um það málefni sem við ræðum hér.