Aðgangur þingmanna að upplýsingum

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 10:39:25 (7109)

2004-04-29 10:39:25# 130. lþ. 106.91 fundur 511#B aðgangur þingmanna að upplýsingum# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[10:39]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tel að það ákvæði sem hæstv. ráðherra vísaði til hafi allt aðra skírskotun. Eins og hún sagði sjálf er þar verið að tala um að slegin sé skjaldborg um pólitísk deilumál á meðan þau eru á borði ríkisstjórnar. Hvaða pólitíska og viðkvæma deilumál er fólgið nákvæmlega í þessu? Hér er um það að ræða að greiða úr tiltekinni réttaróvissu sem varðar brot á tiltekinni löggjöf.

Virðulegi forseti. Það er algerlega með öllu óskiljanlegt að hæstv. viðskrh. skuli fara þessa leið og koma þannig í veg fyrir lýðræðislega umfjöllun á þjóðþinginu um þetta mál sem varðar í raun og veru spurninguna um það sem ég tiltók áðan. Ég efast um að hæstv. ríkisstjórn megi við því að vera rassskellt enn einu sinni af Hæstarétti fyrir það að brjóta stjórnarskrá, eins og t.d. gerðist í öryrkjadómnum og frægt er orðið þar sem neitað var um aðgang að tilteknu minnisblaði. Ég spyr hæstv. viðskrh.: Telur hún sig ekki hafa ríkari skyldu gagnvart þjóðþinginu með upplýsingar en gagnvart almennum borgurum? Telur hún þetta vera nákvæmlega sama hlutinn og telur hún um svo viðkvæmt pólitískt deilumál að ræða í þessu máli að ástæða sé til að halda gögnunum eftir? Um það snýst þetta mál og það er í sjálfu sér fróðlegt að heyra ef svo er.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég ætla að láta á það reyna í dag hvort hæstv. ráðherra svari spurningum mínum um efni þeirra tillagna sem nefndin lagði fram. Það verður fróðlegt að heyra hvort hún treystir sér til að upplýsa þingið um stöðu mála þá. Ég ítreka að hún er bundin af stjórnarskrá í þeim efnum.