Aðgangur þingmanna að upplýsingum

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 10:42:46 (7111)

2004-04-29 10:42:46# 130. lþ. 106.91 fundur 511#B aðgangur þingmanna að upplýsingum# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[10:42]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Hæstv. forseti. Það sem þingflokkur Samf. fór fram á var að ráðherra veitti aðgang að niðurstöðum nefndar um valdmörk samkeppnisyfirvalda annars vegar og lögreglu hins vegar. Það var allt og sumt sem við fórum fram á. Hér hafa verið deilumál uppi alveg síðan síðasta sumar um þessi valdmörk. Þau hafa komið í veg fyrir að hægt sé að fá eðlilegar niðurstöður í þá deilu sem er milli ráðuneytanna í þessu máli og að þingið geti fengið botn í það hvernig eigi að taka á því þannig að ekki komi til að mál sem eru núna í rannsókn hjá Samkeppnisstofnun dragist svo á langinn að sakir geti fyrnst í því efni. Við erum að ræða um stórt mál og ráðherrann getur ekki neitað þinginu um þær niðurstöður sem við köllum eftir.

Ég ítreka óskir mínar, virðulegi forseti, um að ráðherrann endurskoði afstöðu sína og að áður en utandagskrárumræða hefst í dag fáum við þá niðurstöðu nefndarinnar sem hefur unnið í þó nokkurn tíma á vegum ráðherra til þess að láta í ljósi álit sitt --- ég vænti þess að það hafi verið sérfræðingar í nefndinni --- til að málefnaleg og eðlileg umræða geti átt sér stað eftir hádegið. Ráðherrann hefur skyldur við Alþingi. Það er ekki bara hægt að vísa í að ekki sé hægt að veita almenningi aðgang að gögnum eins og ráðherrann gerir. Hér er þingflokkur sem kallar eftir þessu, þingflokkur sem er að sinna skyldum sínum á Alþingi, og ég ítreka að það er misbeiting á valdi ef ráðherrann afhendir ekki þessar upplýsingar.