2004-04-29 10:50:19# 130. lþ. 106.95 fundur 515#B staða viðræðna við Bandaríkjamenn um herinn og uppsagnir starfsmanna hjá hernum# (umræður utan dagskrár), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[10:50]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Frú forseti. Eins og þingheimur veit, og hv. fyrirspyrjandi, hefur ríkisstjórnin komið sjónarmiðum sínum og stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum skilmerkilega á framfæri við Bandaríkjamenn og aðra. Því miður bíðum við enn þá eftir frekari viðbrögðum þeirra í málinu en eins og hv. þingmanni er kunnugt um stendur yfir endurskoðun á heildarliðsaflaþörf Bandaríkjahers í Evrópu. Þessi staða hefur áður verið rædd á Alþingi og í sjálfu sér er engu við það að bæta.

Hv. þm. tengir að nokkru leyti saman þessar viðræður um framtíð varnarliðsins hér á landi og uppsagnir á starfsmönnum á Keflavíkurflugvelli. Staðreyndin er sú að viðræðurnar um framtíð varnarliðsins tengjast öryggis- og varnarmálum landsins og bandamanna okkar í Atlantshafsbandalaginu. Íslensk stjórnvöld hafa lagt á það áherslu af miklum þunga að halda þeim varnarviðbúnaði sem er hér á landi og sá ásetningur ríkisstjórnarinnar hefur ekki farið fram hjá neinum. Hins vegar er alveg ljóst að það er hægt að viðhalda varnarviðbúnaði hér þó að einhver samdráttur verði og sparnaður í rekstri. Eins og ég hef margtekið fram byggist vera hersins hér ekki á efnahags- og atvinnumálum. Hér er um að ræða öryggis- og varnarmál þjóðarinnar.

Það hefur verið alveg ljóst frá því að yfirstjórn Keflavíkurstöðvarinnar var flutt frá Norfolk til Stuttgart í Þýskalandi að það hefði líklega í för með sér sparnað á ýmsum sviðum. Stöðin á Keflavíkurflugvelli er stærsta stöð Bandaríkjaflotans í Evrópu en stöðin hér var áður tiltölulega lítil miðað við þær stöðvar sem sýslað var um í Norfolk.

Ljóst er að þetta hefur haft það í för með sér að menn vilja hagræða innan allra þessara stöðva en aðrar stórar stöðvar eru t.d. á Sikiley og í Northwood í Englandi.

Það er að sjálfsögðu mjög sárt þegar fólk missir vinnuna en það tengist sparnaðaraðgerðum og niðurskurði í fjárlögum flotastöðvarinnar hér eins og á öðrum strandstöðvum bandaríska flotans. Um 100 manns var sagt upp á Keflavíkurflugvelli 1. nóvember sl. og þær uppsagnir komu til framkvæmda í lok febrúar. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef hafa aðeins 35 af þessu 100 aðilum fengið atvinnu, um það bil 1/5 hefur farið á eftirlaun, um það bil 1/3 er því miður enn þá atvinnulaus en 14 af þessum einstaklingum hafa fengið aðra vinnu hjá varnarliðinu. Það er rétt sem hv. þm. sagði, að þeim 14 sem störfuðu sem starfsmenn á gistiheimili fyrir þá aðila sem dvelja mjög skamman tíma í stöðinni var sagt upp fyrir um það bil viku vegna minnkandi aðsóknar að umræddum stöðum.

Þá hefur varnarliðið tilkynnt að á næstu tveimur mánuðum verði hugsanlega farið í frekari hagræðingaraðgerðir sem geti falið í sér frekari uppsagnir. Við í utanrrn. höfum tekið það skýrt fram við varnarliðið að það væri mjög mikilvægt að hafa nána samvinnu við stéttarfélög starfsmanna áður en til nokkurra aðgerða væri gripið.

Það sem er jákvætt á Suðurnesjum að því er varðar atvinnumálin er að það hefur verið umtalsverður vöxtur í starfsemi annarra fyrirtækja tengdum Keflavíkurflugvelli. Það er í sjálfu sér líka jákvætt að atvinnuleysi var minna í marsmánuði núna en fyrir ári. Hins vegar er atvinnuleysi á Suðurnesjum yfir landsmeðaltali. Ég mun koma nánar að þessu síðar.