2004-04-29 10:55:44# 130. lþ. 106.95 fundur 515#B staða viðræðna við Bandaríkjamenn um herinn og uppsagnir starfsmanna hjá hernum# (umræður utan dagskrár), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[10:55]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Verkefni ríkisstjórnar Íslands er varða herinn á Miðnesheiði eru mörg. Ég vil eins og hæstv. utanrrh. draga skýr skil á milli þess er varðar atvinnuástand á Suðurnesjum og hins sem varðar öryggismál. Vissulega er atvinnuástandið verkefni ríkisstjórnar í samvinnu við þau sveitarfélög sem þar eru og gagnrýni ég að lítið sem ekkert hefur verið gert. Svo virðist sem 4% atvinnuleysi kvenna sé ekki álitið vandamál í þessu samhengi.

Hvað varðar umsvif hersins sjálfs hefur legið ljóst fyrir mjög lengi, hæstv. forseti, að Bandaríkjaher vill draga saman umsvif sín á Miðnesheiði. Það hefur legið fyrir í rúm 40 ár að herinn vill taka herþoturnar í burtu. Nægur hefur verið tíminn til að bregðast við því. Eins og allir vita rann bókunin um framkvæmd varnarsamningsins út fyrir þremur árum og síðan hefur mjög lítið hreyfst í samskiptum Bandaríkjastjórnar og ríkisstjórnar Íslands þrátt fyrir nokkur símtöl.

Einnig er ljóst að endurskoðun heildarliðsafla Bandaríkjamanna í Evrópu stendur nú yfir. Það að málefni Íslands hafi verið færð undir þá heildarendurskoðun síðasta sumar þarf ekki endilega að tryggja þá niðurstöðu sem menn vænta í utanrrn. Íslands, held ég.

Mig langar að spyrja hæstv. utanrrh., frú forseti: Hvað hyggjast íslensk stjórnvöld gera ef sá ásetningur Bandaríkjastjórnar gengur eftir sem tilkynntur var í maí 2003? Hvernig hyggjast íslensk stjórnvöld bregðast við? Hvar eru viðbragðsáætlanir íslenskra stjórnvalda um mat á aðsteðjandi hættum í því umhverfi sem við lifum í núna sem er allt annað en það er ríkti á kaldastríðstímanum? Hvar eru þær viðbragðsáætlanir og hvar er öryggismatið, frú forseti?