2004-04-29 10:57:58# 130. lþ. 106.95 fundur 515#B staða viðræðna við Bandaríkjamenn um herinn og uppsagnir starfsmanna hjá hernum# (umræður utan dagskrár), DrH
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[10:57]

Drífa Hjartardóttir:

Virðulegi forseti. Utanrmn. hefur fylgst náið með gangi mála allt frá því að bandarísk stjórnvöld tilkynntu íslenskum stjórnvöldum um þá fyrirætlun sína að draga úr starfsemi sinni á Íslandi. Varnarsamningurinn milli þessara tveggja þjóða og öll hin góðu og miklu samskipti eru og hafa verið einn af hornsteinum íslenskrar utanríkismálastefnu og stjórnvöld hafa lagt á það mikla áherslu að halda þeim varnarviðbúnaði sem þar er. Ríkisstjórnin hefur komið stefnu og sjónarmiðum Íslands rækilega og skilmerkilega til skila og á framfæri við bandarísk yfirvöld og nú er beðið eftir viðbrögðum frá þeim.

Framtíð varnarliðsins tengist öryggis- og varnarmálum landsins en hefur, eins og fram kom hjá hv. málshefjanda, áhrif á atvinnu fjölda fólks á Suðurnesjum. Varnarliðið er stór atvinnurekandi á Suðurnesjum og það er alltaf mjög alvarlegt og sárt þegar fólk missir atvinnu sína. Atvinnuleysi er þó minna núna en á sama tíma á síðasta ári en hjá varnarliðinu hafa starfað um 900 manns.

Þrátt fyrir allt skulum við hafa það í huga að á Suðurnesjum er mikil uppbygging og kraftmikið samfélag. Þar fara fram miklar framkvæmdir og má þar nefna Hitaveitu Suðurnesja, tvöföldun Reykjanesbrautar og fyrirhuguð er lagning Suðurstrandarvegar sem mun hafa mjög mikil og jákvæð áhrif, bæði á atvinnulíf og uppbyggingu ferðaþjónustu á Suðurnesjum.