2004-04-29 11:15:30# 130. lþ. 106.95 fundur 515#B staða viðræðna við Bandaríkjamenn um herinn og uppsagnir starfsmanna hjá hernum# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[11:15]

Magnús Stefánsson:

Hæstv. forseti. Umræða um stöðu viðræðna við Bandaríkin um framkvæmd varnarsamningsins og uppsagnir starfsmanna hjá hernum eru í raun tvíþætt mál.

Viðræður um varnarsamninginn snúast fyrst og síðast um öryggis- og varnarhagsmuni Íslands og það á að reka þá umræðu á þeim grundvelli. Mikil umræða hefur farið fram á Alþingi og í utanrmn. um þetta mál að undanförnu. Stjórnvöld, ráðherrar, alþingismenn og embættismenn hafa ítrekað komið á framfæri sjónarmiðum okkar gagnvart Bandaríkjamönnum í þessu máli og ég hafna því að hægt sé að saka menn um aðgerðaleysi í því. Það er ekki rétt.

Hins vegar er beðið eftir viðbrögðum og afstöðu Bandaríkjamanna til málsins. Óvissa sem nú er um framhald varnarsamstarfsins við Bandaríkjamenn er að verða óþolandi. Óvissan kemur illa við marga, ekki aðeins íslensk stjórnvöld, heldur fjölmarga aðra eins og fram hefur komið í umræðunni og hér eru ríkir hagsmunir í húfi. Það hlýtur að vera skýlaus krafa okkar að Bandaríkjamenn upplýsi sem fyrst hver fyrirætlan þeirra og afstaða er varðandi framhald þessara mála og að hinni plagandi óvissu sem nú ríkir verði eytt sem allra fyrst. Vonir mínar standa til þess að hinn tvíhliða varnarsamningur sem gilt hefur um langan tíma verði virkur í framtíðinni í þágu öryggis- og varnarhagsmuna okkar.