Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 11:46:08 (7129)

2004-04-29 11:46:08# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[11:46]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa ábendingu.

Eins og ég vék að leggur meiri hluti nefndarinnar áherslu á að rannsókn á erfðaefnum mun fyrst og fremst gagnast í þeim tilgangi að útiloka blóðskyldleika fólks. Að því leyti er ábendingin réttmæt að hugsanlega mun lífsýnatakan í framkvæmd ekki vera fullnægjandi til að staðfesta að um skyldleika sé að ræða. Hins vegar mun rannsókn á erfðaefni gagnast í þeim tilgangi að útiloka að skyldleiki sé til staðar. Að því leytinu til hygg ég að í framkvæmd, þegar skyldleiki hefur ekki verið útilokaður, standi ekki til að Útlendingastofnun fari í víðtækari rannsóknir á erfðaefninu, víðtækari rannsóknir sem væru bæði kostnaðarsamar og hugsanlega flóknar og krefðust þess að lífsýni yrðu tekin af fleiri aðilum sem standa viðkomandi nærri. Í framkvæmd tel ég að niðurstaða erfðarannsóknar sem útilokar ekki skyldleikann yrði túlkuð þannig að skyldleikinn væri staðfestur.