Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 11:55:38 (7136)

2004-04-29 11:55:38# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[11:55]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var ekki laust við að hv. þm. Bjarna Benediktssyni vefðist tunga um höfuð, vil ég leyfa mér að segja, þegar hann var spurður um rökin fyrir 24 ára reglunni. Með þeim rökum sem hann nefndi má á nákvæmlega sama hátt láta þessa sömu reglu gilda um alla vegna þess að auðvitað er hægt að setja í nauðungarhjónabönd líka 24 ára einstaklinga, 25 ára, þess vegna fimmtuga. Það er alveg nægilegt þeirri ógn sem við skulum öll vera sammála um. Ég ítreka að ég styð það að sett verði ákvæði í íslensk lög um að þetta megi ekki, að ekki megi veita leyfi á grundvelli slíks nauðungarhjónabands. Það erum við öll sammála um. En að fara þurfi þá leið að banna tilteknum hópi að fá þessi réttindi sjálfkrafa og draga hann þar með út úr, sérstaklega í ljósi þess að aðeins eitt tilvik hefur komið upp hér á landi þar sem grunur hefur leikið á um þetta, er algjörlega galið, herra forseti. Auðvitað á hv. þm. mjög erfitt með að verja það.

Ég hlýt að spyrja hann í ljósi þessa svars sem hann gaf áðan: Af hverju má þá ekki hið sama gilda bara um alla? Eigum við ekki að banna bara að dvalarleyfi sé veitt sjálfkrafa á grundvelli hjúskapar? Þetta er hvort eð er það fyrsta sem kemur til skoðunar þegar Útlendingastofnun skoðar hvort veita eigi slíkt leyfi.