Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 11:57:20 (7137)

2004-04-29 11:57:20# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[11:57]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þau sjónarmið sem búa að baki þessu ákvæði eru fyrst og fremst þau að það sé á þessum unga aldri sem viðkomandi aðilar séu sérstaklega í hættu hvað þetta snertir, að á þeim aldri þurfi þeir þessa vernd. Hv. þm. virðist vita betur. Það er samt svarið við því hvers vegna þetta gildi ekki fyrir alla aldurshópa. Þegar í frv. er talað um að algengt sé meðal sumra hópa nýbúa að foreldrar ráðstafi börnum sínum í hjúskap á það auðvitað ekkert við 40 eða 50 ára gamla einstaklinga. Það er ástæðan fyrir 24 ára markinu. (Gripið fram í.) Það er bara rangt að það séu engin rök fyrir því að setja ákveðið aldursmark.

Þegar hv. þm. talar um að það mætti kannski fella niður aldursmörk er ástæða til að vekja athygli á því að þegar sett var inn hin svokallaða 66 ára regla --- þeir sem hafa náð þeim aldri eiga sérstakan lögvarinn rétt á því að sækja hér um dvalarleyfi sem aðstandendur --- hafa nefnilega sumar þjóðir, til að mynda Danir, kosið að fara þá leið að hafa engan slíkan rétt. Jafnvel þeir sem hafa náð þeim aldri eða eru eldri eiga engan sjálfstæðan rétt á því í þeim löndum að fá útgefið dvalarleyfi sem aðstandendur. Engan sjálfstæðan rétt. Alveg óháð aldri eru allar umsóknir teknar til sérstakrar skoðunar en við förum í þessu frv. aðra leið og viðurkennum að fyrir ungan aldur kunni að vera ákveðnar hættur á því að viðkomandi aðilar gangi ekki af fúsum og frjálsum vilja í hjónaband sem síðan leiðir til umsóknar um dvalarleyfi. Það eru verndarsjónarmið sem búa að baki þessu ákvæði. Í öðrum ákvæðum í frv. viðurkennum við hins vegar rétt þeirra sem eru orðnir eldri til að sækja um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Til að mynda í Noregi hafa menn ákveðið að fara þá leið að einungis annað foreldri geti farið fram á dvalarleyfi á grundvelli slíkra sjónarmiða.