Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 12:34:15 (7142)

2004-04-29 12:34:15# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, Frsm. minni hluta ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[12:34]

Frsm. minni hluta allshn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (andsvar):

Herra forseti. Málflutningur meiri hluta allshn. og sjálfstæðismanna er alveg merkilegur því þeir benda alltaf á að allir aðrir misskilji frv. Á annan tug umsagnaraðila virðast vera að misskilja frv. Þeir meintu þetta öðruvísi. Þeir héldu að allir mundu skilja þetta hinsegin o.s.frv. Trúverðugir aðilar hér á landi svo sem Persónuvernd og Lögmannafélag Íslands hafa gert alvarlegar athugasemdir við þetta frv. og við eigum að taka undir þær athugasemdir.

Varðandi öfugu sönnunarbyrðina sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson nefnir þá telur minni hlutinn það ekki eðlilega kröfu að þú, einstaklingurinn, hv. þm. og þeir sem lenda í slíkri stöðu þurfi að sanna að þeir séu ekki í málamyndahjónabandi. Um það snýst þessi öfuga sönnunarbyrðarregla. Hún snýst ekki um að sanna hver þú ert. Sú krafa er nú þegar til staðar í lögum að þú átt að sanna hver þú ert. Þetta snýst um að sanna að þú sért ekki í málamyndahjónabandi eða í nauðungarhjónabandi. Við teljum eðlilegt að sönnunarbyrðin hvíli á opinberum aðilum, lögreglunni og Útlendingastofnun, haldi þeir þessu fram. Bæði Persónuvernd og Lögmannafélag Íslands hafa gert athugasemd í þá áttina og telja að hugtakið rökstuddur grunur í frumvarpinu réttlæti ekki það að snúa sönnunarbyrði við. Við vitum það líka í einkamálum að sönnunarbyrðin er á viðkomandi aðila sem heldur einhverju fram. (SKK: Það er nákvæmlega ...) Ef Útlendingastofnun eða lögreglan heldur því fram að þú sért í málamyndahjónabandi, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, þá tel ég að Útlendingastofnun og lögregla eigi að sanna það. Um það snýst þetta mál.