Brot á samkeppnislögum

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 13:32:46 (7149)

2004-04-29 13:32:46# 130. lþ. 106.96 fundur 516#B brot á samkeppnislögum# (umræður utan dagskrár), Flm. BH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[13:32]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að ítreka þá óánægju sem ég lýsti yfir í upphafi þings í dag að hæstv. viðskrh. skuli hafa valið að neita að gera opinbera þá niðurstöðu sem starfshópurinn sem um málið fjallaði komst að. Ég held að það hefði vissulega auðveldað alla umræðu á hinu háa Alþingi og gert hana málefnalegri og betri.

Forsaga málsins er sú að á sl. ári voru miklar umræður í samfélaginu vegna rannsóknar Samkeppnisstofnunar á meintu samráði olíufélaganna. Málið vakti athygli okkar allra á því hversu alvarleg og afdrifarík brot á samkeppnislögum geta verið. Þau beinast gegn almenningi og gríðarlega mikilvægt að um slík brot og rannsókn þeirra gildi skýrar og ótvíræðar reglur. Það er nauðsynlegt að Samkeppnisstofnun hafi þær heimildir sem nauðsynlegar eru til að rannsaka slík brot og líka mikilvægt að rannsókn mála hjá samkeppnisyfirvöldum valdi því ekki að tafir geti orðið á rannsókn hjá lögreglu ef ástæða er til slíkrar rannsóknar.

Á síðasta ári komu upp nokkrir ágallar á því annars um margt góða regluverki sem við höfum búið við í þessum efnum. Upp komu deilur á milli Samkeppnisstofnunar og lögreglu um hlutverk og verkaskiptingu embættanna sem m.a. leiddu til hættu á að brot einstaklinga í málinu mundu fyrnast. Bitist var á um það hvenær lögregla ætti að koma að málinu og hvort það yrði aðeins gert með því að Samkeppnisstofnun tilkynnti málið formlega í þann farveg.

Í núgildandi samkeppnislögum er ekki ákvæði um tilkynningarskyldu Samkeppnisstofnunar til lögreglu en slíkt ákvæði er t.d. að finna í lögum um fjármálafyrirtæki. Samkeppnisstofnun taldi málið hins vegar svo alvarlegt og sérstakt að rétt væri að vekja athygli á því vegna stærðar þess en embættin deildu svo um hvernig valdmörkum þeirra væri háttað. Deila Samkeppnisstofnunar og ríkislögreglustjóra frá því í fyrra vekur vissulega upp þá kröfu að úr verði bætt með því að skýra lögin og taka af allan vafa í þessum efnum. Samf. lagði strax í upphafi síðasta haustþings fram tillögu til úrbóta en hv. þm. Lúðvík Bergvinsson er 1. flm. að því máli. Þar er lagt til að farin verði svokölluð bresk leið þannig að Samkeppnisstofnun verði falið að rannsaka lögaðila og fyrirtæki en lögregluyfirvöld fari með rannsókn mála á hendur einstaklingum. Þetta er reyndar leið sem fleiri hafa bent á, m.a. Samkeppnisstofnun og í umsögnum um frv. hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar má sjá að sú leið nýtur víðtæks stuðnings.

Hæstv. ráðherra lýsti fyrir mörgum mánuðum miklum áhyggjum yfir því að þessi óvissa væri til staðar og leiddu þær til þess að hún skipaði umrædda nefnd sérfróðra manna til að fara ofan í málið. Nefndin skilaði af sér í upphafi ársins en þann 11. mars sl. svaraði hæstv. ráðherra fyrirspurn minni um málið þannig til að nefndin hefði skilað af sér en málið væri til umfjöllunar á milli hennar og hæstv. dómsmrh. Hún sagði í þeim umræðum, með leyfi forseta:

,,Á meðan slík vinna fer fram er ekki eðlilegt að ég greini opinberlega frá stöðu mála. Ég geri mér að sjálfsögðu vonir um að niðurstaða náist sem leiði til þess að hér verði lagt fram á næstu dögum frv. til breytinga á samkeppnislögum.``

Þetta var 11. mars sl. Nú eru liðnir tæpir tveir mánuðir síðan hæstv. ráðherra svaraði þessu til og þrír mánuðir síðan nefndin skilaði fullbúnu frv. Ekkert bólar þó á tillögum hæstv. ráðherra til úrbóta og enn er óvissan fyrir hendi um samskipti og valdmörk þessara stofnana í brotum á samkeppnislögum. Ástæðan er ágreiningur á milli hæstv. ráðherra og hæstv. dómsmrh. Björns Bjarnasonar um hvaða leiðir skuli fara. Skýrsla starfshópsins hefur síðan bæst í hóp leyniplagga ríkisstjórnarinnar og er það ekki til að bæta á vandræðagang málsins.

Virðulegur forseti. Þetta er algerlega óviðunandi ástand. Hæstv. ráðherra hefur þá ábyrgð að koma með tillögur til úrbóta í þessum efnum og hún verður að rísa undir þeirri ábyrgð. Það bólar ekkert á slíkum tillögum sem er algerlega óafsakanlegt og gildir einu hvort ástæðan sé pólitískur ágreiningur stjórnarflokkanna um það hversu sterk Samkeppnisstofnun eigi að vera, ráðaleysi eða einhver annar vandræðagangur. Eða er samkomulagið á stjórnarheimilinu kannski orðið svo slæmt að menn geti ekki einu sinni komið sér saman um einfaldar breytingar í svona efnum?

Virðulegi forseti. Ég vil í ljósi þess sem ég hef rakið spyrja hæstv. ráðherra eftirfarandi spurninga: Hvaða leið lagði starfshópur hæstv. viðskrh. til að farin yrði til að greiða úr óvissunni og hvað stendur í vegi fyrir að sú leið verði farin? Hvaða leið vill hæstv. ráðherra fara í þessum efnum? Telur hæstv. ráðherra koma til greina að fara svokallaða breska leið, þ.e. að brot lögaðila séu rannsökuð hjá Samkeppnisstofnun og brot einstaklinga hjá lögreglu? Hvaða vinna er í gangi núna vegna málsins hjá ríkisstjórninni og hvenær er að vænta tillagna sem verða lagðar fyrir Alþingi í þessum efnum?