Brot á samkeppnislögum

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 13:47:14 (7153)

2004-04-29 13:47:14# 130. lþ. 106.96 fundur 516#B brot á samkeppnislögum# (umræður utan dagskrár), SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda, Bryndísi Hlöðversdóttur, fyrir að færa þetta mál í tal á þinginu. Það veitir ekki af að veita stjórnvöldum aðhald í þessum málaflokki. Það er greinilegt að stjórnarflokkarnir hafa hvorki áhuga né getu, vegna innbyrðis ágreinings, til að koma þessum málum á hreint og taka á brotum á samkeppnislöggjöfinni. Það hefur ítrekað komið fram.

Ég ætla einnig að nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau voru allmiklu skýrari en ég átti von á. Fyrr í vikunni spurði ég hæstv. ráðherra út í samkeppnismál á fjarskiptamarkaði og fékk þá ýmist engin svör við þeim spurningum sem ég bar upp eða svör við einhverju sem ég spurði alls ekki um. Þetta er því ákveðin framför og það ber að þakka.

Ég ítreka að það eru brotalamir í þessum málaflokki og dæmi eru um mál sem hefur tekið allt að sjö ár að rannsaka. Það verður að koma þessum málum í betri farveg. Ég vil ítreka að það er á ábyrgð ráðherra. Hún ber ábyrgð á þessum málaflokki. Allt of oft hefur maður heyrt hæstv. ráðherra svara með þeim hætti að hún vilji ekki segja sjálfstæðri stofnun fyrir verkum. Hún ber hins vegar ábyrgð á þessum málaflokki og henni ber að fylgja málum eftir.

Ég vil minna á að það er góðæri í landinu og hjá ríkissjóði. Það hefur komið fram á hinu háa Alþingi að hlutur hins opinbera hefur sífellt farið vaxandi í stjórnartíð Davíðs Oddssonar. Það skýtur því óneitanlega skökku við að ekki séu til fjármunir til að reka Samkeppnisstofnun svo vel sé. Alvarlegur grunur um samráð olíufélaganna snertir hag almennings í landinu. Því er mikilvægt að yfirvöld hafi burði og metnað til að mæta málinu af þeim þunga sem landsmenn krefjast.