Brot á samkeppnislögum

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 13:52:37 (7156)

2004-04-29 13:52:37# 130. lþ. 106.96 fundur 516#B brot á samkeppnislögum# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[13:52]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil ræða frekar þann atburð að hæstv. ráðherra neitar að afhenda Alþingi skýrslu stjórnskipaðrar nefndar. Að vísu talaði hv. þm. Bjarni Benediktsson um ráðherraskipaða nefnd en ég geri ráð fyrir að þar sé á ferðinni það sem venjulega er kallað stjórnskipuð nefnd, þ.e. nefnd skipuð af ráðherra með erindisbréfi sem fær greitt samkvæmt ákvörðunum þóknunarnefndar o.s.frv. Sé þetta svo þá held ég að það sé algert nýmæli að Alþingi sé neitað um niðurstöðu skýrslu stjórnskipaðrar nefndar. Menn hafa haft uppi tilburði til að telja að þeir geti legið á minnisblöðum og vinnuplöggum en ef um það er að ræða að sett sé á laggirnar nefnd með formlegu erindisbréfi, hún ljúki störfum og skili skýrslu, þá minnist ég þess ekki fyrr að Alþingi hafi verið neitað um slíkt plagg. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra skýri það. Er það svo að þetta sé skýrsla eða álit stjórnskipaðrar nefndar eða vinnuhóps?

Auðvitað ætti Alþingi að taka þetta mál af ríkisstjórninni. Það er augljóst mál. Því miður virðist metnaður meiri hlutans á þingi ekki vera meiri en svo, samanber ræðu formanns allshn. áðan, að það er hlaupið í vörn fyrir þetta sleifarlag ríkisstjórnar. Menn áttu auðvitað að taka upp þykkjuna og segja: Þetta gengur ekki. Þingið tekur málið af ríkisstjórninni og klárar það úr því að hún er ófær um að leysa það vegna innri ágreinings.

Auk þessa gæti hæstv. viðskrh. valið þá leið sem áður hefur verið farin, að flytja málið sjálf. Þá yrði það hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, 1. þm. Norðaust., sem flytti málið. Það hafa ráðherrar gert áður. Þeir hafa ekki látið andstöðu annarra stoppa það að þeir hrintu fram brýnum málum af þessu tagi sem tvímælalaust heyra undir starfssvið þeirra. Viðskrh. gæti t.d. gengið frá tilkynningarskyldu Samkeppnisstofnunar til lögregluyfirvalda og mælt fyrir um það með hvaða hætti Samkeppnisstofnun, af sinni hálfu, tryggi eðlilegt samráð við lögregluna þannig að mál geti gengið fram.