Brot á samkeppnislögum

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 13:54:54 (7157)

2004-04-29 13:54:54# 130. lþ. 106.96 fundur 516#B brot á samkeppnislögum# (umræður utan dagskrár), SKK
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[13:54]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla að sýna hv. málshefjanda meiri virðingu en síðasti ræðumaður og reyna að ræða málið efnislega í stað þess að hristast og skjálfa yfir formalisma sem kemur efni málsins ekkert við. Við erum að ræða um valdmörk ríkislögreglustjóra og samkeppnisyfirvalda við rannsókn á brotum. Ég verð að segja að ég lít þannig á að þau valdmörk séu tiltölulega skýr. Ég tek ekki undir það að einhver réttaróvissa sé á þessu sviði þótt upp hafi komið eitt mál þar sem minni háttar ágreiningur var.

Við vitum það að lögreglan fer með refsivörslu í landinu, ákæru- og refsivald gagnvart einstaklingunum, en Samkeppnisstofnun fer með annars konar vald. Hún fer ekki með ákæruvald og á ekki að gera, þaðan af síður refsivald. Hér er eftirlitsstofnun sem fylgist með framkvæmd samkeppnislaga.

Það kom fram hjá hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur að ekki væri um tilkynningarskyldu Samkeppnisstofnunar samkvæmt lögum að tefla. En það má kannski segja að almennt sé sú regla í gildi þrátt fyrir að hún sé ekki lögfest. Má ekki halda því fram að það sé borgaraleg skylda manna, hvort sem þeir eru starfsmenn Samkeppnisstofnunar eða ekki, að gera yfirvöldum viðvart ef grunur leikur á um brotastarfsemi?

Ég er þeirrar skoðunar, varðandi valdheimildir Samkeppnisstofnunar, að varast beri að veita þeim of rúmar heimildir. Við þurfum ekki að hafa tvær lögreglur í þessu landi. Samkeppnisstofnun fer ekki með ákæruvald eða refsivald, hvað þá dómsvald, og á ekki að gera það. Ég segi hins vegar að sú staða getur komið upp að rannsókn mála fari fram á tveimur stöðum. Það kann að vera varhugavert vegna þess að þrátt fyrir að rannsókn samkeppnisyfirvalda beinist að lögaðilum en lögreglunnar að einstaklingum þá er þetta einn og sami hluturinn. Þetta eru atriði sem þarf að taka til athugunar, herra forseti.