Brot á samkeppnislögum

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 13:59:26 (7159)

2004-04-29 13:59:26# 130. lþ. 106.96 fundur 516#B brot á samkeppnislögum# (umræður utan dagskrár), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[13:59]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Við höfum komið á því fyrirkomulagi innan stjórnsýslunnar að með samkeppnismálin, þ.e. eftirlit með brotum á lögunum og rannsókn á ætluðum brotum, fari ákveðin sjálfstæð stofnun, þ.e. Samkeppnisstofnun. Með þessu fyrirkomulagi var og er ætlun þingsins að tryggja nauðsynlega sérhæfingu, hagkvæmni og skilvirkni á þessu sviði, með það að meginmarkmiði að efla virka samkeppni til hagsbóta fyrir neytendur vöru og þjónustu.

Til að ná því markmiði er óumdeilt að tvennt þarf að koma til sem Alþingi ber líka ábyrgð á. Annars vegar að stofnunin hafi nauðsynlega burði, faglega og fjárhagslega, til að sinna þessu mikilvæga verkefni sem henni er falið og hins vegar að við tryggjum stofnuninni starfshæfa löggjöf. Samkeppnisstofnun er sannanlega hluti af refsivörslukerfinu. Ég hef bent á og fært fyrir því rök að viðurlagakafla samkeppnislaganna sé áfátt og hann þarfnist breytinga. Það var von mín eins og margra annarra að á yfirstandandi þingi kæmi fram frv. sem þjónaði m.a. þeim tilgangi að styrkja starfsemi Samkeppnisstofnunar og gera henni betur kleift en áður að sinna því mikilvæga hlutverki sem henni er falið.

Varðandi orð hv. þingmanna Bjarna Benediktssonar og Ágústs Ólafs Ágústssonar er ljóst að þáltill. sem þeir nefndu tekur ekki á þessu. Hún tekur enga afstöðu til þess hvar valdmörkin séu milli þessara stofnana. Efni hennar gengur fyrst og fremst út á að gerð verði almenn úttekt í samfélaginu þegar svo háttar að ekki er alveg ljóst hvar valdmörkin liggja þegar annars vegar sjálfstæðri eftirlitsstofnun og hins vegar lögreglu eru falin tiltekin verkefni. Þetta vil ég, herra forseti, árétta sérstaklega í þessu samhengi.