Brot á samkeppnislögum

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 14:01:29 (7160)

2004-04-29 14:01:29# 130. lþ. 106.96 fundur 516#B brot á samkeppnislögum# (umræður utan dagskrár), Flm. BH
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[14:01]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson komst að kjarna málsins í ræðu sinni. Hann sagði eitthvað á þá leið að varast skuli að veita Samkeppnisstofnun rúmar heimildir. Um það snýst málið, virðulegur forseti. Það er einmitt þetta sem hæstv. dómsmrh. er væntanlega að standa vörð um, þ.e. að Samkeppnisstofnun verði ekki of sterk í samfélaginu.

Nefndin sem hæstv. ráðherra skipaði vill fara sömu leið og við í Samfylkingunni höfum lagt fram í frv. okkar (Gripið fram í.) í megindráttum. Hæstv. ráðherra vill fara þá leið sem þar er lögð fram. Samkeppnisstofnun vill fara þá leið sem þar er lögð fram. Réttarfarsnefnd vill fara þá leið sem þar er lögð fram. Ég hlýt að spyrja, virðulegi forseti: Hvað er til fyrirstöðu? Það er hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason sem ekki vill styrkja Samkeppnisstofnun um of, eða hvað? Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra: Getur hæstv. dómsmrh. staðið í vegi fyrir sjálfsögðum réttarfarsumbótum endalaust mánuðum saman bara vegna þess að honum sýnist svo. Og hvar ætlar hann að leita þeirrar sérfræðiráðgjafar sem hann ætlar að fá til að styðja niðurstöðu sína? Hjá réttarfarsnefnd?

Virðulegur forseti. Að lokum vil ég segja að mér sýnist því miður að þessi umræða öll og það sem hér hefur komið fram sé hinn ömurlegasti vitnisburður fyrst og síðast um þá horrim sem samstarf þessara ágætu stjórnarflokka hangir á. Það er sorglegt og það er vont ef það bitnar á málum eins og þessu sem ætti þó ekki að vera ástæða til neins grundvallarágreinings á milli þessara tveggja flokka. En það þarf ekki meira til, virðulegur forseti.