Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 14:37:30 (7166)

2004-04-29 14:37:30# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[14:37]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Frú forseti. Ég nefni eina umsögn varðandi 24 ára regluna. Biskupsstofa biður okkur um að athuga það í nefndinni að ganga tryggilega úr skugga um að frv. skerði ekki mannréttindi einstaklinga. Okkur er treyst fyrir því að kanna það rækilega og breyta frv. ef þörf krefur.

Með 24 ára reglunni erum við að skerða rétt einstaklinga vegna þess að íslenskur ríkisborgari sem kemur með erlendan maka til landsins þarf að sækja um dvalarleyfi fyrir makann á grunni hjúskaparins. Byrjað er á því að slíta fjölskylduna í sundur. Íslendingurinn þarf að koma sér fyrir í landinu á meðan útlendingurinn bíður, mögulega með barn, eftir því að dvalarleyfi verði afgreitt. Allt ferlið er afar erfitt og reynir virkilega á fjölskyldurnar, hjónabandið og hjúskapinn. Ef löggjöfin er þess eðlis að hún reisi frekari skorður en verið hefur verður þetta enn þá erfiðara.

Við megum ekki hafa löggjöf sem gerir það að verkum að fólki finnist það stöðugt óvelkomið hingað. Við viljum vera gestrisin þjóð. Við erum að reyna að setja lög sem varna glæpum, en það er ekki þar með sagt að við þurfum að setja alla undir grun um að þeir séu að fremja brot.

Ég vil benda á umsögn frá MFÍK, Menningar- og friðarsamtökum íslenskra kvenna, máli mínu til stuðnings um að við getum gefið gott fordæmi. Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna benda okkur á mikilvægi þess að Íslendingar fari fram með gott fordæmi í heimi tortryggni og ófriðar og hlutverk okkar sé að axla ábyrgð sem felst í því að vera ríkt og sjálfstætt lýðræðisríki í samfélagi þjóðanna. Það er grundvallaratriði sem ég tel að við eigum að gera, en löggjöfin sem er til umfjöllunar ber þess ekki vott að við ætlum að bera þá ábyrgð.