Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 14:57:38 (7168)

2004-04-29 14:57:38# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[14:57]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að gera að umtalsefni umfjöllun hv. þm. um lífsýnatökuna. Hv. þm. hefur greint frá því að hún sé andvíg henni. Það er nefnilega þannig að í minnihlutaálitinu er gert ráð fyrir því að lífsýnataka geti farið fram ef umsækjandi sjálfur óskar eftir því. Ég tel að í raun sé sá ágreiningur sem er á milli meiri hlutans og minni hlutans í þessu efni ekki nema hártogun.

Helstu rökin fyrir því að minni hlutinn er á móti reglunni, eins og hún er í frumvarpinu og kynnt af hálfu meiri hlutans, þ.e. að Útlendingastofnun geti krafist þess að lífsýni verði veitt, eru þau að það er talið að það geti verið túlkað umsækjanda í óhag fallist hann ekki á þessa kröfu. Með nákvæmlega sama hætti er hægt að segja að það yrði túlkað umsækjanda í óhag nýtti hann sér ekki heimild þá sem minni hlutinn leggur til varðandi lífsýni. Niðurstaðan er nákvæmlega hin sama.

Ef undirliggjandi gögn eru ófullnægjandi og það er gert ráð fyrir því í lögunum, hvort sem Útlendingastofnun getur farið fram á lífsýnatökuna eða að umsækjandinn hafi heimild til að leggja hana fram, þá verður niðurstaðan nákvæmlega sú sama. Það verður að hafa það í huga varðandi ákvæðið um lífsýni að það reynir aldrei á þetta ákvæði nema undirliggjandi gögn séu ófullnægjandi. Ákvæðið beinist að því að hægt sé að skera úr um þann skyldleika sem umsóknin byggir á. Við erum hugsanlega að tala um eitt mál á ári, ef við horfum til þess sem tíðkast hefur í nágrannalöndunum, hugsanlega eitt mál annað hvert ár. Þegar menn blanda inn í þessa umræðu hættunni á að þar þvælist fyrir ættleiðingar og þess háttar þá held ég að við séum farin að tala um verulega litlar líkur á að slík mál valdi truflun í framkvæmd. Það gæti jafnvel gerst á einhverra hundraða ára fresti.