Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 15:00:54 (7170)

2004-04-29 15:00:54# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[15:00]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að í nál. meiri hlutans er einmitt gert ráð fyrir að færð verði í reglugerð ákvæði um hvaða reglur skuli gilda um lífsýnatökuna, meðferð lífsýnisins og annað þess háttar þannig að sjálfsögðu þurfa að vera skýrar reglur um þessi efni, en það þýðir samt ekki að þær reglur þurfi að vera inni í lagatextanum sjálfum.

Hvers vegna er verið að setja regluna? Það er vegna þess að mikilvægt er að þær stofnanir sem fara með málaflokkinn hafi skýrar lagaheimildir til þess að framkvæma lögin og fyrir öllum þeim úrræðum sem nauðsynleg eru til þess að framkvæma lögin í samræmi við tilgang þeirra. Ef það er rétt að það gerist einu sinni á ári eða einu sinni annað hvert ár eða eitthvað þess háttar er þá í raun og veru um það mikla inngrip í líf manna að ræða sem haldið er fram í umræðunni?