Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 15:12:32 (7177)

2004-04-29 15:12:32# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, BH
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Virðulegur forseti. Ég held að rétt sé að draga það aðeins fram í umræðunni sem hefur fallið svolítið í skuggann af öðru að upprunalega var þetta frv. um breyting á lögum um útlendinga lagt fram í því skyni að nýta aðlögunarheimildir EES-samningsins í tengslum við stækkun samningsins.

Ég vil halda því til haga hér vegna þess að það er svolítið dapurlegt fyrir þann hluta þessara laga að þau ákvæði hafa ekki fengið mikla umfjöllun, kannski vegna þess að um þau hefur ríkt mikil sátt. Af hverju hefur ríkt um þau mikil sátt? Jú, virðulegi forseti, m.a. vegna þess að það var vel til þeirra ákvæða vandað í upphafi. Haft var samráð við hlutaðeigandi, við aðila vinnumarkaðarins og það er sátt í baklandinu, ef við getum orðað það svo, um þau ákvæði laganna.

Ég vildi óska þess, virðulegi forseti, að hæstv. dómsmrh. hefði nýtt sér þau vinnubrögð til fyrirmyndar þegar kemur að þeim ákvæðum sem dómsmrn. ákveður að nota, ég vil segja ferðina, nota EES-ferðina til þess að bæta inn í íslensk lög. Það eru öll hin umdeildu ákvæði sem við höfum verið að ræða hér og hafa orðið tilefni til gríðarlegra mótmæla, fjölda undirskrifta til þess að mótmæla lögunum og mikilla mótmæla frá fjölmörgum umsagnaraðilum um frv. Flestir og að því er ég best veit allir sem hafa gefið umsagnir hafa lýst yfir tiltölulega mikilli ánægju með þann þátt sem snýr að EES-kaflanum.

Hv. formaður allshn., Bjarni Benediktsson, og aðrir sem talað hafa af hálfu ríkisstjórnarinnar í málinu frá upphafi hafa gjarnan bent á og svarað fyrir gagnrýni á þessi ákvæði með þeim orðum að um misskilning sé að ræða.

[15:15]

Það er misskilningur hjá stjórnarandstöðunni að túlka frv. á þann veg sem við gerum. Það er misskilningur hjá Alþjóðahúsi, Fjölmenningarráði, Rauða krossinum, mannréttindaskrifstofu, Lögmannafélaginu, Persónuvernd o.s.frv. Það eru ansir margir, virðulegi forseti, sem misskilja frv. og það eitt og sér er að mínu mati næg ástæða til þess að taka öll misskildu ákvæðin til endurskoðunar í dómsmrn., vanda betur til undirbúnings þeirra miðað við þær kröfur sem við gerum til nútímalagasetningar, ræða m.a. við innflytjendur og þá sem vinna með þá hópa, hafa eðlilegt samráð við þá og draga þannig úr þeirri tortryggni og þeim misskilningi ef hann er til staðar, virðulegi forseti. Ég er reyndar á þeirri skoðun að það sé ekki í öllum tilfellum um misskilning að ræða því gagnrýnin er ansi þétt og byggð á sterkum rökum.

Virðulegi forseti. Það á ekki að keyra í gegn lög á tiltölulega skömmum tíma sem eru greinilega meira og minna misskilin, það er ekki góð lagasetning. Menn eiga að vanda sig betur, greiða úr misskilningnum og útskýra fyrir öllum þeim fjölmörgu hópum sem hafa mótmælt frv. að þetta sé ekki eins og þeir halda.

Við vorum með tillögu í hv. allshn. um umdeildu ákvæðin. Ég þarf ekkert að fara ofan í efni þeirra enn einu sinni. Það hefur verið gerð mjög góð grein fyrir ákvæðunum af þeim hv. þm. stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson gerði grein fyrir nefndaráliti sem stjórnarandstaðan stendur öll saman að og búið er að gera ágætlega grein fyrir rökunum að mótmælum okkar. Við erum ekki tilbúin til að setja regluna um 24 ára aldurinn, við erum ekki tilbúin til að heimila ákvæði um lífsýnatöku í því formi sem nú liggur fyrir án þess að kveðið sé á um nokkra málsmeðferð í tengslum við slíka heimild o.s.frv.

Virðulegi forseti. Það hefur komið upp mikil umræða í kringum frv. og umdeildu ákvæðin um friðhelgi einkalífs, persónuvernd og viðlíka mannréttindi. Mig langar til að lesa stuttan kafla upp úr áliti laganefndar Lögmannafélags Íslands um frv. Laganefndin hefur séð ástæðu til þess að brýna sérstaklega þau atriði sem ég ætla að lesa fyrir hið háa Alþingi og kemst að þeirri niðurstöðu að hún gjaldi mjög varhuga við ákvæðunum um lífsýnatökuna, hún er á móti því ákvæði og líka ákvæðinu um 24 ára regluna. En í áliti laganefndar Lögmannafélags Íslands segir, með leyfi forseta:

,,Laganefnd minnir á það að samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Sú friðhelgi verður ekki skert nema samkvæmt skilgreindum heimildum í lögum þar sem gætt er meðalhófs og ekki gengið lengra inn á svið friðhelginnar en þörf krefur til þess að ná þeim markmiðum sem stefnt er að. Jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 kveður á um það að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Þótt jafnræðisreglan heimili að vissu marki að gera greinarmun á milli tilvika verður slíkur greinarmunur að byggjast á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum. Sambærileg ákvæði er einnig að finna í 8. og 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Löggjafinn hefur almenna heimild til þess að setja reglur um rétt útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, sbr. 66. gr. stjórnarskrárinnar, en þau lagaákvæði verða að standast kröfur 65. og 71. gr. stjórnarskrár að öðru leyti. Þótt almennt verði ekki slegið föstu að jafnræðisreglur eða réttur til friðhelgi einkalífs tryggi einstaklingum ótvíræðan rétt til að lifa fjölskyldulífi sínu í ákveðnu ríki, verður löggjöf sem ætlað er að skilgreina þau skilyrði sem uppfylla þarf í því skyni að standast kröfur stjórnarskrár og mannréttindasáttmála um friðhelgi einkalífs og jafnrétti.``

Virðulegi forseti. Svo mörg voru þau brýningarorð sem laganefnd Lögmannafélags Íslands sá ástæðu til að setja í inngang sinn. Þetta eru aðeins inngangsorðin að þeirri gagnrýni sem laganefndin leggur fram um ákvæðin margumræddu.

Virðulegi forseti. Umsagnirnar sem hefur verið vitnað til í umræðunni m.a. hjá laganefnd Lögmannafélags Íslands, Alþjóðahúsi og fleiri aðilum eru mjög vel rökstuddar. Ég get því miður ekki komist að þeirri niðurstöðu þó ég fegin vildi að hér sé um einhvern misskilning að ræða. Málið er augljóslega ekki svo einfalt og ég held að það sé mjög vont að hæstv. ríkisstjórn ætli að fara með lagasetninguna í gegn á þessum grunni og svara framkominni gagnrýni að hér sé um tóman misskilning að ræða því að með því er verið að hunsa þau fjölmörgu ítarlegu rök sem komið hafa fram gegn þessum ákvæðum og eru flest hver sótt í enn þá umdeildari löggjöf Dana um málefni útlendinga, dönsku hægri stjórnina sem hefur verið mjög umdeild þar í landi og í þokkabót í samfélagi þar sem vandamálin eru allt önnur og miklu stærri en þau sem við erum að takast á við hér vegna sögu Dana í málefnum innflytjenda. Við höfum ekki sömu vandamál. Við höfum allt aðra samsetningu af útlendingahópum sem eru hlutfallslega miklu minni hér en þar í landi og allt öðruvísi samsettir. Við hljótum því að gera þá kröfu, virðulegur forseti, að við miðum löggjöf okkar við þann veruleika sem við búum við í dag.

Lögð hefur verið áhersla á að málið klárist fyrir 1. maí í ljósi þess að EES-ákvæðin þurfi að fara í gegn fyrir þann tíma. Það er enn hægt, virðulegi forseti, að samþykkja þær brtt. sem við höfum lagt til og fella niður þessi umdeildu ákvæði, vanda sig betur við undirbúning þeirra og skoða þau betur. Það er ekkert sem kallar á að þau séu keyrð í gegn í flýti í allri þeirri andstöðu sem þau hafa í samfélaginu.

Ég vil líka vekja athygli á því að Alþýðusamband Íslands, sem ég trúi að hafi þrýst á um að ákvæðin sem lúta að EES-aðlöguninni færu í gegn á tilskildum tíma, tekur fram í umsögn sinni að það leggi áherslu á að það sem snýr að EES taki gildi fyrir 1. maí en að þau umdeildu ákvæði sem hafa verið hvað mest í umræðunni kalli að mati sambandsins á mun meiri skoðun og umræður áður en þau verða að lögum. Í ljósi framanritaðs leggur Alþýðusambandið áherslu á að sá hluti frv. sem snýr að aðlögunarfresti vegna stækkunar EES verði afgreiddur fyrir 1. maí sem og aðrir þættir sem samstaða er um, en hvað varðar annað efni sem mikill ágreiningur er um leggur Alþýðusambandið til að afgreiðslu verði frestað að sinni til að tækifæri gefist til að skoða þau mál frekar og leita leiða til að skapa sem víðtækasta sátt um niðurstöðuna.

Virðulegi forseti. Ég hvet hæstv. dómsmrh. og hæstv. ríkisstjórn til að hlusta á öll þau varnaðarorð sem fram hafa komið um þessi umdeildu ákvæði frv. Góð lagasetning á a.m.k. ekki að vera þannig að allir sem hún nær til misskilji hana að meira eða minna leyti og fjölmargir aðrir því eins og dregið hefur verið fram hafa ungliðahreyfingar allra stjórnmálaflokkanna sameinast um að vera á móti þessum ákvæðum, virðulegi forseti. Ekki er það samsæri, en það getur vel verið að það sé allt saman misskilningur, þverpólitískur misskilningur.

Virðulegi forseti. Það er áfellisdómur yfir þessum ákvæðum, undirbúningi þeirra og efni þeirra ef það er þverpólitískur misskilningur á meðal allra ungliða í öllum stjórnmálaflokkum um efni þeirra ásamt því að sama misskilnings skuli gæta hjá allri stjórnarandstöðunni og nánast öllum þeim sem fjalla um eða hafa komið eitthvað nálægt mannréttindaumræðu hér á landi ásamt Lögmannafélagi Íslands, Persónuvernd og öllum þeim fjölmörgu sem taldir hafa verið upp og óþarfi er að telja upp aftur.

Virðulegi forseti. Ég bind enn vonir við að hæstv. ríkisstjórn sjái að sér og dragi þessi umdeildu ákvæði til baka, skoði þau betur og reyni a.m.k. að gera þau þannig úr garði að fólk skilji þau ef það er vandamálið.