Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 15:25:59 (7178)

2004-04-29 15:25:59# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, SKK
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[15:25]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Frú forseti. Ég sé ástæðu til að leggja orð í belg út af frv. sem hér er til umræðu, um breyting á lögum um útlendinga, varðandi þau atriði sem fram koma í þeim nefndarálitum sem liggja fyrir hinu háa Alþingi. Ég tel nauðsynlegt að skýra og gera grein fyrir nokkrum atriðum sem þar koma fram og hefur verið vikið að í umræðunni. Áður en ég geri það vil ég koma því að það er rétt sem hér hefur komið fram að þegar frv. var lagt fram á Alþingi birtist talsverð gagnrýni og menn höfðu uppi varnaðarorð vegna þess. Ég tel það eðlilegt, enda er málaflokkurinn viðkvæmur og við því mátti búast að athugasemdir yrðu gerðar við efni frv. Reyndar eru afar fá frv. til laga sem ekki eru gagnrýnd a.m.k. af stjórnarandstöðuflokkunum.

Ég tel hins vegar að við í allshn. höfum hlustað á þau varnaðarorð og meðtekið þá gagnrýni sem fram hefur komið og gert breytingar á frv. sem ættu að vera mjög til bóta fyrir þá sem gagnrýndu frv. og sömuleiðis stjórnarandstöðuflokkana sem hafa farið mikinn í umræðunni. Ég verð þó að segja að gagnrýnin sem fram kom á frv. í upphafi var að mörgu leyti ómakleg og bar þess að mínu mati stundum merki að þeir sem hæst höfðu virtust ekki hafa kynnt sér málið nægilega. Ég leyfi mér að minna á að í opinberri umræðu var því haldið fram í aðdraganda umræðu um frv. að ríkisstjórnin væri t.d. að leggja til að heimilaðar yrðu húsleitir á heimilum útlendinga án dómsúrskurðar og slíkar húsleitir hefðu ekki verið praktíseraðar í íslenskum lögum áður. Að sama skapi var því haldið fram í umræðunni að verið væri að lögfesta heimildir fyrir Útlendingastofnun til þess að taka lífsýni af útlendingum án þess að þeir hefðu eitthvað um slíka lífsýnatöku að segja.

Lengst var kannski gengið í gagnrýni á Alþingi í 1. umr. frv. af hálfu hv. þm. Atla Gíslasonar sem lýsti því grímulaust yfir að ríkisstjórnin og frv. væri andsnúið erlendum ríkisborgurum. Það er fjarstæða þegar menn lesa frv. yfir og fara yfir efnisgreinar þess, lið fyrir lið.

Sá sem hér stendur er reyndar þeirrar stjórnmálaskoðunar að það skipti engu máli frá hvaða landi viðkomandi einstaklingur er. Einstaklingshyggjumenn líta ekkert á það. Það skiptir nákvæmlega engu máli. Þegar við förum í bakarí spyrjum við ekki hvernig bakarinn er á litinn, við viljum fá upplýsingar um það hvort brauðið sé gott og hvað það kosti, en það er ekki verið að lögfesta eða tala fyrir þeim sjónarmiðum sem hv. þm. Atli Gíslason lét falla í 1. umr. og mér þóttu mjög ómakleg.

[15:30]

Umræðan í nefndinni var eins og ég sagði mjög góð. Tekið var tillit til sjónarmiða fjölmargra aðila um atriði sem betur mættu fara. Þau voru skýrð og þau koma fram í fyrirliggjandi nefndaráliti. Þetta eru atriði sem stjórnarandstaðan ætti að taka undir og mér heyrist hún taka undir a.m.k. einhver þessara atriða.

Ég ætla að víkja að nokkrum efnisatriðum frv. og byrja á b-lið 2. gr. Í þeirri umræðu sem nú stendur yfir hefur mikið verið gert úr því að sú regla feli í sér svokallaða öfuga sönnunarbyrði.

Hvað felur reglan í sér? Hún felur það í sér að þeir einstaklingar sem ætla að ná fram réttindum á grundvelli þess skilyrðis sem þar er sett, þ.e. að gildur hjúskapur sé til staðar, þurfi að sýna fram á að skilyrðið sé uppfyllt. Einstaklingur sem sækir um rétt á grundvelli tiltekinna laga þarf að sýna fram á að hann uppfylli skilyrði sem lög setja. Er þetta öfug sönnunarbyrði? Ég get ekki séð að svo sé. Ég velti fyrir mér hvort sú regla sem minni hlutinn í allshn. mælir fyrir eigi að gilda um alla þá sem í slíkri stöðu eru og sækja tiltekinn rétt. Á ríkið t.d. að færa sönnur á gildi allra hjúskapa í landinu?

Hvað með önnur réttindi? Hvað með það þegar einstaklingur óskar eftir ívilnandi ákvörðun stjórnvalds um það að hann fái einhver tiltekin réttindi, ef t.d. hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson vildi afla sér lögmannsréttinda ætti þá ríkið að grafast fyrir um það hvort hann væri útskrifaður úr lagadeild Háskóla Íslands? Auðvitað ekki. Maðurinn leggur sjálfur fram prófskírteini sem er grundvöllur þeirra réttinda sem hann óskar eftir að fá úr hendi hins opinbera.

Hið sama má segja um þá sem sækja um örorkubætur á grundvelli metinnar örorku. Er það Tryggingastofnunar að færa sönnur á það að viðkomandi bótaþegi sé öryrki? Auðvitað ekki. Bótaþeginn sjálfur færir sönnur á það að hann geti talið til réttar samkvæmt þeim lögum. Þetta er nákvæmlega sú regla sem b-liður 2. gr. frv. kveður á um, að þeir einstaklingar sem óska eftir ívilnandi stjórnvaldsákvörðun færi sönnur á það að þeir uppfylli skilyrði þess að þeir geti notið þeirra réttinda. Það stendur ekki steinn yfir steini í öllu tali um öfuga sönnunarbyrði sem er einungis sett fram til þess að kasta ryki í augu þeirra sem hafa efasemdir um frv. sem liggur fyrir.

Flutningsmenn meirihlutaálitsins hafa lýst því yfir og það kemur líka fram í greinargerð með frv. að þeir vilji sporna við svokölluðum málamynda- og nauðungarhjónaböndum. Þetta vill reyndar minni hlutinn líka og það kom fram í ágætri ræðu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur. Munurinn er hins vegar sá að við í meiri hlutanum viljum hafa tæki í lögum til að sporna við slíkum gerningum. Það virðist minni hlutinn hins vegar ekki vilja. Ein af þeim reglum er títtnefnd 24 ára regla. Þetta er varúðarregla sem kemur í veg fyrir að hjúskapur sem er einungis til þess ætlaður að afla dvalarleyfis geti þjónað tilgangi sínum. Það hljóta allir að vera sammála um að slíkt markmið sé æskilegt. Það hlýtur að vera æskilegt markmið í sjálfu sér að vilja sporna við málamynda- og nauðungarhjónaböndum. Ég leyfi mér a.m.k. að halda því fram.

Reglan miðar jafnframt að því að vernda þá sem er hættara við þrýstingi eða misneytingu af einhverju tagi gegn því að falbjóða sig til hjúskapar.

Nú höfum við fengið á fundi nefndarinnar fulltrúa frá þeim aðilum sem vinna við framkvæmd þessara laga, m.a. sýslumanninn á Keflavíkurflugvelli og forstjóra Útlendingastofnunar. Þetta eru menn sem þekkja lögin og vita hvaða aðferðum er beitt til að ná fram þeim markmiðum sem við viljum sporna við og þeir mæla eindregið með því að þetta ákvæði sé sett í lögin. Hv. þm. telja sig hins vegar vera þess umkomna að vita betur en þeir sem hafa með lögin að gera og vinna með þau og þeir segja að þetta ákvæði sé þýðingarlaust. Ég leyfi mér hins vegar að trúa frekar þeim aðilum sem eru sérfróðir á þessu sviði og þurfa að vinna með lögin.

Það kom fram hjá þessum aðilum í umræðu fyrir nefndinni að varnaðaráhrif svona ákvæða væru mjög mikilvæg. Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli útlistaði t.d. að í heiminum væru glæpamenn sem leituðu uppi glufur í löggjöfum einstakra landa og nýttu sér skilyrði um hjónaband til þess að afla sér vettvangs til víðtækari glæpastarfsemi. Það hlýtur að vera lögfull og góð röksemd og ástæða fyrir þessari reglu, a.m.k. trúi ég því og þess vegna styð ég hana.

Eins og ég sagði í andsvari fyrr í dag hefur reglan ekkert með hjúskap að gera í þeim skilningi að það er ekki verið að skerða rétt með þeim hætti sem fram kemur í minnihlutaálitinu. Það er ekki verið að setja það skilyrði að erlendir ríkisborgar þurfi að vera 24 ára gamlir til þess að ganga í það heilaga, síður en svo. Það er einungis verið að setja þá reglu að hjúskapur sem slíkur veiti ekki sjálfstæðan rétt til öflunar dvalarleyfis en hann kemur hins vegar ekki í veg fyrir að þessir aðilar geti aflað sér dvalarleyfis á öðrum grundvelli.

Mig langar þá að víkja að húsleitarheimildinni. Í aðdraganda umræðunnar og þess að mælt var fyrir þessu máli á Alþingi var því haldið fram --- eins og kom fram áðan --- að verið væri að heimila Útlendingastofnun og yfirvöldum á Íslandi óskilyrtar heimildir til að ráðast inn í híbýli erlendra ríkisborgara sem grunur léki á um að væru að brjóta lög. Þessu var blákalt haldið fram í umræðunni gegn frv. Við vitum hins vegar betur, það kom fram í nefndinni og kemur fram í 29. gr. núgildandi útlendingalaga að þar eru heimildir til húsleitar á heimili útlendinga, alveg eins og það eru heimildir í lögum um meðferð opinberra mála til húsleitar hjá öðrum einstaklingum sem á þessu landi eru. Það kemur líka fram í núgildandi 29. gr., 3. mgr. ef ég man rétt, að þar er gerð krafa um það að lögin um meðferð opinberra mála gildi um slíkar húsleitir. Hvað segja þau? Þau kveða á um að skilyrði þess að farið sé í slíka húsleit sé að fyrir liggi dómsúrskurður.

Því var haldið fram í nefndinni að þetta skilyrði væri ekki til staðar í fyrirliggjandi frv., ekki þyrfti að gera skilyrði um dómsúrskurð sem undanfara húsleitar og breyta þyrfti frv. Við höfum núna gert tillögur til breytinga á þessu frv. sem skýra skilyrðið enn frekar þannig að nú ætti að vera algjörlega ljóst að dómsúrskurður er nauðsynlegur undanfari þess að ráðist verði í húsleit.

Það kemur hins vegar fram í áliti minni hluta nefndarinnar að mjög nauðsynlegt sé að rökstyðja sérstaklega gagnsemi þeirrar húsleitar sem hér er til umfjöllunar. Auðvitað er það rétt. Og hvað felur krafan um dómsúrskurð sem undanfara húsleitar í sér? Hún felur það í sér að sá sem óskar eftir því að fá að fara í húsleit rökstyðji fyrir dómi, fyrir hlutlausum aðila, að efni standi til þess að fara í slíka húsleit. Við höfum orðið við þeirri athugasemd sem gerð var grein fyrir með mjög dramatískum hætti af hálfu fulltrúa stjórnarandstöðunnar um að meiri hlutinn hlustaði ekki, frekar en reyndar í nokkrum öðrum málum. Þetta er alveg skýrt. Húsleitarheimild hefur alltaf verið til staðar. Hún verður það áfram og hún verður veitt á grundvelli dómsúrskurðar.

Þá er komið að lífsýnunum og ég ætla í örfáum orðum að víkja að þeim. Eins og áður segir byggði hin upphaflega gagnrýni á frv. m.a. á því að með því væri verið að heimila íslenskum stjórnvöldum að taka lífsýni umyrðalaust úr útlendingum til að sanna skyldleika og að útlendingar hefðu ekkert með þá lífsýnatöku að gera. Fullyrt var að engan dómsúrskurð þyrfti eða neinar slíkar aðgerðir, Útlendingastofnun gæti bara birst og heimtað lífsýni. Ef við skoðum það ákvæði sem hér er til umfjöllunar sjáum við, og það þarf ekki annað en að lesa ákvæðið til þess, að sá skilningur finnst ekki innan ákvæðisins. Ákvæðið kveður á um að Útlendingastofnun hafi heimild til að krefjast þess að umsækjandi um dvalarleyfi eða ættmenni hans gangist undir rannsókn á erfðaefni, og töku lífsýnis í því skyni, til að staðfesta að um skyldleika sé að ræða. Í upphaflega frv. er talað um heimild til þess að krefjast lífsýnis. Það felur hins vegar ekki í sér sjálfstæðan rétt til að taka lífsýni vegna þess að útlendingurinn sem krafan beinist að getur undir öllum kringumstæðum og alltaf, og hefur alltaf frá upphafi getað, hafnað því að veita þetta lífsýni. Ákvæðið getur í þeim skilningi ekki talist íþyngjandi eins og hér er haldið fram af þeirri ástæðu að sá sem krafan beinist að þarf ekki að fallast á hana.

Í nefndaráliti meiri hlutans eru lagðar til breytingar á þessu ákvæði frv. og það staðfest að það sé algjörlega morgunljóst að viðkomandi aðili sem krafan um lífsýnatöku beinist að hafi alltaf heimild til að hafna því að gangast undir töku lífsýnis. Útlendingastofnun eða annar sá aðili sem mun leggja fram kröfu um að lífsýnisákvæðinu verði beitt er stjórnvald og í stjórnsýslu sinni er það stjórnvald lögbundið. Við verðum að gera ráð fyrir því, a.m.k. fyrir fram, að íslensk stjórnvöld fari að settum lögum og um Útlendingastofnun eins og önnur stjórnvöld gilda ákvæði stjórnsýslulaga þannig að við framkvæmd laganna leiðir það af eðli máls að sú stofnun verður að fara að stjórnsýslulögum, beita m.a. meðalhófsreglu sem þar er lögfest. Hún felur það í sér að ef útlendingur sem kemur hingað til lands óskar eftir dvalarleyfi og leggur fram gögn sem sanna með óyggjandi hætti að hann uppfylli þau skilyrði sem lögin kveða á um er alveg morgunljóst að Útlendingastofnun hefur ekki heimild í lögum til að krefjast lífsýnis. Það er alveg ljóst. Það leiðir einfaldlega af meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna. Frú forseti. Áhyggjur þeirra sem hér hafa tjáð sig varðandi þennan þátt frv. eru að mínu mati ástæðulausar.

Að svo búnu tel ég ekki ástæðu til að fara nánar yfir fleiri atriði frv. Það er búið að gera það nokkuð ítarlega í þessari umræðu. Þó eru fjölmörg atriði sem mætti fjalla nánar um. Ég leyfi mér hins vegar að vísa til þess sem fram hefur komið í umræðunni varðandi þau.