Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 15:47:49 (7180)

2004-04-29 15:47:49# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Frú forseti. Ég var að vísa til þeirra ummæla sem fram komu hjá gestum allshn. á fundum nefndarinnar. Ég var að vísa til þeirra ummæla sem þeir menn sem vinna með lögin, t.d. sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli og Útlendingastofnun, höfðu um frv. að segja og ástæðurnar fyrir svokallaðri 24 ára reglu.

Varðandi samráðið tel ég að það hafi verið mjög viðamikið og gott í allshn. Ég veit ekki betur en að hv. þm. hafi sótt alla þá fundi þar sem frv. var til umfjöllunar og ég veit ekki betur en að allir þeir aðilar sem hér hafa verið taldir upp í dag, fulltrúar erlendra ríkisborgara, fulltrúar Rauða krossins, fulltrúar refsivörslukerfisins, í raun fulltrúar allra hópa sem að þessu máli koma, hafi hlotið áheyrn nefndarinnar, fengið að reifa sjónarmið sín og skiptast á skoðunum við nefndarmenn þannig að ég get ekki séð annað en að verulegt samráð hafi verið haft við alla þessa aðila, þeim hafi tekist að koma sjónarmiðum sínum að, og það sem meira er, við tókum verulegt tillit til athugasemda þeirra.