Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 15:52:36 (7183)

2004-04-29 15:52:36# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, Frsm. minni hluta ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[15:52]

Frsm. minni hluta allshn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (andsvar):

Frú forseti. Margt í máli hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar vakti miklar spurningar en hann heldur áfram að verja hin umdeildu ákvæði í frv. Mig langar aðeins að staldra við það sem hann talaði um hina svokölluðu öfugu sönnunarbyrði sem hann heldur áfram að verja eins og flokksbræður hans.

Það er einhver misskilningur í máli hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Að sjálfsögðu ber að vísa gildu hjúskaparvottorði. Það er enginn að tala um að hrófla við því. Að því loknu á einstaklingurinn hins vegar ekki að þurfa að hafa sönnunarbyrði fyrir því að hann búi ekki í málamyndahjónabandi. Það á að vera hjá stofnuninni sem heldur því fram. Viðkomandi stofnun á að þurfa að sanna þær ásakanir sem hún setur fram. En einstaklingurinn sem er búinn að framvísa hjúskaparvottorði á ekki að þurfa að sanna það að hann búi ekki í málamyndahjónabandi.

Mig langar aðeins að minnast á örfá atriði í umsögn Lögmannafélags Íslands sem ég ætla að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sé meðlimur í. Þar segir, með leyfi forseta, varðandi þetta atriði:

,,Laganefnd leggst eindregið gegn þeirri leið sem lögð er til í 2. tölul. 2. gr. frumvarpsins að kveða á um öfuga sönnunarbyrði viðkomandi einstaklinga þegar ,,rökstuddur grunur`` er um málamyndahjónaband eða nauðungarhjónaband í skilningi útlendingalaga.`` Litlu neðar stendur einnig, með leyfi forseta: ,,Laganefnd telur að ákvæði 2. tölul. 2. gr. frumvarpsins, einkum hin öfuga sönnunarbyrði sem þar er kveðið á um, takmarki persónufrelsi og friðhelgi einkalífs með of víðtækum og almennum hætti og skapi hættu á því að mörg hjónabönd sem ekkert er athugavert við verði talin falla undir ákvæðið. Þá bendir laganefnd á að það varðar missi mikilvægra réttinda ef slegið er föstu að um málamynda- eða nauðungarhjónaband sé að ræða og telur laganefnd að það tryggi ekki nægilega réttaröryggi að fela Útlendingastofnun vald til að kveða á um það.``

Svipað segir Persónuvernd sem leggur til að umrætt ákvæði verði ekki lögfest. Þess vegna er með ólíkindum hvernig hægt er að réttlæta þetta ákvæði með þeim hætti sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gerir ásamt fulltrúum Sjálfstfl.