Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 15:58:53 (7186)

2004-04-29 15:58:53# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, BrM
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[15:58]

Brynja Magnúsdóttir:

Frú forseti. Í dag er að ljúka 2. umr. um svokallað útlendingafrv. Það hefur vakið harkaleg viðbrögð í samfélaginu og ekki að ástæðulausu. Það er hægt að finna góða punkta í því en það er ekki nóg. Nokkur stór atriði í frv. ber að gagnrýna.

Ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna hafa verið í miklu samstarfi við mörg vefrita og samtaka er lúta að réttindabaráttu innflytjenda. Ungir jafnaðarmenn, Ung vinstri græn og Ung frjálslynd sendu m.a. frá sér sameiginlega ályktun þar sem frv. var mótmælt harðlega. Í ályktuninni segir m.a., með leyfi forseta:

,,Félögin telja að frumvarpið gangi gegn hefðbundnum sjónarmiðum um jafnræði borgaranna og borgaraleg réttindi.``

Heimdalli og Sambandi ungra framsóknarmanna var boðið að vera með á ályktun þessari en þau ákváðu að vera ekki með. Ekki náðist meiri hluti í SUF fyrir því og Heimdallur ákvað að vera með aðrar aðgerðir. Engu að síður hefur samstarfið verið mikið og kannski ber þetta einna gleggst merki um að tímarnir breytast og mennirnir með, í það minnsta ungdómurinn. Ungliðahreyfingarnar berjast gegn ýmsum lagaákvæðum frv. og telja að þau brjóti á jafnræði borgaranna og borgaralegum réttindum.

[16:00]

Hér á landi er að alast upp önnur og jafnvel þriðja kynslóð innflytjenda. Unga fólkið hér á landi hefur alist upp með þessum svokölluðu útlendingum og fyrir langalöngu hætti þetta fólk að vera útlendingar. Vinir manns sem eru e.t.v. dekkri á hörund en hinn ljósi Íslendingar fá spurningar eins og: Hvaðan ertu? Og þegar svarið er: Frá Íslandi, þá getur það tæplega verið vegna þess að enginn sannur Íslendingur er dökkur á hörund.

Vinir kynslóðarinnar sem eru að alast upp núna eru af hvaða kynþætti sem er, trúarbrögðum, þjóðarbroti eða húðlit. Unga fólkið í dag fer mun víðar og kynnist mun fleira fólki en gerðist áður fyrr þegar lengsta námsför sem hugsuð var var til kóngsins Kaupinhafn.

Frú forseti. Við Íslendingar erum nýjungagjarnir og við erum ekki lengi að tileinka okkur nýja siði og nýjar venjur, ekki síst matarvenjur. Við kunnum að elda ítalskan, franskan, tælenskan, kínverskan og mexíkóskan mat. Við dásömum menningarlega fjölbreytni og reyndar alla fjölbreytni. Fjölbreytni er tískuorðið í dag hvað varðar lagafrumvörp nema þegar kemur að útlendingum. Staðreynd er að í frv. er ekki hægt að fá dvalarleyfi á grundvelli hjónabands nema erlendur maki sé eldri en 24 ára. Vissulega getur makinn sótt um dvalarleyfi á öðrum forsendum en engu að síður mun þetta ákvæði leiða til mismununar. Maki minn er löggiltur og má koma til landsins án vandkvæða enda er hann Íslendingur, en þinn má það ekki vegna þess að hann er erlendur og yngri en 24 ára og það er grunsamlegt.

Enginn sem er yngri en 24 ára gæti mögulega viljað gifta sig. En sumir þeirra sem standa að meirihlutaáliti nefndarinnar ættu að yfirstíga skuldbindingarótta sinn og viðurkenna að ekki eru öll hjónabönd Íslendinga og útlendinga yngri en 24 ára með illum ásetningi og fólk yngra en 24 ára gæti verið ástfangið. Hver ætlar að sjá um að kanna það? Mun hæstv. dómsmrh. elta fólkið uppi og spyrja það spjörunum úr um ástina, um æskuminningar hvors annars, hver sé uppáhaldsliturinn? Tefjum fólk yngra en 24 ára af erlendu bergi brotnu í að koma til landsins með íslensku elskunni sinni vegna þess að grunur leikur á að um málamyndahjónaband sé að ræða. Það er niðurstaða ríkisstjórnarflokkanna. Aldursskilyrðið er þó hugsað að einhverju leyti sem verndarsjónarmið, að vernda einstaklinga sem gætu mögulega verið skikkaðir í nauðungarhjónabönd. En sú röksemd hefur heyrst m.a. frá Samtökum kvenna af erlendum uppruna að konur sem búa í samfélögum þar sem nauðungarhjónabönd tíðkast verði ekki frjálsari með aldrinum og því skiptir aldursákvæðið litlu máli í því tilliti.

Einnig getur ákvæðið leitt til þess að þeir sem virkilega ætli sér að koma á nauðungarhjónabandi sendi stúlkur hreinlega úr landi til upprunalands síns þar sem þær verða fyrir vikið varnarlausari. Þegar við höfum misst einstakling úr landi er ekki víst að hægt verði að koma honum til bjargar. Hægt er að harma og horfa til nærtæks dæmis þar sem er Sophia Hansen sem hefur barist fyrir dætrum sínum í fjölda ára. En kannski horfir það öðruvísi við, þar er um íslenskar stúlkur að ræða og kannski er það einmitt sterkasta atriðið í útlendingafrv. Verið er að gera innflytjendur að annars flokks þegnum. Við þurfum ekki að gæta bróður okkar, ekki að horfa til náunga okkar. Við erum orðin eigingjörn í hnattvæðingunni. Við fögnum henni en hörmum um leið, lokum landamærum og herðum löggjafir til að stemma stigu við alþjóðavæðingunni.

Frú forseti. Eitt er útrás í viðskiptalífi og yfirtökur og eignarhald og allt það í framandi löndum og viðskiptafundir erlendis með fólki af öllu þjóðerni en annað að það fólk fari að koma hingað til lands þegjandi og hljóðalaust. Ónei, herðum löggjöfina og verðum ósanngjarnari.

Stundum finnst mér tilfinnanlega vanta presta á hinu háa Alþingi sem gætu kennt okkur eitt og annað úr sunnudagaskólanum þar sem talað er um gullnu regluna: ,,Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.`` Íslendingar setja sig á svo háan hest stundum að það er ótrúlegt.

Erlendis er Íslendingur útlendingur og ég vona að fólk muni það. Útlendingar sem koma til Íslands eiga að lúta íslenskri löggjöf og því þarf ekki að herða ákveðna þætti hennar hvað varðar útlendinga eingöngu. Mér finnst það bera vott um fordóma og eins konar dónaskap gagnvart útlendingum.

Orðalag frv. hefur verið gagnrýnt fyrir að vera opið og óskýrt. Hugtakið málamyndahjónaband er hvergi skilgreint en úr því á víst að bæta í lagatexta. Gott og vel, ég er bara ánægð með það, en engu að síður stendur 24 ára reglan sem hrein og klár mismunun gagnvart útlendingum.

Frú forseti. Þó að Danir hafi þann háttinn á langar mig til að minna á að það er ýmislegt rotið í Danaveldi. Öfgastefna sem fer andstyggilega með útlendinga. Við horfum á sjónvarp og fordæmum hegðun ýmissa þjóðarbrota gagnvart hverju öðru. Við sjáum hvernig hatur blossar upp á ýmsum svæðum og við siglum sömu leið með svona fordómafullum útlendingalögum. Löggjöf er eitt en eins konar fordómamaskína er annað. Við þurfum lög er varða útlendinga en við þurfum líka framtíðarstefnu hvað varðar innflytjendur og útlendinga en ekki alltaf skyndiákvarðanir og skammsýni. Þetta er eins og í landhelginni, skyndilokun á svæðinu. Við Íslendingar erum kannski nafli alheimsins, að okkur finnst, en miðað við búkinn er naflinn ansi lítill. Þó að við séum lítil verðum við að vera skynsöm líka. Ég harma þessa skammsýni og vona að lagafrv. taki einhverjum breytingum fyrir 3. umr. Annars get ég ekki samþykkt það.