Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 16:31:22 (7192)

2004-04-29 16:31:22# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, Frsm. minni hluta ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[16:31]

Frsm. minni hluta allshn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jónína Bjartmarz hélt merkilega ræðu að mínu viti. Hún benti á samráðsleysi sem frumvarpshöfundar viðhöfðu við samningu frv. alveg eins og minni hlutinn hefur gert. Hún hafði einnig efasemdir um þær röksemdir sem eru í frv. um þörfina fyrir þeim breytingum sem hæstv. dómsmrh. vill keyra í gegn. Þetta undirstrikar einmitt þann málflutning sem við í minni hlutanum höfum bent á í allan dag. Hv. þm. er með fyrirvara á meirihlutaálitinu. Í rauninni má lesa alvarlegan ágreining milli ríkisstjórnarflokkanna í allshn. eftir ræðu hv. þm. Jónínu Bjartmarz að dæma um eitt af stærstu grundvallaratriðum og deilumálum í frv. og það er 24 ára reglan. Ég fagna því að hv. þm. Jónína Bjartmarz treystir sér ekki til að styðja þann óskapnað sem slík regla er.

Mig langar að spyrja hana beint út: Mun hv. þm. Jónína Bjartmarz styðja brtt. minni hlutans um að fella 24 ára regluna og 66 ára regluna út? Mig langar einnig að spyrja hv. þm. Jónínu Bjartmarz, sem er talsmaður Framsfl. í allshn. og í málefnum allshn., hvort Framsfl. er á sömu skoðun og hún og hvort hann muni kjósa í samræmi við kosningu hennar á eftir.