Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 16:42:08 (7199)

2004-04-29 16:42:08# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[16:42]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að eðlilegt sé að birta úrskurðina. Þetta er eins og hvert annað skýringargagn um framkvæmd laganna og eitt af því sem kom fram á ágætum fundum í allshn. um málið. Það góða við þessa fundi er þegar sérfræðingar og sérþekking kemur inn og menn benda á ýmislegt sem betur má fara. Ég tek undir með hv. þm. að það er sjálfsagt að úrskurðirnir séu birtir.

Varðandi anda laganna skynja þeir, ef ég skildi hv. þm. rétt, sem starfa við að framkvæma lögin neikvæðan anda laganna. Auðvitað fáum við af og til fréttir af einum og einum útlendingi sem hrasar einhvers staðar í kerfinu. En við fáum fyrst og fremst einhliða fréttir af því. Ég auglýsi eftir fréttum frá öllum fjöldanum sem hnökra- og erfiðleikalaust kemur til Íslands og finnur sig velkominn, bæði af þeim sem starfa við þetta og Íslendingum öllum.