Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 16:44:13 (7200)

2004-04-29 16:44:13# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[16:44]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Við nálgumst óðfluga lok 2. umr. um þetta mjög svo umdeilda lagafrumvarp sem ríkisstjórnin hefur lagt fyrir hið háa Alþingi. Mig langaði rétt í lokin til að viðra aðeins sjónarmið mín hvað þetta varðar. Eins og ég sagði áðan er enginn vafi á því að frv. er mjög umdeilt og merkilegt á vissan hátt að hafa t.d. orðið vitni að því að ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna, sem sjaldnast eru sammála, skuli allar sem ein hafa talað einni röddu gegn málinu. Unga kynslóðin skilur hvað þetta er vitlaust að mörgu leyti og í því felst ákveðin von til framtíðar, þ.e. að komandi kynslóðir muni verða svolítið frjálslyndari í þessum efnum en þær kynslóðir sem nú sitja á valdastólum.

[16:45]

Ég ætla ekki að hafa mörg orð. Félagar mínir í stjórnarandstöðunni eru búnir að segja það mesta. Ég er sammála þeim. Ég er sammála áliti minni hluta allshn. Mér finnast reglur eins og um 24 ára aldurinn, 66 ára aldurinn og lífsýnatökur og annað lykta af nokkurs konar nesjamennsku sem kannski má útskýra með einhverri landlægri hræðslu sem liggur í þjóðarsálinni sem sennilega var plantað þar inn þegar Tyrkjaránin stóðu sem hæst árið 1627 eða þar um bil.

Mér brá svolítið í brún fyrr í dag þegar ég hlustaði á ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur þar sem hún greindi frá því að allshn. hefði fengið til skoðunar dönsku lögin um útlendinga. Hún sagði að núgildandi lög yrðu strangari, íslensku lögin um útlendinga, þ.e. þegar þær breytingar sem nú liggja fyrir þinginu verða komnar í gegn verði íslenska löggjöfin í rauninni strangari en sú danska. Mér varð svolítið bilt við að heyra það því danska löggjöfin hefur verið mjög umdeild, það dylst engum sem fylgist með dönskum stjórnmálum að einmitt útlendingalögin og stefna danskra stjórnvalda í málefnum innflytjenda hefur verið mjög umdeild. Í Danmörku eru allt aðrar aðstæður en á Íslandi. Danmörk liggur miklu nær þéttbýlum svæðum í Evrópu og samgöngur á milli Danmerkur og annarra staða í heiminum, þaðan sem kannski kemur mikið af innflytjendum t.d. frá Afríku, Asíu, fjarlægum heimsálfum, eru með allt öðrum hætti en á Íslandi. Ísland er eyja úti í miðju Atlantshafi, það er yfir stórt og mikið haf að fara fyrir fólk sem vill hugsanlega koma hingað og fá hér aðsetur. Það er dýrt að ferðast hingað. Það eitt virkar því bara sem mikill hemill, (GHall: Enn þá.) frú forseti, á aðsókn útlendinga hingað til lands. Ég heyri að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson segir enn þá. Kann að vera enn þá. Ég gæti á vissan hátt tekið undir það.

Þá ber kannski að skilja löggjöfina núna sem svo að menn séu að reyna að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann. En mér finnst það í raun og veru óþarfi og mér finnst þá kannski óþarfi að ganga svona langt að setja inn reglu eins og t.d. þá um 24 árin. Mér finnst það óþarfi. En nóg um það.

Það er eitt atriði sem mig langar aðeins til að hnýta í sem mér finnst ekki hafa verið mikið rætt í dag en það er 15. gr. í frv. Þar á að bæta við einni setningu við 1. mgr. 56. gr. útlendingalaganna frá árinu 2002, ef ég man rétt. Síðasta setning 1. mgr. 56. gr. hljóðar svona eins og lögin eru í dag:

,,Lögreglunni er heimilt að leggja hald á farseðla sem finnast í fórum útlendingsins til notkunar við brottför.``

Nú vilja ríkisstjórnarflokkarnir bæta við eftirfarandi setningu:

,,Sama gildir um fjármuni til greiðslu á kröfu vegna kostnaðar við brottför og gæslu samkvæmt ákvæði þessu.``

Mér finnst þetta vera afskaplega grimmdarleg setning svo vægt sé til orða tekið. Mér sýnist að hér vilji stjórnvöld gera sig að eins konar þjóðvegaræningja á krossgötum, því áður en útlendingum sem koma hingað til lands og eru kannski svo ógæfusamir að fá ekki dvalarleyfi og eru sendir aftur héðan af landi brott er skutlað um borð í flugvél eða skip eða hvað það nú annars er, á að hirða af þeim alla peninga. Sennilega. Það er oft og tíðum þannig að þetta fólk hefur ekki yfir miklum fjármunum að ráða. Mér finnst það afskaplega grimmdarlegt að ætla að rýja þetta fólk inn að skinninu og sparka því héðan úr landi. Ég get ekki ímyndað mér, frú forseti, að við séum að tala um svo háar fjárhæðir á ársgrundvelli að íslenska ríkið þurfi að vera svo smásmugulegt að snúa við öllum vösum á þessu ógæfusama fólki áður en við hendum því út úr landinu. Ég get hreinlega ekki ímyndað mér það.

Ég vildi bara að þetta kæmi fram, frú forseti. Ég sé í nál. frá minni hluta allshn. að hún vill að þetta ákvæði falli brott og ég tek hjartanlega undir það. Ég minni enn og aftur á að þetta fólk er oft á tíðum fátækt, hefur ekki yfir miklum fjármunum að ráða og þeir litlu fjármunir sem það hefur kannski á sér við komuna til landsins eða þegar það er tekið og á að fara að vísa því úr landi, geta verið stórar fjárhæðir í þeirra huga og í þeirra heimi, en hreinir smáaurar fyrir okkur Íslendinga sem berjum okkur svo oft á brjóst og segjum að við séum ríkasta þjóð í heimi og að velmegun hér á landi hafi aldrei verið meiri en nú eftir 12 ára stjórn hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar, að þá skulum við miðað við þær forsendur vera svo smásmuguleg árið 2004 að við rænum fólk áður en við hendum því út úr landinu. Það er skömm að því, frú forseti.