Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 16:53:46 (7202)

2004-04-29 16:53:46# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[16:53]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson veifar hér blaðaúrklippu máli sínu til stuðnings og segir að íslenska lögreglan hafi þurft að standa í svona málum trekk í trekk. Ég er ekki viss um að svo sé. Ég held að þarna sé um eitthvert einstakt tilvik að ræða, en ef það er svo að íslenska lögreglan hefur þurft að standa í slíkum málum trekk í trekk, væri gaman að heyra hvort þingmaðurinn hafi undir höndum fleiri dæmi sem hann getur vísað til og jafnvel fá að heyra frá honum einhverjar tölur hvað það varðar.

Ég get alveg tekið undir það að við eigum að gera kröfur til útlendinga sem koma hingað til Íslands. Ég get alveg tekið undir það að við eigum að gera t.d. þær kröfur að þeir læri íslensku og þeir aðlagist íslenskum aðstæðum. Ég get alveg tekið undir það. Mér finnst alveg sjálfsagt að gera slíka kröfu til fólks sem vill búa á Íslandi. Ég tel að við ættum líka að fara vel yfir og fylgjast mjög vel með og stúdera reynslu t.d. nágrannaþjóðanna af einmitt innflytjendamálum. Það er eflaust alveg rétt sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson benti á áðan að aðsókn útlendinga að Íslandi mun aukast. Heimurinn er alltaf að verða minni og minni. Maður hefur í sjálfu sér oft og tíðum furðað sig á því að það skuli ekki vera meiri aðsókn af útlendingum hingað til lands en verið hefur. Skýringin kann einmitt að vera sú að málið er erfitt. Það eru miklar vegalengdir eins og ég benti á í ræðu minni áðan. Það er dýrt að koma hingað. Við njótum þannig lagað á vissan hátt landfræðilegrar einangrunar Íslands. Það er önnur saga.

En eins og ég sagði áðan, frú forseti, væri gaman að heyra hvort hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hafi fleiri dæmi og jafnvel einhverjar tölur á reiðum höndum.