Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 16:59:34 (7205)

2004-04-29 16:59:34# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[16:59]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Frú forseti. Ræða hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar var með algjörum ólíkindum. Ég veit ekki hvort hv. þm. var að tala um sama frv. og hér er til meðferðar vegna þess að rangfærslurnar voru slíkar. Hér var því t.d. haldið fram að lagafrv. sem við erum að fjalla um sé miklu strangara en dönsku lögin sem eru að hluta til fyrirmynd þessa frv. Það er algjör fjarstæða og á sér enga stoð í raunveruleikanum. Ég get t.d. nefnt það að samkvæmt dönskum lögum eiga aðstandendur engan sjálfstæðan rétt á grundvelli fjölskyldutengsla til þess að afla sér dvalarleyfis eins og við gerum ráð fyrir í þessu frv. Í sænsku lögunum er rétturinn aðeins rýmri, en þó ekki jafn vel skerptur og í dönsku lögunum. Svo er því haldið fram að þetta frv. sé miklu strangara en dönsku lögin.

Hv. þm. lýsti sig síðan á móti nánast öllum þeim ákvæðum sem hafa verið til umræðu í dag, þar á meðal 24 ára reglunni. Ég skil ekki hvers vegna. Ekki rökstuddi hann það. Við flutningsmenn erum að reyna að sporna við málamynda- og nauðungarhjónaböndum. Ég mundi telja að allur þingheimur ætti að vera sammála því markmiði. Er hv. þm. sammála því að slíkt sé gert? Það væri ágætt að fá upplýsingar um það.

Varðandi 15. gr. þá er hún ekkert sérstök í íslenskri löggjöf. Hér er einfaldlega um það að ræða að gerð sé aðför eða fjárnám eða lagt hald á fjármuni til þess að hafa upp í sakarkostnað eins og í öllum öðrum opinberum málum, sakamálum þar sem menn eru staðnir að því að brjóta lög. Eins og við meðferð opinberra mála þar hefur ríkisvaldið rétt til þess að gera eignir upptækar eða gera aðför að eignum til þess að mæta þeim kostnaði sem til fellur við rannsókn mála.