Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 17:08:34 (7209)

2004-04-29 17:08:34# 130. lþ. 106.7 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv. 41/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[17:08]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Við 1. umr. um málið sem hér liggur fyrir spunnust talsverðar umræður um nokkra þætti frumvarpsins. Það voru þrír þættir sem ég taldi á þeim punkti umræðunnar einkum þurfa að fara yfir. Það var í fyrsta lagi bráðabirgðaákvæði sem varðaði Norrænu eldfjallastöðina. Í öðru lagi undanþága sem háskólanum var veitt frá því að auglýsa allar stöður. Í þriðja lagi taldi ég þurfa að skoða ákvæði sem vörðuðu dómnefndir. Það kom í ljós á þeim morgni sem við ræddum þetta mál að hæstv. menntmrh. hafði lagt frv. fram í of miklum flýti. Við umræðuna var upplýst að háskólinn hefði sent hæstv. ráðherra bréf og óskað þess að tekið yrði út ákvæði sem varðaði dómnefndir vegna þess að það hafði ekki hlotið nægilega umræðu innan háskólans. Af því bréfi var ljóst að mjög hörð andstaða var gegn þessu tiltekna ákvæði innan skólans. Öll þessi þrjú atriði voru tekin til umræðu í nefndinni sem samþykkti að lokum ágreiningslaust þá niðurstöðu sem var síðan samþykkt við 2. umr. Ég átti þess ekki kost að ræða málið við 2. umr. og vil þess vegna leyfa mér, vegna þess að í sumum greinum er um að ræða grundvallaratriðið, að mínu viti, einkum að því er varðar sjálfstæði háskóla, að fara nokkrum orðum um þessa lokagerð.

Ég vil taka fram að í öllum þeim greinum sem ég hef nefnt hefur frumvarpið tekið breytingum til bóta, í sumum gagngerum stakkaskiptum til bóta og það ber að þakka. Hitt er þess eðlis að ég vil samt sem áður ræða það, einkum og sér í lagi með hvaða hætti háskólinn kemur að frumvörpum sem varða hann sjálfan og hvort það eigi beinlínis að vera sjálfsafgreiðsla hér á óskum háskólans og þær afgreiddar. Ég er ekki alveg viss um að svo sé, frú forseti.

Ég vil byrja á að segja það að ég er ánægður með þann skilning sem kemur fram á högum starfsmanna Norrænu eldfjallastöðvarinnar í frv. eins og það liggur fyrir eftir 2. umr. Það er verið að flytja Norrænu eldfjallastöðina inn fyrir mörk Háskóla Íslands og sameina hana Raunvísindastofnun. Um leið er búin til ný stofnun sem fjallar um jarðfræði. Ég fagna þessu. Þetta er eitt af því sem rætt var fyrst í ríkisstjórn sem ég og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir áttum sæti í árið 1995. Ég tel nauðsynlegt að rifja það upp, frú forseti, vegna þess að eitt það fyrsta sem hæstv. menntmrh. lét frá sér fara um vilja sinn til að efla sjálfstæði háskólans, sem ég ætla að gera lítillega að umræðuefni í þessari tölu minni, var að hún hefði tekið ákvörðun um að flytja Norrænu eldfjallastöðina og sameina hana stofnun háskólans til þess að styrkja skólann. Nú er enginn vafi á því í mínum huga að þessi ákvörðun er skynsamleg og hún verður til þess að styrkja báðar þessar stofnanir. Hún verður ekki síst til þess að styrkja Háskóla Íslands.

Mér mislíkaði hins vegar, eins og ég sagði frá við 1. umr., að hæstv. menntmrh. skyldi opinberlega, utan þessara sala, eigna sér þetta. Staðreyndin er sú að það voru jafnaðarmenn innan ráðherranefndar Norðurlandaráðs sem á sínum tíma tóku upp málefni ýmissa stofnana, nokkurra tuga held ég, og könnuðu með hvaða hætti ætti að varða þeim braut til framtíðar. Þá fyrst var það rætt innan íslensku ríkisstjórnarinnar fyrir níu árum að breyta þyrfti stöðu Norrænu eldfjallastöðvarinnar. Mörgum sinnum síðan komu fram hugmyndir um að gera það með þessum hætti. Niðurstöðunni má fagna, en það er af og frá að það hafi verið að frumkvæði hæstv. menntmrh. Ég nefni þetta vegna þess að menn eiga ekki að skreyta sig með lánsfjöðrum.

Ég gerði að umræðuefni við 1. umr. málsins að herða þyrfti frekar þau ákvæði sem tengjast afdrifum og framtíð starfsmanna Norrænu eldfjallastöðvarinnar. Það þarf að liggja alveg ljóst fyrir að þeir sem eru á annað borð taldir hæfir til þess að starfa þar núna haldi áfram störfum sínum við flutninginn. Mér sýnist að eins og greinin lítur út núna sé það tryggara. En ég vil að þetta sé algerlega skýrt og það orðalag sem upphaflega var á greininni hafi ekki verið sett inn til að skapa svigrúm til að segja einhverju af því ágæta fólki sem þar hefur starfað upp störfum. Þeir sem hafa verið nægilega góðir til þess að vinna innan stofnunarinnar meðan hún var utan háskólans eiga að starfa þar áfram. Breytingar af þessu tagi, og tala ég af nokkurri reynslu, ætti ekki að nota til að hreinsa til, ef svo má að orði komast.

Ég vil að þetta komi alveg skýrt fram og ef einhver úr liði stjórnarinnar hefur aðra skoðun og túlkar þetta á annan hátt þá lýsi ég eftir því að þau viðhorf komi fram, ella tel ég að þetta beri að túlka með þessum hætti.

Mér hefur líka orðið hugsað til þess sem hefur verið helsti akkur stofnunarinnar, þ.e. að fá hingað til lands erlenda vísindamenn sem hafa starfað um nokkurn tíma á styrkjum frá íslenska ríkinu og Norðurlandaráði. Mér sýndist, eins og greinin var upphaflega orðuð, breytingarnar geta falið í sér að þeir sem hafa ílenst hjá stofnuninni vegna þessa þyrftu að horfa fram á lok starfa sinna fyrir stofnunina. Ég lýsti því þá í ræðu minni að ég teldi það ekki við hæfi. Hins vegar sýnist mér að eins og greinin er núna þá taki hún af tvímæli um að menn ætli ekki að misnota sameininguna með þeim hætti.

[17:15]

Ég ræddi líka annað mál, frú forseti, sem ég er ekki alveg nægilega ánægður með hvernig tekið er á af hálfu menntmn. Ég nefndi það sérstaklega að þó að hægt væri að fallast á við vissar aðstæður að háskólayfirvöld fengju undanþágu frá því að auglýsa störf sem þau hyggjast ráða í verða menn samt að gæta hófs varðandi slíkar undanþágur. Taldir voru upp sex þættir í frv. sem undanþágurnar áttu að ná til. Ég tel að í fimm tilvikum sé þetta alveg réttlætanlegt en tek mönnum vara við því að leyfa þetta í þeim tilvikum þar sem um er að ræða störf sem falla til vegna mjög stórra rannsóknarstyrkja sem háskólinn fær. Ég hef stýrt umfangsmiklum rannsóknum sem kostuðu tugi milljóna og byggðust m.a. á opinberum styrkjum hér á landi og voru styrktar af erlendum aðilum líka. Ég hef líka unnið við rannsóknir af þessu tagi við erlenda háskóla og þekki umhverfið sem skapast við slíkar aðstæður. Við Háskóla Íslands eru komnar upp öflugar brautir þar sem íslenskir námsmenn geta sinnt rannsóknum sem falla undir framhaldsnám. Það er mjög jákvætt og leiðir til þess að þekking skapast hér á landi. Námsfólk, sumt afburðahæft, sem velst í nám af þessu tagi hefði hugsanlega ella farið til útlanda og staðnæmst þar. Þetta er því að öllu leyti gott en fyrir vikið er úrval hæfs ungs starfsfólks miklu meira en áður. Þessu fólki þarf að skapa jöfn tækifæri.

Af reynslu minni er það hins vegar jafnan svo að í rannsóknum af þessu tagi skapast ákveðin tengsl milli prófessora og ýmissa nemenda sem vinna rannsóknir fyrir þá. Ef verið er að auglýsa störf sem ráðið er tímabundið í vegna erlendu styrkjanna er alltaf sú hætta fyrir hendi að vildarnámsmennirnir njóti forgangs. Ég tel það ekki sanngjarnt gagnvart öðrum námsmönnum við svipaðar aðstæður að loka með þeim hætti fyrir leið þeirra inn í þetta. Oft á tíðum er þetta eina leiðin fyrir efnilega vísindamenn inn í háskóla. Þeir fara í tímabundnar stöður og ef þeir standa sig vel verður vist þeirra miklu lengri, þeir verða fastráðnir og hljóta frama innan háskólans. Það er auðvitað ágætt, en allir verða að standa jafnfætis.

Ég þakka hv. menntmn. fyrir að hún gerði þetta að sérstöku umfjöllunarefni. Fram kom í ræðu hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur við 2. umr. að garnirnar hafi verið tryggilega raktar úr forráðamönnum háskólans sem komu til fundar við nefndina út af ýmsum álitamálum. Niðurstaðan varð sú að í nál. kvað nefndin einróma svo að orði að ákvæðinu ætti að beita þröngt. Það fer nokkurn veg til að setja byttu undir þann leka sem mér þykir á frv. en ekki alla leið.

Ég er þeirrar skoðunar að nefndir þingsins eigi ekki að skilja svona mál eftir opin. Ég tel ljóst af ræðu hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur að nefndin virtist vera sammála því viðhorfi sem fram kom hjá mér og fleiri hv. þm. Samf. við 1. umr. Ég veit ekki hvað olli því að þetta var ekki sett betur og tryggilegar í ákvæði laganna, en ég vil taka okkur þingmönnum vara við því að skilja við hlutina á þennan hátt. Ég tel að það eigi að kveða fastar að orði. Ég er þeirrar skoðunar að ef þetta hefur verið einróma hugur nefndarmanna hefði þess átt að sjá stað í breytingartillögum. Ég get fellt mig við þetta að þessum orðum sögðum vegna þess að ég tel nauðsynlegt að það komi fram í þingsölunum að það er vilji okkar sem höfum tekið til máls og fjallað um þetta og þeim vilja hefur ekki verið mótmælt, að það á að beita ákvæðinu þannig að ekki sé verið að ráða vildarmenn einhverra tiltekinna stjórnenda innan háskólans.

Þau rök sem beitt var gegn þessu við 1. umr. voru þau að þetta væri ósk háskólans. Að sjálfsögðu. Að sjálfsögðu vilja prófessorarnir og aðrir sem stýra rannsóknum og kostnaðarsömum tilraunum ráða því með hvaða hætti peningunum er eytt. En þróunin á vísindasviðinu hefur verið slík að styrkirnir koma ekki bara, a.m.k. ekki stóru alþjóðlegu styrkirnir, út á þrótt og atgervi einstakra vísindamanna heldur er það orðspor háskólans og viðkomandi deilda sem opnar farveg fyrir fjármagnið. Þess vegna verða allir námsmenn sem tengjast viðkomandi deildum að eiga kost á því að njóta þeirra með sama hætti.

Ég vil líka gera að umræðuefni það sem ég drap á í upphafi ræðu minnar. Það er skipan dómnefnda. Mál sem háskólinn óskaði síðar bréflega með nokkrum flýti að yrði tekið út úr frv. og breytt. Það kom einfaldlega í ljós að innan háskólans var ekki samstaða um þetta tiltekna atriði. Í hinu upphaflega frv. var lagt til að menntmrh. ætti a.m.k. einn fulltrúa í öllum dómnefndum sem settar yrðu upp. Dómnefndirnar voru öðruvísi en fyrri dómnefndir sem fjalla um ráðningar innan háskólans að því leyti að gerð var tillaga um að þær störfuðu varanlega innan meginfræðasviða háskólans. Samkvæmt orðanna hljóðan hefði menntmrh. getað skipað einn og sama manninn í allar nefndirnar sem þá hefði ekki haft annan starfa væntanlega en véla um með hvaða hætti ætti að haga ráðningum innan Háskóla Íslands.

Út af fyrir sig er hægt að færa rök að því að æskilegt sé frá sjónarhóli hæstv. ráðherra hverju sinni að koma að miðstýringu ráðninga innan Háskóla Íslands, en allir sem hafa tekið til máls um þetta, jafnt innan háskólans og í þessum sölum, hafa verið sammála um að andi tímans er slíkur að við viljum efla sjálfstæði háskólans. Enginn stjórnmálamaður síðustu mánuði hefur tekið sér jafnoft í munn orðin ,,sjálfstæði háskólans`` og hæstv. menntmrh. Það fellur einfaldlega ekki saman að segja að sjálfstæði þjóðskólans eigi að auka og hins vegar að leggja fram tillögur þar sem verið er að herða tök hæstv. menntmrh. á ráðningum.

Sem betur fer kom í ljós að andstaða var við þetta innan öflugra háskóladeilda við HÍ. Í framhaldinu átti nefndin samræður við háskólarektor og fleiri mikilsverða menn innan Háskóla Íslands. Niðurstaðan var ákveðið samkomulag sem háskólarektor lagði til. Samkomulagið fól í sér að aðferðin yrði valkvæð, þ.e. ef deildir óskuðu eftir því að vera ekki seldar undir þær varanlegu föstu dómnefndir sem hæstv. menntmrh. hafði þessi sterku tök í gætu þær sett upp eigin dómnefndir.

Gott og vel. Það er hægt að fallast á slíkt. Við 1. umr. kom hins vegar skýrt fram að þegar menn tala um hagsmuni Háskóla Íslands hafa allir rétt til þess að hafa sjálfstæðar skoðanir. Sjálfstæði háskólans felst ekki í því að fara eigi að öllu leyti eftir því sem yfirvöld háskólans vilja, sér í lagi ef um er að ræða ágreining innan háskólans eins og fram kom í þessu tiltekna dæmi.

Við á hinu háa Alþingi hljótum að eiga og vera skyldug til þess að hafa sterkar skoðanir á því hvernig á að standa að ráðningum innan háskólans. Ég hef það, frú forseti, og ég hef efasemdir um þetta fyrirkomulag. Ég hef líka efasemdir um að rétt sé af háskólarektor að ganga með þessum hætti til einhvers konar samkomulags og málamiðlunar innan háskólans og bera það síðan í menntmn. þegar það er alveg ljóst að málið er ekki fullrætt innan Háskóla Íslands. Ég tel að þetta séu ekki lofsverð vinnubrögð og megintilgangurinn með því að koma hingað er að ítreka það.

Ég tel að þingið hafi sjálfstæðan rétt til að hafa á þessu skoðanir og það eigi ekki endilega að taka allar tillögur sem koma frá háskólayfirvöldum og setja þær sjálfkrafa í lög, allra síst þegar ljóst er að málið hefur ekki verið brotið til mergjar innan háskólans og þar eru uppi mismunandi skoðanir á málinu. Sú samsuða sem að lokum var fallist á til málamiðlunar í menntmn. þykir mér ekki áferðarfalleg. Mér finnst ekki að Háskóli Íslands og enn síður Alþingi Íslendinga eigi að taka þátt í slíkri moðsuðu.