Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 17:28:01 (7210)

2004-04-29 17:28:01# 130. lþ. 106.11 fundur 683. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (metangas og rafmagn) frv. 29/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[17:28]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Ég mæli fyrir brtt. sem ég flyt ásamt félögum mínum, hv. þm. Samf., Einari Má Sigurðarsyni og Jóhönnu Sigurðardóttur og jafnframt hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, Ögmundi Jónassyni, við frv. um vörugjald af ökutækjum.

Efnislega er frv. ekkert annað en framlenging á ákvæði til bráðabirgða sem náði til síðustu áramóta og gerði hæstv. fjmrh. kleift að fella niður 120 þús. kr. af vörugjaldi ökutækja sem eru gjaldskyldar samkvæmt lögunum en eru ekki knúnar af hefðbundnu eldsneyti heldur af metangasi eða rafmagni að verulegu leyti.

Sömuleiðis er í brtt. okkar að finna tillögu um að heimild ráðherrans gildi töluvert lengur en frv. hljóðaði um.

Tillaga okkar er í beinu framhaldi af stefnumótun sem Samf. hefur lagt fram á hinu háa Alþingi þar sem gert er ráð fyrir að fjmrh. hafi heimild til að fella niður öll opinber gjöld af ökutækjum sem eru knúin af öðru eldsneyti en hefðbundnu bensíni og olíu. Tillaga okkar er fyrsta tillaga sem stjórnmálaflokkur leggur fram þar sem er að finna heildstæða áætlun í þessu efni. Hún nær ekki einungis til ökutækja heldur til alls búnaðar sem þarf til að dreifa slíku eldsneyti og sömuleiðis til þess að framleiða það innan lands.

[17:30]

Við í Samf. og reyndar fleiri í stjórnarandstöðunni, frú forseti, teljum ákaflega mikilvægt að stjórnvöld marki sér heildstæða áætlun til að draga úr losun skaðlegra gróðurhúsalofttegunda. Það hafa íslensk stjórnvöld gert í orði en ekki á borði. Við höfum heyrt það, m.a. frá þeim fulltrúum sem við höfum kosið fyrir hið háa Alþingi til að sitja í Norðurskautsráðinu, að staðan varðandi hlýnun andrúmsloftsins er mun verri en við áður töldum. Fram eru komnar skýrslur, unnar af helstu sérfræðingum heims, á vegum Norðurskautsráðsins sem benda til þess að hlýnunin sé tvöfalt hraðari en menn hugðu áður. Þetta þýðir í fyrsta lagi að það er nauðsynlegt að fylgja eftir þeim ákvörðunum sem við Íslendingar höfum tekið um að draga úr losun þessara lofttegunda. Í öðru lagi sýnir þetta að það er nauðsynlegt að grípa til öflugri ráða en áður hafa verið samþykkt. Hlýnunin og þróunin er svo ör að við þurfum að grípa til harðari aðgerða.

Nú er frá því að greina, frú forseti, að því miður hafa íslensk stjórnvöld ekki einu sinni staðið við þær áætlanir sem þau hafa þó gert. Ekkert bendir til þess að þau geri sér grein fyrir því að váin er alvarlegri en áður. Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir á mikið hrós skilið fyrir það er hún tók til máls í umræðum um utanríkismál fyrr í vetur, sem einn þeirra fulltrúa sem við höfum kosið til setu í Norðurskautsráðinu, og greindi frá því að þar hefðu menn þungar áhyggjur af þessari þróun. Þeir teldu jafnframt að grípa þyrfti til afdrifaríkari aðgerða heldur en áður var ætlað. Hún sagði frá því opinskátt að nefndin hefði þurft að sæta því að fulltrúar Bandaríkjastjórnar hefðu reynt að beita þrýstingi til að koma í veg fyrir að tillögur um aðgerðir yrðu settar fram með þeim hætti sem áður hafði verið samþykkt.

Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir upplýsti jafnframt að formaður nefndarinnar hefði sent forustu Norðurskautsráðsins bréf um áhyggjur þingmannanefndarinnar af framferði Bandaríkjamanna. Við vitum auðvitað öll að þetta rennur saman við það að Bandaríkjastjórn og núverandi forseti Bandaríkjanna hafa hafnað því að um jafnalvarlegt vandamál sé að ræða og menn áður töldu. Kosningastjóri Bush hefur látið þau boð út ganga til allra starfsmanna kosningabaráttu Bandaríkjaforseta að beita ákveðnum rökum til að andmæla þessu. Það á klárlega að fresta þessu fram yfir bandarísku forsetakosningarnar vegna þess að málið er alvarlegt og er Bandaríkjaforseta erfitt.

Bréfið sem sent var forustu Norðurskautsráðsins hafði ekki mikil áhrif. Mig langar að rifja upp fyrir hæstv. forseta hver er í forustu Norðurskautsráðsins. Það er Ísland. Hver ber ábyrgð á að reyna að verða við tilmælum þingmannanefndarinnar? Það er hæstv. ríkisstjórn Íslands, hæstv. utanrrh. Gagnvart Bandaríkjastjórn, alveg eins og gagnvart hæstv. forsrh., virðist því miður skorta styrk í leggi hæstv. utanrrh. Þetta bréf hafði engin áhrif. Það er ekkert að gerast af hálfu íslenskra stjórnvalda sem segja mætti að séu viðbrögð við þessari vaxandi vá.

Einn stjórnmálaflokkur hefur lagt fram heildstæða stefnu um að bregðast hraðar við, það er Samf. Við lögðum fyrr í vetur fram þáltill. um heildstæða áætlun um að ýta undir notkun endurnýjanlegra innlendra orkugjafa í samgöngum. Samkvæmt hugmyndum okkar á að veita hæstv. fjmrh. opnar heimildir til að fella niður, eins lengi og hann telur þurfa, öll opinber gjöld á borð við þungaskatt, vörugjöld og virðisaukaskatt af þeim samgöngutækjum sem nýta endurnýjanlega orkugjafa og af þeim búnaði sem nýttur er til að framleiða slíka orkugjafa og jafnframt af orkugjöfunum sjálfum svo fremi þeir séu framleiddir innan lands.

Frú forseti. Þetta er nokkuð óvenjuleg tillaga. Hún er óvenjuleg að því leyti að hún rímar ekki alveg við hefðbundin fyrirmæli sem löggjafi setur. Hún hefur í för með sér ákaflega opnar heimildir. Það er stundum ekki talið mjög æskilegt. Í þessu tilviki er það hins vegar verjanlegt vegna þess að þær eru ívilnandi. Hvert er meginmarkmið þessara tillagna? Jú, þær miða að því að auka samkeppnishæfni þeirra ökutækja sem ganga fyrir endurnýjanlegu eldsneyti. Ekkert eitt svið í þjóðlífinu er ábyrgt fyrir því að losa jafnmikið af skaðlegum gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið og einmitt samgöngur. Þess vegna er gleðilegt fyrir mig að hv. formaður samgn. skuli vera í salnum og fylgjast með af þrótti og hefðbundnu kappi eins og hans er von og vísa. Hann er vís til að koma aftur í umræðuna og styðja þá tillögu sem hér liggur fyrir.

Sökum þess hversu stóran hlut samgöngur eiga í losun gróðurhúsalofttegunda skiptir miklu máli að breyta innviðum og eðli samgangna með þeim hætti að stærri hluti þeirra byggist á umhverfisvænni orkugjöfum. Ökutæki af þessu tagi kosta hins vegar miklu meira en ökutæki sem ganga fyrir hefðbundnum orkugjöfum. Þess vegna er tillagan sem við lögðum fram fyrr í vetur með það að höfuðmarkmiði að jafna þann mun. Við leggjum til að öll opinber gjöld verði tekin af slíkum ökutækjum. Þótt það yrði gert í dag mundi það samt sem áður að öllum líkindum ekki duga til að jafna muninn á kostnaði við innkaup á þeim tækjum.

Sem betur fer er tækniþróun sem þessu tengist ör. Senn koma á markað, innan nokkurra missira, bifreiðar sem eru fjöldaframleiddar og ganga fyrir orkugjöfum af þessu tagi. Þær verða samt sem áður, þrátt fyrir fjöldaframleiðsluna, töluvert dýrari um nokkurt árabil en hefðbundnu ökutækin. Það liggur hins vegar fyrir, samkvæmt þeim upplýsingum sem þingmenn Samf. hafa aflað sér, að ef þessi leið yrði farin mundi innkaupsverð á óhefðbundnu ökutækjunum sem ganga fyrir vetni, metangasi eða rafmagni vera svipað og innkaupsverð á hefðbundnu ökutækjunum.

Við í Samf. horfum til framtíðar og beitum framsýni til að leggja hér lagalegan grunn sem gera mundi hæstv. fjmrh. kleift að grípa til ákveðinna aðgerða sem líklegar væru til að auðvelda Íslendingum að nota ökutæki af þessu tagi. Þá framsýni skortir því miður hjá hæstv. ríkisstjórn.

Auðvitað hangir fleira á spýtunni. Íslendingar eru í sérlega góðri aðstöðu til að notfæra sér þessa tækni. Örfáar aðrar þjóðir eiga kost á því að framleiða endurnýjanlegt eldsneyti með þeim hætti að ekkert falli til af skaðlegum lofttegundum.

Í Evrópu flokka menn t.d. orkuframleiðslu með jarðgasi með þeim hætti að það sé græn framleiðsla. Þó er það svo að jafnvel þegar gasið er notað verða alltaf til einhverjar skaðlegar lofttegundir. Á Íslandi, þar sem hægt er að nota vatnsföll og hitaorku úr iðrum jarðar, falla ekki til neinar lofttegundir sem skilgreindar eru sem gróðurhúsalofttegundir. Þetta skiptir miklu máli fyrir framtíðarþróun samgangna á Íslandi og líka til að ýta Íslandi í fylkingarbrjóst hinnar nýju samgöngutækni.

Frú forseti. Þegar við fjölluðum um þetta mál við 1. umr. vakti ég máls á því að Samf. hefði lagt fram þessa stefnumótun. Ég tók fram að í framhaldi af því mundum við gera brtt. við þetta litla frv. sem einungis tekur á smáum þætti. Með breytingartillögunni, eins og ég gat um í upphafi, er lagt til að ráðherra fái til ársins 2006 heimild til að fella niður allt vörugjald af bifreiðum sem knúnar eru af metangasi eða rafmagni. Ráðherrann hafði til síðustu áramóta heimild til að fella niður 120 þús. kr. af vörugjaldinu og upp á það hljóðar hið upphaflega frumvarp. Við leggjum sem sagt til að hann fái að fella það allt niður. Í tilviki þeirra bifreiða sem eru fyrst og fremst notaðar til hefðbundinna fólksflutninga, einkabíla, þá mundi til viðbótar, við þau 120 þús. sem ráðherra hefur heimild hjá þinginu frá 2. umr. til að fella niður, falla niður vörugjöld sem nema um 300--400 þús. kr. af bifreið. Það skiptir ákaflega miklu máli. Í því er mjög sterkur efnahagslegur hvati fyrir þá sem hafa áhuga á að taka upp þennan nýstárlega samgöngumáta. Ríkið þarf með einhverjum hætti að hvetja menn til þess að kaupa sér slíka bíla. Til þess væri einnig hægt að beita niðurgreiðslum en það er ekki leið sem við leggjum til. Við leggjum til að það verði gert með tímabundnum ívilnunum af þessu tagi.

Frú forseti. Ég held að ef maður horfir til hinnar breiðu myndar í þessu dæmi, ef við skoðum hvað hæstv. ríkisstjórn þarf að gera til að standa við skuldbindingar sem hún hefur axlað samkvæmt alþjóðlegum samningum, þá ætti þingheimur að samþykkja þessa tillögu. Hún er skref í áttina, ekki mjög stórt, en þó nægilega langt til að eftir því yrði tekið. Sá vaxandi fjöldi Íslendinga sem íhugar að breyta samgöngumáta sínum til að vernda umhverfið mundi örugglega taka eftir þessu og fleiri láta af því verða.