Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 17:53:54 (7213)

2004-04-29 17:53:54# 130. lþ. 106.11 fundur 683. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (metangas og rafmagn) frv. 29/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[17:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Þetta litla frv. verkar á mig eins og það sé ósköp munaðarlaust í umfjöllun á hinu háa Alþingi. Hæstv. ráðherra sem flytur málið er í útlöndum, í útlöndunum staddur eins og sagt er, og hér er enginn til að fylgja því úr hlaði af hálfu ríkisstjórnar, enda líta menn kannski svo á að málið sé ekki stórt í sniðum.

Það kann að vera og má til sanns vegar færa að það hreyfi ekki miklum fjármunum eða varði ekki mjög umfangsmikið svið í þjóðfélaginu en það er ákaflega táknrænt, þetta mál. Það er ákaflega táknrænt fyrir metnaðarleysi og ódug hæstv. ríkisstjórnar í öllu sem lýtur að umhverfismálum og því að þoka þeim málum eitthvað fram á veginn en ekki aftur á bak. Langmest sláandi við málið er það að seint og um síðir, í lok apríl á því herrans ári 2004, er verið að fjalla um frv. sem loksins kom frá ríkisstjórninni um að setja aftur í gildi heimild sem féll úr gildi um síðustu áramót, til þess að lækka lítillega gjöld af umhverfisvænum bílum. Heimildin sem verið hafði í gildi um nokkurt árabil féll úr gildi um síðustu áramót og sofandahátturinn er slíkur hjá hæstv. ríkisstjórn að margir mánuðir líða þangað til menn loksins koma henni inn aftur. Að vísu á þetta að vera afturvirkt í þeim skilningi að það má endurgreiða þann innflutning sem kynni að hafa farið fram frá áramótum. Ekki er afturvirkni alltaf slæm, a.m.k. ekki þegar hún er ívilnandi eins og hér á við.

Það er dapurlegt, herra forseti, að ekki skuli vera meira að gerast í þessum efnum og ekki vera meiri metnaður í gangi en raun ber vitni hjá hæstv. ríkisstjórn. Það ætti ekki að þurfa að þakka fyrir þessa heimild sem mætti vera rausnarlegri. Reyndar er lagt til að fella megi þessi gjöld alfarið niður þannig að þessi tegund bifreiða, tvíorkubílar eða umhverfisvænir bílar, komi inn án vörugjalda. Það finnst mér alveg sjálfsagður hlutur meðan verið er að ýta undir notkun þeirra sem er sáralítil hér. Því miður er bílaflotinn þannig saman settur á Íslandi að hann er langt á eftir því sem gerist í mörgum nálægum löndum hvað umhverfishliðina snertir. Það hefur því miður verið miklu minni hvati hér til þess að sparneytnir bílar væru notaðir og að tvíorkubílar, umhverfisvænir bílar, væru fluttir inn. Það hefur meira og minna vantað hjá okkur. Helst hefur verið hægt að benda á þessa litlu heimild til að lækka lítillega vörugjöld af umhverfisvænum bílum sem notuðu metangas, rafmagn eða annað sambærilegt, a.m.k. að verulegu leyti.

Áherslur okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði liggja alveg fyrir í þessu efni. Við höfum margflutt tillögur sem lúta að sjálfbærri þróun í þessum efnum eins og öðrum, bæði hvað varðar áherslur í samgöngumálum, sjálfbærri orkustefnu og sjálfbærri þróun samfélagsins almennt. Þar er gríðarlegt verk að vinna á Íslandi, eins og kunnugt er. Við höfum verið meira og minna sofandi í þessum málum og ríkisstjórnin ástundar þann kostulega tvískinnung að fara út í lönd og skrifa þar undir ýmsar góðar samþykktir en gerir svo, að því er séð verður, nánast ekkert með þær. Það þarf ekki að leita lengra en til Norðurlandanna. Ríkisstjórn Íslands hefur skrifað undir metnaðarfullar áherslur um sjálfbæra þróun á Norðurlöndum. Hvað er svo verið að gera hér heima? Eiginlega ekki neitt. Ríkisstjórnin sjálf... (Gripið fram í.) Já, auðvitað hefur hún gert mikið til hið gagnstæða, ef maður færi út í þá sálma, við að stórspilla náttúru landsins eins og kunnugt er.

Ríkisstjórnin sjálf hefur meira að segja sent í Gutenberg fallegar bækur um sjálfbæra stefnu hér, Velferð til framtíðar held ég að hún hafi heitið, hvíta bókin sem var gefin út í tengslum við ráðstefnuna í Jóhannesarborg 2002. Hvað er svo verið að gera? Hvar eru tillögur úr þeirri bók, úr Sjálfbærum Norðurlöndum o.s.frv. í framkvæmd hér á landi? Það fer ósköp lítið fyrir þeim. Hvar eru aðgerðir t.d. til að efla almenningssamgöngur, hvetja til notkunar sparneytinna bíla og reyna eftir atvikum að draga úr óhóflegum einkabílisma hér, orkusóun og öðru slíku? Þær eru hvergi. Það er ekki nóg að senda hv. þm. Hjálmar Árnason út um lönd og álfur að predika vetnissamfélög. Menn eru ekki búnir að leysa málin með því þótt það séu örugglega hin ágætustu ferðalög og fínir fyrirlestrar hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni. Umhverfismálin uppi á Íslandi breytast lítið við það þó að fagnaðarerindið sé boðað í útlöndum. Menn eru gjarnir á að boða ýmis fagnaðarerindi í útlöndum sem þykja kannski ekkert sérstaklega góð þegar komið er upp á skerið. Menn hafa verið í því að boða fagnaðarerindið um besta fiskveiðistjórnarkerfi í heimi en það þykir ekkert sérstaklega gott alls staðar á Íslandi. (Gripið fram í.) Samt fínt í útlöndum.

Ég hef það pínulítið á tilfinningunni stundum um umhverfismálin hér að þau séu til sunnudagsbrúks og til þess að státa sig af í útlöndum en þegar á hólminn er komið er ósköp lítið verið að gera. Er ekki hægt að standa með aðeins metnaðarfyllri hætti að verki en raun ber vitni? Ég held það. Því má segja að það sé ákveðinn prófsteinn á vilja manna í þessum efnum hvaða afdrif brtt. á þskj. 1484 fær. Það er ekki ofrausn að gera tilraun í nokkur ár með að fella alfarið niður vörugjald af þessum tækjum ef það mætti verða til þess að notkun þeirra ykist nokkuð. Hún er sáralítil. Ég veit ekki hvort þau skipta bara tugum, því miður, kannski hundruðum, ökutæki af þessu tagi sem hér eru í notkun í landinu sem er auðvitað sáralítið, hverfandi lítið. Hér eru ekki almenningssamgöngur nýttar með sama hætti og annars staðar og því miður ekki heldur umhverfisvænar í þeim skilningi að notað sé rafmagn eða annað því um líkt. Mér finnst það stundum gleymast í umræðum um léttlesta- eða sporvagnakerfi að það er ekki bara það sem slíkt og almenningssamgöngutæki sem slíkt sem þar gæti komið, heldur líka umhverfisvænir orkugjafar sem þá fylgja nokkurn veginn sjálfkrafa með. Það er augljóst mál að menn mundu hanna slíkt kerfi þannig að það notaði rafmagn eða þá vetni eða aðra slíka vistvæna orkugjafa. En þetta er ekki mikið á dagskrá, því miður, herra forseti.

Svo ranka menn við sér eins og hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson. Auðvitað er gott þegar menn ranka við sér og halda ræður eða boða það á fundum að vá sé fyrir dyrum vegna loftslagsbreytinga, ekki síst hér á norðurslóðum. Ég segi bara: Það er vonum seinna að hæstv. utanrrh. vakni til lífsins í þessum efnum. Hvar var þessi afstaða hans þegar Ísland hamaðist við að fá undanþágur og sleppa hjá ákvæðum Kyoto-bókunarinnar? Ísland lagðist í víking til þess að fá að hafa hér opið hús fyrir stóriðju, alveg hreint árum saman, og þurfa ekki að uppfylla sömu kröfur og önnur iðnríki og velmegunarríki í þeim efnum. Fundin var út sérstök formúla til þess að við gætum verið undanþegin, öllu heldur ekki við, heldur þeir erlendu auðhringar sem kæmu hér til að gera út á náttúruna, að þeir þyrftu örugglega ekki að borga nein umhverfisgjöld. Svo er það sett inn í lög og samþykktir að það sé algjörlega bannað að leggja nokkur sértæk gjöld eða skatta af umhverfisástæðum á stóriðjuna nema það sé lagt á allan iðnað í landinu líka, alla notendur í landinu. Þetta er jafnréttið sem ríkisstjórnin sér nauðsynlegt að ástunda í þessu samhengi. Menn semja t.d. af sér réttinn til þess að vera með einhverja prógressíva skattapólitík, einhverja stýringu, einhverjar aðgerðir til að ná árangri í umhverfismálum og þróa samfélagið áfram í átt til meiri sjálfbærni. Á Íslandi eru möguleikarnir vissulega kannski meiri en víðast hvar annars staðar í heiminum.

Ég sé ekki að við höfum mikið til að státa af í þessum efnum þótt menn gumi endalaust af tölfræðisamanburði og noti sér þar að við hitum húsin okkar með jarðvarma og framleiðum mest af raforku okkar með vatnsorku (Gripið fram í: Og ál.) og jarðhita. Nema hvað? segi ég nú, hvað annað ættum við að nota? Það er ekki eins og það sé mikið til að hrósa sér af. Hvað erum við að gera að öðru leyti? Hvar eru þær áherslur í samgöngumálum, í skattamálum o.s.frv. sem bera einhverri umhverfismeðvitund vitni? Ég sé þær ekki. Þær eru ekki á ferðinni í þessu metnaðarlausa frv. þar sem menn eru að druslast til þess mörgum mánuðum of seint að setja aftur í gildi þessa heimild til að endurgreiða eða lækka um 120 þús. kr. vörugjald af umhverfisvænum bifreiðum. Meiri er metnaðurinn ekki. Hæstv. fjmrh. er að koma þessu í gegnum þingið núna þegar komin eru græn grös. Það eru öll ósköpin. --- Kemur nú hæstv. sjútvrh. í salinn sem mætti líka taka til hjá sér. Það er ekki mikið verið að gera í flotanum til þess að ástunda þar orkusparandi stefnu og annað því um líkt. (Sjútvrh.: Er málþóf?) Hæstv. sjútvrh. mætti koma í ræðustólinn og fara aðeins yfir það með okkur hvernig kvótakerfið og stórútgerðarstefnan þjónar umhverfisvænum markmiðum sem Íslendingar eru þó skuldbundnir til að ástunda. Við skrifuðum undir Ríó-samninginn þar sem m.a. er kveðið sérstaklega á um það að hlúa að vistvænum veiðum, hv. þm. Guðjón Hjörleifsson. Það er bara þannig. Síðan er algjörlega gagnstæð stefna rekin hér þegar til kastanna kemur.

Svona er nú þetta, virðulegur forseti. Ég sá ástæðu til að blanda mér aðeins í umræður undir lokin um þetta munaðarlitla frv. sem hér er á ferðinni, að föður sínum fjarstöddum sem er í útlöndum, sjálfsagt að boða eitthvert fagnaðarerindi, og ber ekki miklum metnaði vitni í þessum málaflokki svo vægt sé til orða tekið.