Siglingavernd

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 19:47:53 (7225)

2004-04-29 19:47:53# 130. lþ. 106.12 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[19:47]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég beini tveimur spurningum til hv. formanns samgn. af þessu tilefni. Önnur varðar 3. og 4. lið þar sem gert er ráð fyrir að verndarfulltrúi skips og höfn geti komið sér saman um verndaráætlun sem leitað skuli eftir samþykki við til Siglingastofnunar. Ég átta mig ekki á því hvað er þarna á ferðinni og vil spyrja hvort verið sé að opna fyrir einhvers konar skemmri skírn, hvort hafnir sem ákveða að hafa ekki siglingavernd eigi með einhverjum hætti að geta brugðist við í einstökum tilfellum.

Aðallega vildi ég, sem varaformaður stjórnar Reykjavíkurhafnar, fá að spyrja hv. þm. um þau atriði sem lúta að því að starfsmenn hafna skuli annast leit á farþegum, m.a. áhafnarmeðlimum og einkanlega í farþegaskipum, sem koma hér talsvert oft að landi. Ég get upplýst formanninn um að það hefur vakið undrun fulltrúa starfsmanna Reykjavíkurhafnar í stjórn þess ágæta fyrirtækis að slíkar skyldur eigi að leggja á hafnarstarfsmenn, að leita á farþegum og áhafnarmeðlimum. Í raun er það ekkert öðruvísi með hafnir en flugvelli, að starfsfólk flugvallanna annast reksturinn en tollgæsla, lögreglumenn eða annað slíkt sérþjálfað starfslið annast þessa þætti í landamæravörslunni. Ég vil spyrja formanninn hvort þetta hafi ekki komið til umfjöllunar í nefndinni.