Siglingavernd

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 19:49:30 (7226)

2004-04-29 19:49:30# 130. lþ. 106.12 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, Frsm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[19:49]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spyr sem eðlilegt er um þessa liði. Þeir voru mikið ræddir í nefndinni, t.d. 3. liðurinn, þ.e. um gæslu í höfnum og kröfu um hafnavernd. Þar er gert ráð fyrir því að, eins og við vitum að gerist, þegar skemmtiferðaskip koma, t.d. til Grundarfjarðar, verði að setja upp sérstaka gæslu þar. Með þessu er ætlunin að bregðast við þeim aukna kostnaði sem það leiðir af sér, t.d. varðandi skemmtiferðaskip.

Hvað varðar leit á fólki þegar það kemur um borð tala menn almennt um að áhafnir skemmtiferðaskipa megi annast það alveg sjálfar. Gert er ráð fyrir því að í tengslum við skemmtiferðaskip þurfi að setja upp sérstakt gæsluhús þar sem verðir verði til staðar. Hin eiginlega hafnavernd og gæsla mun fara fram af hálfu skipshafna skemmtiferðaskipanna.

Hvort starfsmenn hafnanna muni hafa heimild til að leita á fólki þá er gert ráð fyrir því að annaðhvort sé kallað til sérstakt öryggisfyrirtæki, eins og hv. þm. kom inn á varðandi t.d. flughöfnina á Keflavíkurflugvelli, eða að hafnirnar komi sér upp sérstökum öryggisvörðum sem jafnframt væru starfsmenn hafnanna. Í því sambandi var rætt að þær mundu jafnvel leita leiða til að verða ekki fyrir miklum kostnaði vegna siglingaverndar.