Siglingavernd

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 19:58:32 (7230)

2004-04-29 19:58:32# 130. lþ. 106.12 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[19:58]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið er nál. um frv. um siglingavernd afgreitt með sátt frá samgn. Þetta er viðamikið frv. og töluverðar breytingar sem felast í því, breytingar sem við verðum að taka upp vegna alþjóðlegra samninga. Undan því verður ekki komist. Ef við frestuðum gildistöku laganna sem við eigum að vera búin að innleiða fyrir 1. júlí 2004 --- nú styttist óðum í þá dagsetningu --- þá mundum við líklega verða fyrir skakkaföllum hvað varðar fólks- og vöruflutninga milli landa. Ljóst er að ýmis fyrirtæki mundu sniðganga okkur í viðskiptum ef við uppfylltum ekki þessa alþjóðlegu samninga.

Þetta er nokkuð flókið mál. Skipavernd, hafnavernd og farmvernd og það að koma á yfirgripsmiklu eftirlits- og öryggiskerfi lendir á ýmsum aðilum, Siglingastofnun, toll\-yfirvöldum og ekki síst sveitarfélögunum. Þess vegna er mjög mikilvægt að til framkvæmdarinnar sé vandað og að ríkt tillit sé tekið til þess að sá kostnaður sem mun óhjákvæmilega lenda á sveitarfélögunum verði ekki meira íþyngjandi en nauðsyn krefur. Þó að sveitarfélögin hafi heimild til að taka sérstakt gjald fyrir útlögðum kostnaði, sem væri þá eyrnamerkt og skilgreint til þessara öryggisþátta, er samt sem áður mikilvægt varðandi samkeppnisaðstöðu hafnanna að ekki verði settar strangari kröfur um aðgerðir en umfang hafnanna gefur tilefni til.

Það er mikill munur á Reykjavíkurhöfn og höfninni á Þórshöfn, svo ég taki dæmi. Í umfjöllun nefndarinnar var ítarlega farið yfir þetta atriði og er alveg ljóst að það er mikill vilji fyrir því að uppfylla þessa samninga en með sem minnstum kostnaði. Það er t.d. hægt að gera með því að hafa lausar girðingar sem hægt væri að setja upp þegar skip koma að höfnum. Jafnframt væri hægt að þjálfa starfsmenn hafnanna sem öryggisverði. En lögin eru eitt og framkvæmdin annað og ég treysti því að fullt samstarf og sátt verði um að útfæra slíkar aðgerðir.