Siglingavernd

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 20:02:49 (7231)

2004-04-29 20:02:49# 130. lþ. 106.12 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[20:02]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Frumvarpið um siglingavernd á eins og menn vita upptök sín í þeim kröfum sem Bandaríkjamenn hafa reist eftir hryðjuverkaárásina 11. september. Því miður eiga menn ekki kost á öðru en að taka á því vegna þess að annars eru flutningar í hættu að og frá landinu. Það var ágætt samkomulag í nefndinni við alla vinnu við frv. og að mínu viti er verið að gera hlutina skynsamlega. Menn hljóta þó að þurfa að gera breytingar á framkvæmd hlutanna fljótlega því ýmislegt orkar tvímælis þegar menn setja á eftirlit sem þetta og það á eftir að koma í ljós hvernig allt reynist.

Það er hálfdapurlegt að þurfa að horfa fram á það að með lagasetningunni erum við að eyða mjög miklum fjármunum í eftirlit með starfsemi hafna, siglingum, útflutningi á vörum og eftirliti með fólki og farmi sem kemur að og frá landinu. Ég hef áður sagt það í sölum Alþingis í umræðu um málið að það er rétt að menn hafi það á hreinu að málið er ekki neitt óskaplega mikið öryggismál fyrir Íslendinga, því öryggið sem verið er að sækjast eftir er fyrst og fremst fólgið í því að hægt sé að treysta því að í vörum sem koma frá Íslandi séu ekki sprengjur eða eiturefni eða annað slíkt. Þetta er útflutningsvernd að langmestu leyti. Þeir sem fá vörur frá Íslandi, sem hafa vottun um þá meðferð sem hér er lagt upp með að verði, eiga að geta treyst því að það eftirlit sé allt saman í lagi. Við eigum líka að geta treyst því að þær vörur sem koma til landsins frá löndum og höfnum þar sem vernd af þessu tagi er uppi séu öruggar, að við eigum ekki von á neinum eiturefnum, sprengjum eða öðru því um líku með þeim flutningum.

Þar fyrir utan eru flutningar og siglingar í verulegu magni að og frá landinu. Öll skip undir 500 brúttólestum eru undanþegin þessu og í einfaldleika sínum snýr eftirlitið að flutningaskipum yfir 500 tonnum, farþegaskipum og borpöllum, eins og stendur í textanum. Aðrir flutningar, önnur skip og sjóför eru ekki undir lögunum.

Framkvæmdin er orðin nokkurn veginn ljós með frv. Það er líka orðið nokkurn veginn ljóst hvaða hafnir hafa tekið ákvarðanir um að leggja í þann kostnað og gera þær ráðstafanir sem þarf til þess að geta uppfyllt skilyrðin og nokkuð stór hópur hafna í landinu sem mun ekki gera það. Það mun valda ákveðnum vandkvæðum og erfiðleikum að mínu viti og draga enn úr flutningum og siglingum til þeirra hafna sem ekki uppfylla hafnaverndina. Ekki var á það bætandi því að dregið hefur verulega úr útflutningi og siglingum á ýmsar hafnir í landinu á undanförnum árum. Vegna breyttra hátta þeirra sem í flutningum standa og hinna miklu flutninga á landi sem hafa verið teknir upp eru afar fáar hafnir sem annast þá þjónustu sem hér um ræðir. Skip sigla frá Reykjavík, Akureyri og eftir atvikum fáeinum höfnum í viðbót. Annar flutningur er fluttur á bílum að höfnunum til útflutnings og frá innflutningshöfnunum sem er nánast hægt að segja að séu Reykjavík og Akureyri, nema um einhverja sérstaka starfsemi eins og flutninga á fiskimjöli eða öðru slíku er að ræða.

Ég verð að viðurkenna að ég hef dálitlar áhyggjur af því að rekstur hafnanna muni sums staðar fara á verri veg vegna þess sem hér er að gerast. Það mun bætast ofan á þá þróun sem verið hefur, eins og ég sagði áðan, og ekki á hana bætandi.

Öryggi hér á landi eykst afar lítið við breytingarnar sem verið er að stofna til. Við getum, eins og ég sagði áðan, verið nokkuð örugg um það að skip sem koma frá höfnum sem hafnavernd er í hafi verið tekin út en allar hinar siglingarnar eru þar fyrir utan. Það vita þeir sem hyggjast koma hingað einhverjum eiturefnum, sprengjum eða öðru, að þeir þurfa að gera það á skipum undir 500 tonnum eða öðrum skipum en farþegaskipum og borpöllum. (Gripið fram í: Og vöruflutningaskipum.) Vöruflutningaskip undir 500 tonnum geta staðið þarna fyrir utan.

Ég tel því að öryggið aukist ekki mikið vegna breytinganna því að hingað og héðan siglir mikill fjöldi skipa, fiskiskipa, skemmtiferðaskipa, skútur af ýmsu tagi og alls konar för sem fara að og frá eyjunni okkar. Menn skulu því ekki detta í þann pytt að halda að við höfum tryggt öryggi okkar gagnvart hryðjuverkaárásum eða öðru slíku með því sem hér er á ferðinni.

Það er full ástæða til að ræða um þetta og velta þessu fyrir sér vegna þess að hryðjuverkaógnin í heiminum er orðin mikil og við getum engan veginn reiknað með því að mönnum geti ekki dottið það til hugar að gera Íslendingum einhvern óleik miðað við þau markmið sem hryðjuverkamenn hafa, en þau virðast vera að gera sem mestan skaða hjá vestrænum þjóðum. Um þessar mundir virðast hryðjuverkamenn beina skeytum sínum fyrst og fremst að vestrænum þjóðum sem vaða uppi í heiminum. Gæti þeim ekki dottið í hug að hér væri andvaralaust fólk og hægt að gera skaða sem vekti verulega athygli í heiminum? Ég hygg að það væri hægt að gera mjög fjölbreytilegan skaða á Íslandi ef menn gæta ekki að sér í framhaldinu.

Þess vegna er full ástæða til að menn taki til umræðu hverju þurfi að bæta við --- og ég er ekki á þeirri skoðun að ég sé að fara út fyrir efnið --- siglingaverndina í því augnamiði að siglingar að og frá Íslandi hafi viðlíka öryggi og það öryggi sem við erum að tryggja með þeim ærna kostnaði sem við erum að leggja í þá siglingavernd sem verið er að koma á með lagasetningunni sem hér er til umræðu.

Verkefnið er ekki einfalt og auðleyst. Það mundi þýða að koma þyrfti upp aðstöðu í fleiri höfnum í landinu til þess að uppfylla slíka siglingavernd og það þyrfti að sjá til þess að öll skip sem koma til landsins verði tekin út og líka öll skip sem fara frá landinu. Íslendingar gætu þá gefið það vottorð út að menn gætu treyst þeim siglingum sem héðan kæmu og tilkynningar um viðkomandi siglingar væru alltaf til staðar þannig að ef skip frá Íslandi kæmi til hafnar í öðru landi gætu menn skoðað í tölvukerfi hvort siglingin hafi verið tekin út og komist að niðurstöðu um það.

Við ræddum ekki mikið um þetta í nefndinni þó að við höfum rætt málið í heild sinni og gerðum okkur grein fyrir að málið væri þannig í pottinn búið að það sem við erum að gera núna er fyrst og fremst rekið áfram af því að við þurfum að tryggja útflutning okkar og sjá til þess að hann verði hnökralaus og að menn geti treyst því að vörurnar sem koma frá okkur hafi verið teknar út. Ég reikna t.d. með því að Ameríkumenn sem gerðu að kröfu númer eitt að svona yrði tekið til hendinni hvað varðar alheimssiglingar hafi örugglega farið yfir þessi mál frá sinni hendi og muni sjá til þess að þangað komi engin skip öðruvísi en þau séu tekin út og meðhöndluð með þeim hætti sem þarf til þess að hryðjuverkamenn komist ekki til landsins né ógnarvopn þeirra.

Þessir hlutir eru ekki í frv. en eru samt atriði sem ég álít að menn þurfi að fara vandlega yfir í framhaldinu. Það er ekkert gaman að benda á að skoða þurfi svona lagað í fullri alvöru, vegna þess að þetta er óskaplega mikill kostnaður sem um er að ræða. Það kom í ljós við yfirferð á málinu hjá nefndinni að þær hafnir sem þyrftu að bera mikinn kostnað af þessu bera verulega mikinn kostnað, jafnvel hundruð milljóna á ári eins og Reykjavíkurhöfn. Menn eru farnir að horfa til samstarfs um hafnamál ekki síst vegna þess að þeir hafa séð fram á allan kostnaðinn.

Ég vildi fyrst og fremst koma þessu á framfæri í sambandi við málið sem hér er til umræðu og mun ljúka máli mínu með því að láta það koma fram af a.m.k. minni hálfu að mér finnst að stjórnvöld ættu að fara vandlega yfir hvert framhald málsins á að vera. Það er ekki nóg að mínu viti að taka ákvörðun um að sjá til þess að vörur sem koma héðan og fara til annarra landa séu vottaðar. Við hljótum að fara yfir það úr því við erum lögð af stað í þessa göngu að skoða allar siglingar að og frá landinu og fara a.m.k. yfir það áður en menn ákveða að setja ekki slíka vernd á hvað hún mundi kosta og hvaða öryggi við gætum fengið með því að setja hana á.

Ég hef ekki meira um málið að segja, hæstv. forseti, og lýk máli mínu.