Siglingavernd

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 20:18:45 (7232)

2004-04-29 20:18:45# 130. lþ. 106.12 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[20:18]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hér er í reynd á ferðinni enn eitt frv. hæstv. ríkisstjórnar sem leggur aukna skatta á landsmenn. Ljóst er, þótt það sé í sjálfu sér ekki hægt að sakast við hæstv. ríkisstjórn varðandi orsök þessa frv. og ástæður þess að það er lagt fram, að þegar upp er staðið mun frv. hafa í för með sér feikilega mikinn kostnað. Sá kostnaður leggst eftir atvikum á hafnarstjórnir sem eiga, til einföldunar, að innheimta kostnaðinn sem þær bera af þeim aðilum sem reka starfsemi á svæðinu. Við vitum að sjálfsögðu hver það er sem að lokum mun bera kostnaðinn. Hann fellur á axlir skattborgara og neytenda. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að hér er Sjálfstfl. að leggja fram enn eitt skattafrumvarpið á þessu þingi.

Það er óhjákvæmilegt að skoða málið með hliðsjón af því að hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. hafa haft uppi stór orð um nauðsyn þess að lækka skatta. Reyndar var það svo að Sjálfstfl. fór í gegnum síðustu kosningar, fyrst og fremst drifinn af afli loforða um stórfelldar skattalækkanir. Við höfum ekki séð neitt til þeirra á þessu kjörtímabili. Þvert á móti hefur Sjálfstfl. beitt sér fyrir því að hér hafa þegar verið samþykkt fjögur frumvörp sem öll hafa í för með sér hækkanir á þeim gjöldum sem Íslendingar greiða til ríkisins. Í fyrsta lagi má nefna lög um sérstakan bensínskatt, þá lög um þungaskatt og lög sem í reynd hækkuðu tekjuskatt vegna þess að þau felldu niður ákveðna ívilnun til þeirra sem tóku þátt í sérstökum lífeyrissparnaði. Síðast en ekki síst má rifja upp að hæstv. ríkisstjórn lækkaði vaxtabætur. Hér kemur enn eitt frumvarpið sem hefur það í för með sér að Íslendingar greiða meira til ríkisins en áður.

Breskir íhaldsmenn kalla þetta, ef ég má með leyfi forseta grípa til enskrar tungu: ,,tax by stealth``, þ.e. part af hinum hljóðlátu sköttum. Hér eru lögð á gjöld sem auka byrðar landsmanna en þau heita ekki skattar. Þau eru samt sem áður ekkert annað. Þetta vildi ég draga fram í upphafi, herra forseti.

Hinir ágætu, ungu og vösku þingmenn Sjálfstfl. sem skattalækkunarkrafan skolaði, eins og hverjum öðrum góðum sprekum, ekki fúasprekum heldur gildum sprekum, inn á fjörur Alþingis, hafa jafnan talað um nauðsyn þess að lækka skatta, jafnvel hinir eldri úr hópi Sjálfstfl. hafa líka lagt fram harðar kröfur um það. Einn helsti þungavigtarmaðurinn í hópi Sjálfstfl., a.m.k. þegar að efnahagsmálum kemur, hv. þm. Gunnar I. Birgisson, tjaldar ekki til einnar nætur, sá ágæti maður. Hann hefur sagt að hann muni ekki fara úr þessu húsi fyrr en fram er komið frv. sem tímasetur skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar. Hvernig er hv. þm. Gunnari I. Birgissyni svarað? Jú, með enn einu frumvarpinu sem leggur aukinn kostnað á íbúa landsins.

Til að allrar sanngirni sé gætt, herra forseti, vil ég auðvitað halda því til haga að hér er um að ræða alþjóðlegan samning. Við erum að ráðast í breytingar á öryggismálum sem tengjast siglingum til og frá landinu, sem tengjast höfnum okkar. Þessar breytingar eru afleiðingar af samþykkt Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. En hið opinbera hefur samt sem áður val um það með hvaða hætti það fjármagnar slíkar breytingar. Valkostirnir eru tveir. Annars vegar að leggja aukin gjöld á þá sem þurfa að nota þessa þjónustu og hins vegar að leggja til þess fé úr sameiginlegum sjóðum. Nú er það svo, af því hér eru í salnum helstu skattalækkunarpostular Sjálfstfl., að fyrst og fremst þeir hafa bent á að þegar fram koma frv. sem hafa aukinn kostnað í för með sér þá beri ríkinu siðferðileg skylda til að reyna frekar að draga saman í rekstri ríkisins og mæta þeim kostnaði.

Herra forseti. Það er hægt að draga saman í rekstri ríkisins án þess að það bitni á þeim sem njóta velferðarþjónustu hins opinbera. Ég hef á þessum vetri ítrekað bent á nauðsyn þess að stokka upp í ríkisrekstri, stokka upp stofnanir ríkisins og leggja niður heil ráðuneyti. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að ef hæstv. ríkisstjórn, t.d. hæstv. sjútvrh. sem á ungum aldri var ákafur talsmaður þess að menn rækju skilvirkt ríkiskerfi, beitti sér fyrir því að ríkisstjórnin mundi hrinda í framkvæmd því ákvæði sem var að finna í stjórnarsáttmálanum, um gagngera uppstokkun á verkaskiptingu ráðuneyta og á stofnunum hins opinbera, þá væri að sjálfsögðu hægt að finna fjármagn til að koma á móti þeim kostnaði sem leggja þarf til þessa máls.

Ég hef ítrekað bent á að með því að styrkja stofnanir hins opinbera, sameina þær og fækka þeim þá mundi það eitt í sjálfu sér leiða til aukins hagræðis. Kostnaðurinn við að stjórna þeim væri miklu minni. Hvað halda menn að það kosti að reka landbúnaðarráðuneytið, bara yfirstjórn landbúnaðarráðuneytisins? Ég er viss um að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson veit það betur en flestir aðrir í þessum sölum, ef frá er hugsanlega talinn hv. formaður efh.- og viðskn., Pétur H. Blöndal, sem einnig hefur verið ákafur talsmaður þessa.

Ég get upplýst þessa tvo hv. þm. um að það er enginn liður í rekstri landbúnaðarráðuneytisins sem hefur aukist jafnmikið og umfram annað innan vébanda þess ráðuneytis og kostnaðurinn við skrifstofu ráðuneytisins, þ.e. skrifstofu ráðherra. (PHB: En rekstur Alþingis á kvöldin?) Þetta þýðir að ef ráðuneytum væri steypt saman í eitt atvinnuvegaráðuneyti, þeim atvinnuráðuneytum sem við höfum núna, muni sparast með því töluverður kostnaður.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal vill ekki að þingmenn sinni störfum sínum af því að hann telur bersýnilega að það auki kostnað hins opinbera. Hv. þm. getur trútt um talað. Hann er í efh.- og viðskn. og það var fyrst og fremst vegna verkstýringar hans þar sem menn hafa t.d. í dag þurft að tala um mál sem hefði verið hægt að afgreiða í efh.- og viðskn. Það er ekki langt síðan tími þingsins var tekinn í að breyta lögum sem hv. þm. hafði haft frumkvæði að því verkstýra og voru samþykkt fyrir páska, af því það var ekki lögð nógu skilvirk og mikil vinna í það tiltekna mál. (Gripið fram í.)

Það sem ég, herra forseti, er að benda á í þessu tilviki er þetta: Ríkisstjórnin hefur val þegar kemur að því að leggja álögur á fólk til að mæta nýjum og óvæntum kostnaði. Valkostirnir eru tveir. Hún getur reynt að hagræða í rekstri og draga úr útgjöldum hins opinbera. Eins og ég hef bent á er það hægt án þess að það komi niður á velferðarþjónustunni. Á hinn bóginn getur hún tekið þann kost að leggja á nýjar álögur. Það er sá kostur sem ríkisstjórnin hefur tekið með þessu frv.

Við stöndum frammi fyrir því að það eru uppi viðsjár í alþjóðamálum. Það öryggi sem við bjuggum við áður þegar við fórum á milli landa eða fluttum varning á milli landa er horfið. Heimurinn er breyttur. Það er ákaflega miður. Menn reyna að bregðast við nýjum aðstæðum með því að setja upp alþjóðlegar áætlanir sem miða að því að draga úr möguleikum á hermdarverkum. Við því er ekkert að segja. En allt kostar þetta fjármagn. Ríkisstjórnin hefur hrint í framkvæmd þeirri samþykkt sem Alþjóðasiglingamálastofnunin gerði að ég hygg á síðasta ári, eða hvenær sem það var, ég veit það ekki.

Hitt er ljóst að við erum að fjalla um mál sem er svipað öðrum málum sem hingað hafa komið. Fyrir þinginu liggja mál frá hæstv. dómsmrh., tvö eða þrjú, þar sem vissulega er verið að auka öryggi manna þótt í sumum tilvikum sé það umdeilanlegt. Í öllum tilvikum er óumdeilt að þau hafa aukinn kostnað í för með sér. Þetta er kostnaður sem er skyndilegur. Ég bendi á að á þessu þingi hafa komið fram a.m.k. tvö frumvörp á allra síðustu mánuðum eða yfirlýsingar frá ríkisstjórninni um aðgerðir til að draga úr þessari hættu sem kosta munu stórkostlega fjármuni. Þetta frv. kostar hugsanlega einhver hundruð milljóna.

Herra forseti. Þetta er aðeins byrjunin. Það kemur fram að nauðsynlegt sé á næstu árum að ráðast í enn frekari framkvæmdir til að geta staðist þær kröfur sem til okkar verði gerðar. Við höfum engan kost annan en að grípa til þeirra vegna þess að ella rýrnar samkeppnishæfni atvinnulífsins og verður erfiðara fyrir okkur að flytja út varning til eins helsta viðskiptasvæðis okkar í Bandaríkjunum. Þetta kostar allt peninga. Ríkisstjórnin velur þann kost að velta útgjöldunum yfir á neytendur. Það er gert með þessu máli og það hefur verið gert með málum sem hafa komið frá hæstv. dómsmrh. Ég harma það og mér finnst einkennilegt að hv. þingmenn Sjálfstfl., sem helst hafa látið í sér heyra til að andæfa og mótmæla því þegar nýir skattar eru hljóðlega lagðir á landsmenn, skuli ekki taka þátt í þessari umræðu.

Hvað segir hv. þm. Pétur H. Blöndal? Telur hann ekki að það væri æskilegra, til þess að mæta kostnaðinum sem af þessu hlýst, að reyna að draga skynsamlega saman í yfirstjórn ríkisins, hagræða málum og draga úr útgjöldum þar til að mæta þessu í stað þess að leggja enn einu sinni nýjar álögur á landsmenn?