Siglingavernd

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 20:38:26 (7235)

2004-04-29 20:38:26# 130. lþ. 106.12 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, Frsm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[20:38]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég segi við hv. þm. Össur Skarphéðinsson: Mæltu heilt varðandi sparnað ríkisins. Ég minnist þess að hv. þm. hafði ekki mikið við það að athuga þegar umhvrn. var sett á stofn og er núna fjölmennara en sjútvrn. sem skiptir mestu máli í sambandi við undirstöðuatvinnu okkar Íslendinga. Nú vinna menn í umhvrn. við að búa til lög og reglur um að menn megi ekki orðið drepa fæti nema á mjög takmörkuðum svæðum á Íslandi. Eru þetta ekki hin ytri áhrif? Eru þetta ekki auknar skattálögur sem hv. þm. stóð að sem fyrrum umhvrh.? Það er alveg rétt eins og hann kom inn á að það blandast umhvrn. alveg eins og gjaldtökurnar sem nú eru að bresta á varðandi öryggi siglingaverndar og öryggi í höfnum. Ef við ætlum að ástunda útflutning til annarra landa, hvort sem er með sjávarafurðir eða ál, verða þeir öryggisþættir sem rætt hefur verið um varðandi siglingaverndina að vera til staðar til þess að útflutningur geti átt sér stað frá Íslandi.

Hins vegar er það af hinu vonda eins og vopnaleitargjaldið á flugvöllum og öll sú öryggisgæsla sem þar er. Ef við hefðum það ekki á Keflavíkurflugvelli færi engin flugvél frá Íslandi. Hvort sem menn kalla þetta skatt, gjöld, vopnaleitargjald eða annað, þá er þetta gjaldtaka í einni eða annarri mynd sem við verðum að búa við. En það er rangt að kenna því um að það séu skattaglaðir sjálfstæðismenn eða ungir menn í Sjálfstfl. sem verji þetta eða ekki. Þetta er það sem við verðum að búa við, hvort sem okkur líkar betur eða verr.