Siglingavernd

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 20:45:08 (7239)

2004-04-29 20:45:08# 130. lþ. 106.12 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[20:45]

Halldór Blöndal (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú man ég ekki glöggt hvernig það var á síðkvöldum þegar við töluðum saman, hvort matarskattinn hafi nokkru sinni borið á góma. Ég hygg að það sé eitthvert gleggsta dæmið um þær áherslur sem við sjálfstæðismenn höfum haft í skattamálum og má segja að merkilegt sé hversu vel okkur hefur gengið að ná fram þeirri stefnu okkar að lækka skatta á nauðsynjar. Matarskatturinn er frægasta dæmið um það. Ég verð að segja að einhver ömurlegustu skref sem ég hef séð þegar menn stíga feilspor voru þau spor Alþýðuflokksins þegar hann ákvað að slíta stjórnarsamstarfi við okkur sjálfstæðismenn vegna þess að við vildum lækka virðisaukaskatt á matvæli.

Segja má að það sé kannski kjarninn í skattstefnu okkar sjálfstæðismanna að við höfum skilning á því að eftir því sem þjóðfélagið getur með einföldum hætti, beri okkur að reyna að lækka verð á nauðsynjum, þeim sem brýnastar eru fyrir barnafjölskyldur og mannmargar fjölskyldur. Þar kemur matarskatturinn auðvitað fyrst og fremst til. Við landbúnaðarráðherrar höfum auðvitað líka lagt mikla áherslu á nauðsyn þess að greiða niður mjólkurvörur og kindakjöt sem eru af hinu sama en einmitt á þeim punktum hefur Alþýðuflokkurinn staðið gegn tillögum okkar eins og sagan sannar. Að síðustu tókst okkur að vísu að draga þá inn á okkar línu, inn á okkar kant, og má segja að það sé kannski þess vegna sem þetta blíðubros færist nú yfir hv. þm. (Forseti hringir.) þegar hann rifjar það upp að hann hefur a.m.k. stundum verið með lækkun matarskattsins.