Siglingavernd

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 20:49:45 (7241)

2004-04-29 20:49:45# 130. lþ. 106.12 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[20:49]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Virðulegi forseti. Ég veit eiginlega ekki í hvað umræðan stefnir. Hér ræða menn landbúnaðarmál og niðurgreiðslur á mjólk, stjórnmálasöguskýringar og skattahækkanir undir umræðu um þingmál sem ég ætla að minna menn á hvert er, þ.e. siglingavernd. Ég veit því ekki almennilega í hvað umræðurnar í þinginu eru að sigla.

Aftur á móti vegna þeirrar umræðu sem farið hefur fram frá því ég tók síðast til máls langar mig aðeins að koma inn á nokkur atriði sem ég tel að eigi erindi inn í umræðuna.

Menn hafa verið að tala um aukna skatta og álögur á almenning hjá ríkisstjórninni. Vissulega get ég tekið undir það að verið er að auka álögur á almenning með frv., það er alveg ljóst, en okkur er ekki stætt á öðru en að lögfesta þá siglingavernd sem hér er til umræðu.

Mig langar til að minna á að það er annað frv. sem samþykkja þarf fyrir þinglok sem felur í sér verulega skattaaukningu á ferðamenn, alla þá sem fara inn og út úr landinu. Það er frv. sem er nýkomið inn í samgn. þar sem eru verulegar álögur á almenning sem fer eitthvað út fyrir landsteinana. Ég tel að við þyrftum, og við erum reyndar að skoða það í nefndinni, að taka á þeim þætti og við verðum að reyna að lágmarka þær álögur sem verið er að leggja á ferðaþjónustuna. Menn eru með miklar væntingar um aukningu í ferðaþjónustunni í sumar, en niðurstaða skýrslu sem hæstv. samgrh. lét Hagfræðistofnun Háskólans gera um farþegaskatta sýndi fram á að það mundi íþyngja ferðaþjónustunni verulega ef slíkir skattar yrðu auknir. Engu að síður er ríkisstjórnin að hækka þessa skatta verulega og taka hin ýmsu gjöld eins og t.d. öryggisgjaldið, það eru ýmis flugvallargjöld, verið er að hækka lendingargjöld o.s.frv. Ég gæti náttúrlega haft langt mál um hvaða skatta er verið að leggja á.

Sem betur fer hefur umræðan í nefndinni aðeins færst út í það að skoða hvort við getum eitthvað minnkað þessar álögur. Ég ætla að vona að Samf. nái þeim árangri í nefndinni að það verði niðurstaðan að við náum að minnka þær álögur sem þau frv. fela í sér og snúa að fluginu. (GHall: Samf. lætur ekki ...) Ég hugsa það. Með góðu samstarfi við formann nefndarinnar munum við ná því að lækka þær álögur, þá skatta. En engu að síður eru þetta auknir skattar.

Mig langaði aðeins vegna umræðunnar um skipin undir 500 tonnum sem ekkert eftirlit er með, allar skútur og öll minni skip sem hingað koma, að nefna að hingað geta komið hryðjuverkamenn með slíkum skipum og beitt hér öllum mögulegum aðferðum ef þeim sýnist. Þetta frv. tekur ekkert á því. Þeir geta komið inn á hvaða höfn sem er og landað hér eiturefnum og sprengiefni og hvað það er án þess að frv. taki nokkuð á því. Að sjálfsögðu er verið að taka á stærri skipunum eins og komið hefur fram en vissulega er þetta nokkuð sem við þurfum aðeins að huga að því þetta á náttúrlega ekki að veita okkur falskt öryggi, og þarna er öryggisþáttur sem alls ekki er verið að taka á í málinu.

Vegna þess mikla kostnaðar sem hafnirnar þurfa að leggja út í vegna lagasetningarinnar og það verður ekkert hjá því komist að þær geri það, þá skulum við aðeins horfa til þess hvað er fram undan. Það kom fram í nefndinni að Bandaríkjamenn væru með mjög auknar kröfur um að það væri tryggt að allur farmur sem kæmi héðan væri öruggur og í ljósi þess þyrftum við að kaupa hingað til lands ákveðna gámaskanna sem gætu skannað innihald allra gáma sem fara héðan úr landi. Einn slíkur gámaskanni kostar 400 millj., 400--600 millj. Það eru náttúrlega veruleg útgjöld fyrir þær hafnir sem flytja t.d. fisk til annarra landa. Þetta gæti t.d. íþyngt verulega útflutningi á framleiðsluvörum okkar eins og fiski þegar við verðum neydd til að taka upp þessa gámaskanna því það er fram undan, eins og komið hefur fram í nefndinni, að Bandaríkjamenn munu krefjast þess að enginn farmur muni verða tekinn á land í Bandaríkjunum nema hann sé búinn að fara í gegnum slíka skoðun. Við verðum því að koma okkur upp slíkum skönnum þegar þeir verða búnir að setja þær reglur sem er yfirvofandi á næstunni.

Mig langar líka til að nefna aðeins af því menn hafa verið að ræða um kostnaðinn við siglingaverndina að samkvæmt umsögn fjmrn. um frv. kemur fram að ríkislögreglustjóri gerir ráð fyrir að kostnaður embættis síns við innleiðingu siglingaverndar verði um 30 millj. kr., þar af eru 23 millj. kr. til kaupa á vopnum og búnaði fyrir lögregluna. Vopnum og búnaði. Það er eitt af því sem við höfum verulegar áhyggjur af, vopnakaupin sem eru yfirvofandi vegna lagasetningarinnar. Síðan gerir ríkislögreglustjóri ráð fyrir 7 millj. vegna þjálfunar og kynningar lögregluembætta og vinnu við vottun verndarfulltrúa hafnanna. Landhelgisgæslan metur kostnað sinn vegna innleiðingarinnar um 9 millj. kr. og þar af eru 4 millj. kr. vegna kaupa á vopnum og skotheldum vestum fyrir átta manns í áhöfn hvers varðskips.

Það kom nokkuð til umræðu í nefndinni hvernig þessu yrði háttað og hvort innkaupin yrðu eitthvað samræmd hjá þessum embættum, en svo er ekki.

Tollstjórinn í Reykjavík áætlar árlegan kostnað vegna siglingaverndar um 10 millj. kr. Siglingastofnun hefur haldið utan um vinnu hafnanna til þessa og gefið út handbók og haldið námskeið fyrir starfsmenn sem eiga að vinna við þessar verndarráðstafanir. Til þeirrar vinnu hefur stofnunin fengið 10 millj. kr. á aukafjárlögum 2003 og mun fá 11 millj. kr. á fjárlögum 2004. Siglingastofnun áætlar síðan að árlegur kostnaður vegna siglingaverndarinnar verði u.þ.b. 8 millj. kr.

Það er því víða sem kostnaður kemur niður vegna lagasetningarinnar. Það er ekki aðeins að hann muni koma út í verðlagið sem hann vissulega mun gera, ég hef sérstakar áhyggjur af því þegar við þurfum að fara að kaupa gámaskannana sem munu kosta 400--600 milljónir en það mun auðvitað koma niður á útflutningsvörum okkar eins og fiskinum. Það er því sitthvað sem við þurfum að huga að í framtíðinni.

Eins og við höfum talað um fyrr í umræðunni er ýmislegt í pípunum hvað varðar siglingaverndina og við þurfum að vera vel vakandi og fylgjast með því sem er að gerast. Það munu verða settar kröfur á útflutning okkar sem við þurfum að bregðast við og það mun örugglega kosta mun meira en það sem við höfum verið að tala um hér.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að taka aftur til máls en ég sá mig knúna til þess þegar þessi mikla umræða spannst um málið. Ég taldi að ákveðnar upplýsingar vantaði inn í umræðuna, ég held að þær séu nú allar komnar, enda hefur umræðan svolítið farið út um víðan völl og þó að ég telji mig náttúrlega hafa haldið mig alveg við efnið í báðum ræðum mínum hafa einhverjir hér verið að tala um önnur hugðarefni sín sem kannski áttu alveg erindi inn í þingsali en ég er ekki alveg viss hvort þau eru undir liðnum siglingavernd, sérstaklega kannski ekki landbúnaðarmálin, nema við förum út í einhvern víðtækan útflutning á landbúnaðarvörum sem muni lenda í íþyngjandi gjöldum vegna þessara laga sem snúa að þeim útbúnaði sem þarf að kosta til til að geta staðið við kröfur í öðrum löndum.

Vegna gámaskannanna sem ég nefndi áðan var nokkuð rætt hvort það mundi duga til að keyptur yrði einn skanni en þá þyrftu allir þeir vöruflutningar, sem gætu e.t.v. farið um aðrar hafnir, að fara í gegnum eina höfn. Ef gámaskanni yrði keyptur t.d. fyrir Reykjavíkurhöfn þyrftu allir flutningar að fara um þá höfn. Mér dettur það bara í hug þegar ég sé hér hv. þm. Guðjón Hjörleifsson að það væri náttúrlega ansi íþyngjandi fyrir t.d. Vestmannaeyjar sem eru mikil fiskihöfn að þurfa að fara með allan útflutning sinn til Reykjavíkur og láta skanna gámana í Reykjavíkurhöfn. En það er auðvitað verulega íþyngjandi fyrir lítið bæjarfélag að þurfa að kaupa gámaskanna eða tækjabúnað upp á mörg hundruð milljónir eins og þarna er áætlað. Það getur vel verið að við munum fjárfesta í slíku í tveimur höfnum þegar að því kemur og þá sjáum við náttúrlega fram á hvaða flutningar þar verða á ferðinni. Auðvitað mun það líka íþyngja vegakerfinu. Við vitum hvernig það er, það er víst nóg samt, allir þeir þungaflutningar sem þar eru á ferðinni. En ég ætla ekki að lengja þetta spjall meira en orðið er og læt því máli mínu lokið.