Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 21:04:17 (7243)

2004-04-29 21:04:17# 130. lþ. 106.13 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[21:04]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Í frv. sem hér er til umræðu kemur fram að 4. og 6. gr. laganna um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, þessar tvær greinar, eigi að falla brott. Þær varða tekjustofna Þróunarsjóðs sjávarútvegsins. Ég sé að í lögum um Þróunarsjóðinn er tekið fram að hann sé eign ríkisins. Það segir í einni af greinum þessa lagabálks. Í athugasemdum með lagafrv. sé ég jafnframt að samkvæmt áætluðum efnahags- og rekstursreikningi sjóðsins fyrir árið 2003 var hrein eign 318 millj. kr. í árslok á síðasta ári. Ef áætlanir ganga eftir er talið að hrein eign sjóðsins verði 370 millj. kr. í árslok 2009.

Í lögunum um Þróunarsjóðinn kemur fram að hann hefur tekið á sig skuldbindingar, m.a. lán til að fjármagna kaup eða smíði á rannsóknaskipi fyrir Hafrannsóknastofnun. Mig langar til að fá að vita aðeins meira um þetta lán. Hvenær á sú skuld að vera að fullu greidd? Það er fyrri spurning mín. Ég reikna með að gert sé ráð fyrir borði fyrir báru í sjóðnum til að greiða af því láni.

Síðan vildi ég spyrja hvort hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, formaður sjútvn., viti til þess hvort hugsað hafi verið fyrir því hvað eigi eftir að verða um eftirstöðvar sjóðsins, sem samkvæmt lögum er fjárhæð sem er að fullu í eigu ríkisins en eru þó peningar sem útgerðarmenn hafa greitt í þennan sjóð á liðnum árum.