Innköllun varamanna

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 22:38:40 (7255)

2004-04-29 22:38:40# 130. lþ. 106.94 fundur 514#B innköllun varamanna# (um fundarstjórn), EKG
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[22:38]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Hér var spurt úr ræðustólnum hvort ríkisstjórnin styddist raunverulega við þingmeirihluta. Þetta vita allir. Ríkisstjórnin styðst við þingmeirihluta og það er einmitt um það sem málið snýst. Ríkisstjórnin hefur þingmeirihluta. Við þurfum að ná fram máli, það þarf að endurspegla þingviljann og til þess að svo megi vera við þær aðstæður sem núna eru eru kallaðir inn varaþingmenn. Það er bara eðlilegur hlutur. Þannig þarf það að vera í þessu tilviki til þess að þingviljinn komi sem skýrast fram. Ég spyr, virðulegi forseti: Telja menn óeðlilegt að ríkisstjórnarflokkarnir nýti þingstyrk sinn til þess að koma áfram máli sem sannarlega er stutt af meiri hluta Alþingis? Eða telja menn óeðlilegt fyrirkomulag að ríkisstjórnarmeirihlutinn geti kallað á varaþingmenn til að tryggja það að meirihlutavilji Alþingis nái fram að ganga? (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Er það þetta sem hv. þm. telja vera hneyksli? Er það þetta sem þeir telja vera óeðlilegt? (SJS: Hver þarf að borga launin?)