Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 22:48:45 (7261)

2004-04-29 22:48:45# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, ÁÓÁ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[22:48]

Ágúst Ólafur Ágústsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Samfylkingin fordæmir það samráðsleysi sem hæstv. dómsmrh. viðhafði við samningu þessa frv. við nauðsynlega hagsmunaaðila. Samfylkingin fordæmir einnig þau vinnubrögð sem eru viðhöfð við þá lagasetningu sem hér um ræðir. Hér er verið að nýta tækifæri við nauðsynlega breytingu á þessum lögum vegna EES-stækkunarinnar til að gera alls kyns breytingar sem koma EES-stækkuninni ekkert við.

Við í Samfylkingunni buðum meiri hlutanum í allshn. upp á það að greiða fyrir afgreiðslu þess ákvæðis sem lýtur að stækkun EES en geyma önnur ákvæði sem mörg hver eru mjög umdeild. Því tilboði var hafnað.

Herra forseti. Nú stöndum við frammi fyrir frv. með mörg vond ákvæði sem Samfylkingin leggst eindregið gegn. Samfylkingin leggst gegn hinni svokölluðu 24 ára reglu sem skerðir rétt tuga Íslendinga á hverju ári til að sameinast maka sínum á grundvelli hjúskapar. Einnig má nefna hina svokölluðu 66 ára reglu sem kemur í veg fyrir eðlilega fjölskyldusameiningu. Samfylkingin er sömuleiðis á móti því ákvæði.

Samfylkingin er einnig á móti því að sönnunarbyrði varðandi málamyndahjónabönd sé snúið á þá sem giftir eru útlendingum. Við leggjumst einnig gegn því að Útlendingastofnun fái heimild til þess að fara fram á lífsýnatöku úr útlendingum. Svona mætti lengi telja. Við gerum því alvarlegar athugasemdir við marga þætti þessa frv. en í því endurspeglast grundvallarmunur á hugmyndafræði þeirra stjórnmálaflokka sem hér sitja á þingi.