Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 22:52:00 (7262)

2004-04-29 22:52:00# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, KolH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[22:52]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er um að ræða breytingartillögu við 2. gr. frá minni hluta allshn. sem gerir ráð fyrir því að greinarnar um 24 ára regluna og 66 ára regluna svokölluðu falli út. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs erum þeirrar skoðunar að hér sé verið að reyna að innleiða afskaplega mikið misrétti í lög. Hér er verið að leiða reglu í lög sem fer á svig við almennan rétt einstaklinga í landinu. Það er verið að þrengja um of allar dyr og gáttir fyrir útlendinga til að koma hingað til landsins, 24 ára reglan og 66 ára reglan eru verulega íþyngjandi fyrir fólk. Þær eru óréttlátar. Ég styð þessa breytingartillögu og segi já.