Stríðsátökin í Írak

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 10:34:37 (7269)

2004-04-30 10:34:37# 130. lþ. 107.91 fundur 519#B stríðsátökin í Írak# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[10:34]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til að ræða um stöðuna í Írak og þá miklu ábyrgð sem Íslendingar bera á því máli vegna þess að íslenska ríkisstjórnin, án þess að spyrja þjóðina og án þess að sinna lögum um samráð við utanrmn., gerði okkur að beinum þátttakendum með ótvíræðri stuðningsyfirlýsingu við innrásina í Írak.

Ég geri mér grein fyrir því, herra forseti, að hæstv. utanrrh. hefur lögmæta fjarvist í dag og ég geri engar athugasemdir við það. Hér er hins vegar um svo alvarlegt mál að ræða að þingið verður að taka þetta upp og þingið hlýtur að ræða með hvaða hætti það gerir þessi mál upp gagnvart hæstv. ríkisstjórn sem hefur aldrei reynt að leita ráða hjá þinginu eins og þó er kveðið á um í lögum.

Ég lít svo á, herra forseti, að þátttaka okkar í innrásinni í Írak sé svartasti bletturinn á utanríkisstefnu Íslendinga á síðari árum. Og ég tel að ábyrgð þeirra manna sem þá ákvörðun tóku að þinginu forspurðu sé ákaflega mikil.

Nú sjáum við að stjórnleysi ríkir í Írak sem felur það í sér að heilsa og líf almennra borgara fer forgörðum í sífellt vaxandi mæli. Við höfum á síðustu dögum séð og heyrt fregnir af gríðarlegum loftárásum á borgina Falluja og við sjáum núna hvernig Bandaríkjamenn sitja um hina helgu borg Najaf. Það hlýtur að vera krafa okkar sem sitjum á löggjafarsamkundunni að íslenskir ráðherrar upplýsi hvað þeir hafi gert til þess að reyna að koma vitinu fyrir þá menn sem þeir lýstu stuðningi við.

Við höfum jafnframt heyrt af stríðsglæpum nú allra síðustu daga. Írakskir stríðsfangar hafa verið pyntaðir af amerískum hermönnum. Þeir hafa verið vafðir inn í gaddavír. Þeir hafa verið neyddir til kynmaka og það hafa verið brotnir á þeim alþjóðlegir sáttmálar. Við Íslendingar berum ábyrgð á þessu nema við mótmælum því sterklega og íslenska ríkisstjórnin verður að gefa Alþingi til kynna með hvaða hætti hún hefur mótmælt þessu.