Stríðsátökin í Írak

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 10:43:02 (7273)

2004-04-30 10:43:02# 130. lþ. 107.91 fundur 519#B stríðsátökin í Írak# (aths. um störf þingsins), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[10:43]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Nú, þegar rúmt ár er liðið frá því að innrásin í Írak hófst, hefur ástandið þar kannski aldrei verið jafnslæmt og nú. Stríðinu er engan veginn lokið. Daglega fáum við fréttir af miklu mannfalli. Við sjáum myndir af sundurtættum húsum, bílum, líkum, særðu fólki, hörmungum og eymd.

Frjálslyndi flokkurinn hefur allt frá upphafi tekið mjög einarða afstöðu gegn þessu stríði. Við höfum verið á móti því allt frá upphafi. Stríð eru viðbjóðsleg og það var engin ástæða til að ráðast inn í Írak. Það er kominn tími til að íslenska ríkisstjórnin geri hreint fyrir sínum dyrum, fyrir sinni þjóð og að hún segi þjóðinni hvers vegna í ósköpunum við fórum á þennan lista yfir hinar svokölluðu viljugu þjóðir. Við verðum að fá að heyra núna sannleikann um lygina í kringum Írak, sannleikann um lygina því að þetta stríð byggir ekki á neinu nema lygum. Það hafa engin gereyðingarvopn fundist, engin. Það var engin ógn af Írak. Þetta voru hrikaleg mistök og það hljóta allir réttsýnir menn og konur að sjá. Eins og ég sagði áðan er kominn tími til að íslenska ríkisstjórnin með hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson í fararbroddi komi fram fyrir þjóðina og útskýri fyrir henni hvað gerðist þá daga þegar þessi hrikalega og afdrifaríka ákvörðun var tekin, hvers vegna hún var tekin og hvernig þeir réttlæta þá ákvörðun. Þeir hafa aldrei sagt okkur það. Síðan ættu þessir háu herrar að biðja íslensku þjóðina afsökunar og íröksku þjóðina afsökunar og byrja síðan að leita leiða til að koma okkur út úr þessu.

Fréttirnar munu halda áfram að berast af miklu mannfalli. Við munum örugglega fá að heyra fleiri fréttir af pyntingum á stríðsföngum og öðru þess háttar vegna þess, herra forseti, að í myrkrinu eru allir kettir gráir og stríðið gerir alltaf það að verkum að stutt er í villidýrið í mannskepnunni.